Prófkjör, persónur og leikendur 28. október 2006 00:01 Um þessar mundir standa prófkosningar sem hæst. Kosið er í dag hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og samfylkingarfólki í norðvestur kjördæmi. Mest hefur farið fyrir frambjóðendum sjálfstæðismanna í höfuðborginni. Risastórar auglýsingar þekja síður dagblaðanna og mér skilst að ekki sé flóafriður á sumum heimilum, vegna innhringinga og atkvæðasmölunar. Margir eru þeirrar skoðunar að prófkjör séu óheppileg, að því leyti að ýmsir góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar, sem sannarlega ættu erindi á alþingi Íslendinga, treysta sér ekki í þennan hanaslag. Hafa ekki peninga milli handanna, hafa ekki skara af stuðningsmönnum til að lofsyngja sig, hafa ekki geð í sér til að falbjóða sig á þessum markaði. Ég man vel eftir því þegar ég fór fyrst í prófkjör, ungur maður og ákafur, var Ólafur heitinn Björnsson, prófessor í hagfræði og alþingismaður, sömuleiðis í framboði. Því hefur stundum verið haldið fram að ég, óburðugur strákurinn, hafi fellt Ólaf. Það gerði ég reyndar ekki nema óbeint, en hann komst ekki að frekar en tuttugu, þrjátíu aðrir, sem buðu sig fram. Nei, það sem felldi Ólaf var að hann var ómannblendinn og lítt til þess fallinn að blanda geði við hinn almenna borgara. Hann var nýtur maður í fræðunum og ómetanlegur í umræðum um efnahagsmál, en hann var ekki votegetter, og það var sem felldi hann, þegar prófkjörin skullu á. Með öðrum orðum ekki við hvers manns dyr, ekki hvers manns viðhlæjandi. Og þá er spurningin þessi: hvora manngerðina viljum við frekar? Manninn sem nýtur lýðhylli í krafti vinsælda út á við, eða hinn sem heldur sig til hlés og leggur sitt af mörkum inn á við? Formaður Sjálfstæðisflokksins sá ástæðu til þess á dögunum að taka upp hanskann fyrir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Taldi að honum vegið af óprúttnum andstæðingum flokksins. Enginn hefur lýst sök á hendur sér um þá aðför, enda engum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hugkvæmst að leggja stein í götu eins né neins í þeim flokki, vegna innri baráttu á þeim bæ. Heiðarlegast hefði verið hjá formanninum að beina spjótum sínum að sínu eigin fólki, innan Sjálfstæðisflokksins, sem sækir nú að Birni, bæði leynt og ljóst. Í raun og veru snýst þessi prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna nær eingöngu um það, í hvaða sæti Björn verður, þegar upp er staðið. Hitt er allt borðleggjandi. Þrír af þingmönnum flokksins sem kosnir voru síðast, eru ekki með, þrjú sæti hafa losnað og nokkuð ljóst hverjir verða kosnir í þeirra stað. Af kurteisisástæðum sleppi ég að telja upp nöfn þeirra. En hvað Björn Bjarnason varðar, þá vitum við öll eða flest, að hann er ekki beinlínis maður vinsælda og lýðhylli, en á móti kemur að Björn er sú manngerð, a la Ólafur Björnsson, að vinna sín verk og vinna þau vel. Kannski oft í kyrrþey, kannski ekki alltaf hrópandi um það á torgum úti. Ég hef sem forystumaður í íþróttahreyfingunni í þrjá áratugi, átt samneyti við fjöldann allan af menntamálaráðherrum. Björn var og er í hópi þeirra bestu, ef ekki sá besti. Hann skal njóta þess sannmælis. Mér þætti það ómaklegt, ef þessi stjórnmálamaður fengi slæma útreið í prófkosningum og er ég þó hvorki stuðningsmaður, flokksmaður né kjósandi, þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut. Enda þótt prófkosningar hafi þann kost, að koma í veg fyrir að fámennar klíkur innan flokkanna, raði sínu fólki á lista, þá er hitt augljóst að slíkar kosningar eru að fara úr öllum böndum, þegar frambjóðendur verða að eyða milljónum króna í innihaldslausar auglýsingar og glansmyndir, til að koma sjálfum sér á framfæri. Fyrir hvað stendur þetta fólk? Hvað er í það spunnið? Eiga peningaráð að stýra vali okkar? Er svo komið að fjárreiður og ríkidæmi taka völdin og við sitjum uppi með handbendi auðmagnsins á hinu háa alþingi? Og hvað með stjórnmálaflokkana sjálfa og suma? Er þeim fjarstýrt af auðvaldinu? Eða hvaða skýring er á því fyrirvarlausa frumhlaupi að leyfa allt í einu veiðar á níu langreyðum? Óábyrgt kosningaloforð eða svo maður tali umbúðalaust: framlög í kosningasjóði frá hagsmunaðilum? Ég tel mestu hættu lýðræðisins felast í einmitt þessu, að stjórnmálaflokkarnir og fulltrúar þeirra á þingi og áhrifastöðum í þjóðfélaginu, verði taglhnýtingar og málpípur þeirra sem kosta kosningabaráttuna og kaupa sér frambjóðendur. Til að stemma stigu við því, er ekki nema eitt ráð. Það þarf að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og opna bókhald