Tónlist

Lét hjartað ráða förinni

Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu.
Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu. MYND/Vilhelm

Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu sem nefnist Annan dag. Hann viðurkennir að gamall draumur hafi ræst með útgáfu plötunnar.

„Ég fór í gegnum heilmikið ferli þegar ég var að vinna hana. Hún er einlæg og allt þetta sem ég hef bara ekki gert áður, ég er að átta mig á því núna,“ segir Friðrik Ómar. „Ég hef ekki sungið af einlægni fyrr. Ég er aðeins eldri og reyndari á öllum sviðum lífsins og er meira ég sjálfur.“

Áður hefur Friðrik sungið inn á plötuna „Ég skemmti mér“ ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem seldist í átta þúsund eintökum fyrir síðustu jól. Einnig vakti hann mikla athygli fyrir frammistöðu sína í undankeppni Evróvisjón á síðasta ári.

Önnur lög voru betriFriðrik á tvö lög og fjóra texta á plötunni. Meðal þeirra sem eiga hin lögin eru Jóhann Helgason, Hallgrímur Óskarsson, Stevie Wonder og Van Morrison. „Ég ákvað það þegar ég fór af stað að ég vildi ekki fylla plötuna með lögum eftir mig ef þau voru ekki nógu góð. Mér fannst önnur lög einfaldlega betri og hin bíða bara betri tíma.“ Miði í náttborðsskúffunniFriðrik Ómar blandar á faglegan hátt saman hugljúfum ástarballöðum og léttum popplögum á plötunni. „Ég fór í náttborðsskúffuna mína um daginn og fann miða þar sem ég setti mér markmið fyrir 2006. Ég ætlaði að gera plötu með hjartanu og gerði það. Ég lagði upp með að hún væri góð heild og tók til dæmis út lag daginn sem platan fór í framleiðslu.“ Björgvin fyrirmyndAðspurður segir Friðrik að helstu áhrifavaldar hans í tónlist séu íslenskir. Nefnir hann Björgvin Halldórsson til sögunnar. „Hann er dæmi um mann sem er í bransanum lengi og gerir fullt af spennandi hlutum. Það er kalt á toppnum en hann hefur haldið sér þar. Hann er mín fyrirmynd hvað það snertir,“ segir Friðrik, sem hefur unnið með Björgvini á Broadway og þegar Bo söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands á dögunum.

Friðrik Ómar mun árita nýju plötuna í Smáralind og Kringlunni um helgina. Útgáfutónleikar verða síðan haldnir á Nasa hinn 22. nóvember.freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.