Endurskoðun stjórnarskrárinnar 30. október 2006 00:01 Margir virðast telja, og sumir vona, að ekkert komi út úr vinnu nefndar forsætisráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég tel hins vegar að um ýmsa mikilvæga þætti sé vinnan það langt komin, að nefndin gæti sameinast um ýmsar mikilvægar og tímabærar breytingar, sem forsætisráðherra gæti lagt fyrir Alþingi í tæka tíð fyrir kosningar. Um þetta ætti að geta tekist samstaða með stjórn og stjórnarandstöðu. Þá skoðun byggi ég ekki síst á þeirri merku, en lítt þekktu, ályktun sem Framsókn gerði á flokksþingi sínu í sumar. Í ályktun flokksþingsins kom fram eindreginn vilji Framsóknar til að Alþingi samþykki fyrir kosningar þær breytingar „sem þegar er sátt um á stjórnarskránni". Flokksþingið lagði sérstaka áherslu á að „umræða um þau atriði sem ekki hefur þegar náðst sátt um tefji ekki nauðsynlegar umbætur". Eina málið, sem djúpstæður skoðanamunur hefur komið fram um innan stjórnarskrárnefndar, er málskotsréttur forseta. Það kom ekki á óvart miðað við yfirlýsingar einstakra flokka. Það þarf því engan Einstein til að skilja, að með ályktun sinni var Framsókn að lýsa þeirri skoðun að ágreiningur um málskotsréttinn ætti ekki að spilla öðrum störfum nefndarinnar. Það rímar við það, að enginn þingmaður Framsóknar hefur opinberlega talað fyrir afnámi málskotsréttarins. Þvert á móti hafa áhrifamiklir þingmenn, til dæmis Jónína Bjartmarz, sagt skýrt að ekki sé tímabært að ráðast í slíka breytingu. Mitt mat er, að um flestar aðrar breytingar, sem ræddar hafa verið í nefndinni, sé hægt að ná góðri sátt - og það væri vægast sagt skrítið ef einhver stjórnmálaflokkur legðist gegn því. Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, sagði nýlega í fjölmiðlum að hann teldi unnt að ná sátt um tillögu sem fæli í sér að í framtíðinni yrðu allar breytingar á stjórnarskránni lagðar undir sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er því samþykkur og teldi það framfaraspor. Slík breyting undirstrikar að það er í reynd þjóðin sjálf, sem er hinn formlegi stjórnarskrárgjafi. Ég tel líka að í því fælist áfangi að því að tekin yrði upp í stjórnarskrá heimild til almennings um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild stórmál svo fremi tilskilinn fjöldi óski þess. Í nefndinni hefur einnig farið fram prýðileg og málefnaleg vinna að ýmsum öðrum mikilvægum málum, svo sem um framsal valds, sem ég tel að hægt væri að samþykkja samfara þeirri breytingu, sem Jón Kristjánsson reifaði. Eitt þessara mála er þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Þrjár ástæður liggja til þess að auðvelt ætti að vera að ná samstöðu um að taka ákvæði um þjóðareign upp í stjórnarskrána. Í fyrsta lagi náðist breið samstaða í auðlindanefndinni á sínum tíma um að leggja til sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Í þeirri nefnd voru fulltrúar allra flokka sem áttu sæti á Alþingi. Nefndin lagði fram tæknilega útfærslu á hvernig slíkt ákvæði ætti að hljóða. Um hana náðist líka breið samstaða. Tæpast ætti því ágreiningur um útfærslu að tefja störf stjórnarskrárnefndar. Í öðru lagi er sagt skýrum orðum í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar að hún vilji taka upp í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á sjávarauðlindinni. Það er rétt að rifja upp, að það var Framsóknarflokkurinn sem lagði áherslu á að þetta kæmi inn í stefnuyfirlýsinguna. Miklar umræður höfðu þá orðið innan flokksins og tvær fylkingar, önnur á móti núverandi kvótakerfi en hin hlynnt því, tókust á. Sérstök nefnd náði sátt milli fylkinga sem fólst í að Framsóknarflokkurinn berðist fyrir því að ákvæði um þjóðareign á auðlindum yrði sett í stjórnarskrána. Formaður þeirrar nefndar var Jón Sigurðsson. Hann átti því frumburðarréttinn að sátt Framsóknar um þetta ákvæði og hlýtur að styðja að stjórnarskrárnefnd taki hana upp á sína arma. Hvað með Sjálfstæðisflokkinn? Varla leggjast fulltrúar hans gegn því að stjórnarskrárnefnd hrindi í framkvæmd máli sem er beinlínis í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar - eða hvað? Í þriðja lagi komst undirnefnd stjórnarskrárnefndar, sem starfaði undir forystu eins af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að sömu niðurstöðu og auðlindanefndin á sínum tíma, og varð sammála um svipaða tæknilega útfærslu á ákvæði um þjóðareignina. Stjórn og stjórnarandstaða eru því í reynd sammála um meginatriðin varðandi stjórnarskrána og þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Það væri því illskiljanlegt ef stjórnarskrárnefnd skilaði ekki tillögu að ákvæði um þetta mikilvæga atriði, sem er á stefnu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu - hvað sem líður skoðanamun á öðrum hugmyndum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Össur Skarphéðinsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Margir virðast telja, og sumir vona, að ekkert komi út úr vinnu nefndar forsætisráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég tel hins vegar að um ýmsa mikilvæga þætti sé vinnan það langt komin, að nefndin gæti sameinast um ýmsar mikilvægar og tímabærar breytingar, sem forsætisráðherra gæti lagt fyrir Alþingi í tæka tíð fyrir kosningar. Um þetta ætti að geta tekist samstaða með stjórn og stjórnarandstöðu. Þá skoðun byggi ég ekki síst á þeirri merku, en lítt þekktu, ályktun sem Framsókn gerði á flokksþingi sínu í sumar. Í ályktun flokksþingsins kom fram eindreginn vilji Framsóknar til að Alþingi samþykki fyrir kosningar þær breytingar „sem þegar er sátt um á stjórnarskránni". Flokksþingið lagði sérstaka áherslu á að „umræða um þau atriði sem ekki hefur þegar náðst sátt um tefji ekki nauðsynlegar umbætur". Eina málið, sem djúpstæður skoðanamunur hefur komið fram um innan stjórnarskrárnefndar, er málskotsréttur forseta. Það kom ekki á óvart miðað við yfirlýsingar einstakra flokka. Það þarf því engan Einstein til að skilja, að með ályktun sinni var Framsókn að lýsa þeirri skoðun að ágreiningur um málskotsréttinn ætti ekki að spilla öðrum störfum nefndarinnar. Það rímar við það, að enginn þingmaður Framsóknar hefur opinberlega talað fyrir afnámi málskotsréttarins. Þvert á móti hafa áhrifamiklir þingmenn, til dæmis Jónína Bjartmarz, sagt skýrt að ekki sé tímabært að ráðast í slíka breytingu. Mitt mat er, að um flestar aðrar breytingar, sem ræddar hafa verið í nefndinni, sé hægt að ná góðri sátt - og það væri vægast sagt skrítið ef einhver stjórnmálaflokkur legðist gegn því. Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, sagði nýlega í fjölmiðlum að hann teldi unnt að ná sátt um tillögu sem fæli í sér að í framtíðinni yrðu allar breytingar á stjórnarskránni lagðar undir sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er því samþykkur og teldi það framfaraspor. Slík breyting undirstrikar að það er í reynd þjóðin sjálf, sem er hinn formlegi stjórnarskrárgjafi. Ég tel líka að í því fælist áfangi að því að tekin yrði upp í stjórnarskrá heimild til almennings um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild stórmál svo fremi tilskilinn fjöldi óski þess. Í nefndinni hefur einnig farið fram prýðileg og málefnaleg vinna að ýmsum öðrum mikilvægum málum, svo sem um framsal valds, sem ég tel að hægt væri að samþykkja samfara þeirri breytingu, sem Jón Kristjánsson reifaði. Eitt þessara mála er þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Þrjár ástæður liggja til þess að auðvelt ætti að vera að ná samstöðu um að taka ákvæði um þjóðareign upp í stjórnarskrána. Í fyrsta lagi náðist breið samstaða í auðlindanefndinni á sínum tíma um að leggja til sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Í þeirri nefnd voru fulltrúar allra flokka sem áttu sæti á Alþingi. Nefndin lagði fram tæknilega útfærslu á hvernig slíkt ákvæði ætti að hljóða. Um hana náðist líka breið samstaða. Tæpast ætti því ágreiningur um útfærslu að tefja störf stjórnarskrárnefndar. Í öðru lagi er sagt skýrum orðum í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar að hún vilji taka upp í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á sjávarauðlindinni. Það er rétt að rifja upp, að það var Framsóknarflokkurinn sem lagði áherslu á að þetta kæmi inn í stefnuyfirlýsinguna. Miklar umræður höfðu þá orðið innan flokksins og tvær fylkingar, önnur á móti núverandi kvótakerfi en hin hlynnt því, tókust á. Sérstök nefnd náði sátt milli fylkinga sem fólst í að Framsóknarflokkurinn berðist fyrir því að ákvæði um þjóðareign á auðlindum yrði sett í stjórnarskrána. Formaður þeirrar nefndar var Jón Sigurðsson. Hann átti því frumburðarréttinn að sátt Framsóknar um þetta ákvæði og hlýtur að styðja að stjórnarskrárnefnd taki hana upp á sína arma. Hvað með Sjálfstæðisflokkinn? Varla leggjast fulltrúar hans gegn því að stjórnarskrárnefnd hrindi í framkvæmd máli sem er beinlínis í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar - eða hvað? Í þriðja lagi komst undirnefnd stjórnarskrárnefndar, sem starfaði undir forystu eins af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að sömu niðurstöðu og auðlindanefndin á sínum tíma, og varð sammála um svipaða tæknilega útfærslu á ákvæði um þjóðareignina. Stjórn og stjórnarandstaða eru því í reynd sammála um meginatriðin varðandi stjórnarskrána og þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Það væri því illskiljanlegt ef stjórnarskrárnefnd skilaði ekki tillögu að ákvæði um þetta mikilvæga atriði, sem er á stefnu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu - hvað sem líður skoðanamun á öðrum hugmyndum.