þeirra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Skoðanir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Um þessar mundir standa prófkosningar sem hæst. Kosið er í dag hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og samfylkingarfólki í norðvestur kjördæmi. Mest hefur farið fyrir frambjóðendum sjálfstæðismanna í höfuðborginni. Risastórar auglýsingar þekja síður dagblaðanna og mér skilst að ekki sé flóafriður á sumum heimilum, vegna innhringinga og atkvæðasmölunar. Margir eru þeirrar skoðunar að prófkjör séu óheppileg, að því leyti að ýmsir góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar, sem sannarlega ættu erindi á alþingi Íslendinga, treysta sér ekki í þennan hanaslag. Hafa ekki peninga milli handanna, hafa ekki skara af stuðningsmönnum til að lofsyngja sig, hafa ekki geð í sér til að falbjóða sig á þessum markaði. Ég man vel eftir því þegar ég fór fyrst í prófkjör, ungur maður og ákafur, var Ólafur heitinn Björnsson, prófessor í hagfræði og alþingismaður, sömuleiðis í framboði. Því hefur stundum verið haldið fram að ég, óburðugur strákurinn, hafi fellt Ólaf. Það gerði ég reyndar ekki nema óbeint, en hann komst ekki að frekar en tuttugu, þrjátíu aðrir, sem buðu sig fram. Nei, það sem felldi Ólaf var að hann var ómannblendinn og lítt til þess fallinn að blanda geði við hinn almenna borgara. Hann var nýtur maður í fræðunum og ómetanlegur í umræðum um efnahagsmál, en hann var ekki votegetter, og það var sem felldi hann, þegar prófkjörin skullu á. Með öðrum orðum ekki við hvers manns dyr, ekki hvers manns viðhlæjandi. Og þá er spurningin þessi: hvora manngerðina viljum við frekar? Manninn sem nýtur lýðhylli í krafti vinsælda út á við, eða hinn sem heldur sig til hlés og leggur sitt af mörkum inn á við? Formaður Sjálfstæðisflokksins sá ástæðu til þess á dögunum að taka upp hanskann fyrir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Taldi að honum vegið af óprúttnum andstæðingum flokksins. Enginn hefur lýst sök á hendur sér um þá aðför, enda engum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hugkvæmst að leggja stein í götu eins né neins í þeim flokki, vegna innri baráttu á þeim bæ. Heiðarlegast hefði verið hjá formanninum að beina spjótum sínum að sínu eigin fólki, innan Sjálfstæðisflokksins, sem sækir nú að Birni, bæði leynt og ljóst. Í raun og veru snýst þessi prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna nær eingöngu um það, í hvaða sæti Björn verður, þegar upp er staðið. Hitt er allt borðleggjandi. Þrír af þingmönnum flokksins sem kosnir voru síðast, eru ekki með, þrjú sæti hafa losnað og nokkuð ljóst hverjir verða kosnir í þeirra stað. Af kurteisisástæðum sleppi ég að telja upp nöfn þeirra. En hvað Björn Bjarnason varðar, þá vitum við öll eða flest, að hann er ekki beinlínis maður vinsælda og lýðhylli, en á móti kemur að Björn er sú manngerð, a la Ólafur Björnsson, að vinna sín verk og vinna þau vel. Kannski oft í kyrrþey, kannski ekki alltaf hrópandi um það á torgum úti. Ég hef sem forystumaður í íþróttahreyfingunni í þrjá áratugi, átt samneyti við fjöldann allan af menntamálaráðherrum. Björn var og er í hópi þeirra bestu, ef ekki sá besti. Hann skal njóta þess sannmælis. Mér þætti það ómaklegt, ef þessi stjórnmálamaður fengi slæma útreið í prófkosningum og er ég þó hvorki stuðningsmaður, flokksmaður né kjósandi, þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut. Enda þótt prófkosningar hafi þann kost, að koma í veg fyrir að fámennar klíkur innan flokkanna, raði sínu fólki á lista, þá er hitt augljóst að slíkar kosningar eru að fara úr öllum böndum, þegar frambjóðendur verða að eyða milljónum króna í innihaldslausar auglýsingar og glansmyndir, til að koma sjálfum sér á framfæri. Fyrir hvað stendur þetta fólk? Hvað er í það spunnið? Eiga peningaráð að stýra vali okkar? Er svo komið að fjárreiður og ríkidæmi taka völdin og við sitjum uppi með handbendi auðmagnsins á hinu háa alþingi? Og hvað með stjórnmálaflokkana sjálfa og suma? Er þeim fjarstýrt af auðvaldinu? Eða hvaða skýring er á því fyrirvarlausa frumhlaupi að leyfa allt í einu veiðar á níu langreyðum? Óábyrgt kosningaloforð eða svo maður tali umbúðalaust: framlög í kosningasjóði frá hagsmunaðilum? Ég tel mestu hættu lýðræðisins felast í einmitt þessu, að stjórnmálaflokkarnir og fulltrúar þeirra á þingi og áhrifastöðum í þjóðfélaginu, verði taglhnýtingar og málpípur þeirra sem kosta kosningabaráttuna og kaupa sér frambjóðendur. Til að stemma stigu við því, er ekki nema eitt ráð. Það þarf að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og opna bókhald þeirra.