Ferskir vindar 5. október 2006 08:04 Kosningavetur er framundan. Óvenjumargir þingmenn hafa hætt á því kjörtímabili sem er að ljúka og fleiri hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það er því útlit fyrir að nokkur endurnýjun verði í þingsölum milli kjörtímabila. Þessi staða opnar tækifæri bæði fyrir stjórnmálaflokkana að hleypa ferskum vindum á lista sína og einnig fyrir einstaklinga sem vilja láta til sín taka með því að gefa kost á sér til þátttöku í stjórnmálum. Prófkjör og uppstillingar á lista er verkefni næstu vikna. Á hverjum degi berast fréttir af framboðum fólks á lista flokkanna. Flest þetta fólk er áður þekkt úr stjórnmálum, annað hvort sitjandi þingmenn eða stjórnmálamenn sem hafa einbeitt sér að öðrum sviðum til þessa en telja sig nú tilbúna í slaginn á Alþingi. Minna er um fólk sem kemur utan frá og hefur til þessa látið til sín taka á öðrum sviðum samfélagsins. Alþingi Íslendinga endurspeglar ekki þjóðina sérstaklega vel í dag. Sú endurnýjun sem framundan er má því skoðast sem tækifæri stjórnmálaflokkanna til að hrista upp í mannavalinu og stilla upp listum með fólki sem kjósendum finnst koma sér við, listum sem eru skipaðir konum og körlum, ungum og öldnum, fólki með margvíslega reynslu, fólki sem hefur lagt sinn skerf til samfélagsins með mörgu og ólíku móti, fólki sem skynjar lífskjör almennings í landinu og hefur reynt sitt af hverju á eigin skinni. Stjórnmál snúast um fólkið í landinu, umhverfi þess og lífskjör í breiðum skilningi. Í stefnuskrám flokkanna og kosningamálum felast mismunandi valkostir fyrir kjósendur. En það er ekki nóg. Kjósendum verður líka að finnast að þeir einstaklingar sem þeim gefst kostur á að velja til þings séu fulltrúar þeirra. Einsleitur hópur fólks þar sem uppistaðan er karlar á miðjum aldri sem hafa verið mislengi í pólitík er ekki til þess fallinn að draga fólk að kjörklefunum. Svo virðist sem áhugi á stjórnmálum fari minnkandi og þekkt er að stjórnmál virðast síður höfða til ungs fólks en áður. Það verður því æ algengara að yngstu kjósendurnir nýti ekki atkvæðisrétt sinn. Ein leiðin til að bregðast við þessari þróun hlýtur að vera sú að listar stjórnmálaflokkanna séu skipaðir breiðum hópi fólks með margvíslega reynslu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála á næstu vikum. Tekst stjórnmálaflokkunum að nýta tækifærið til að hleypa ferskum vindum um lista sína eða mun val kjósenda standa milli lista skipuðum einsleitum hópi, þar sem uppistaðan er karlmenn, vel menntaðir fjölskyldumenn á aldrinum 35 til 60 ára. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Kosningavetur er framundan. Óvenjumargir þingmenn hafa hætt á því kjörtímabili sem er að ljúka og fleiri hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það er því útlit fyrir að nokkur endurnýjun verði í þingsölum milli kjörtímabila. Þessi staða opnar tækifæri bæði fyrir stjórnmálaflokkana að hleypa ferskum vindum á lista sína og einnig fyrir einstaklinga sem vilja láta til sín taka með því að gefa kost á sér til þátttöku í stjórnmálum. Prófkjör og uppstillingar á lista er verkefni næstu vikna. Á hverjum degi berast fréttir af framboðum fólks á lista flokkanna. Flest þetta fólk er áður þekkt úr stjórnmálum, annað hvort sitjandi þingmenn eða stjórnmálamenn sem hafa einbeitt sér að öðrum sviðum til þessa en telja sig nú tilbúna í slaginn á Alþingi. Minna er um fólk sem kemur utan frá og hefur til þessa látið til sín taka á öðrum sviðum samfélagsins. Alþingi Íslendinga endurspeglar ekki þjóðina sérstaklega vel í dag. Sú endurnýjun sem framundan er má því skoðast sem tækifæri stjórnmálaflokkanna til að hrista upp í mannavalinu og stilla upp listum með fólki sem kjósendum finnst koma sér við, listum sem eru skipaðir konum og körlum, ungum og öldnum, fólki með margvíslega reynslu, fólki sem hefur lagt sinn skerf til samfélagsins með mörgu og ólíku móti, fólki sem skynjar lífskjör almennings í landinu og hefur reynt sitt af hverju á eigin skinni. Stjórnmál snúast um fólkið í landinu, umhverfi þess og lífskjör í breiðum skilningi. Í stefnuskrám flokkanna og kosningamálum felast mismunandi valkostir fyrir kjósendur. En það er ekki nóg. Kjósendum verður líka að finnast að þeir einstaklingar sem þeim gefst kostur á að velja til þings séu fulltrúar þeirra. Einsleitur hópur fólks þar sem uppistaðan er karlar á miðjum aldri sem hafa verið mislengi í pólitík er ekki til þess fallinn að draga fólk að kjörklefunum. Svo virðist sem áhugi á stjórnmálum fari minnkandi og þekkt er að stjórnmál virðast síður höfða til ungs fólks en áður. Það verður því æ algengara að yngstu kjósendurnir nýti ekki atkvæðisrétt sinn. Ein leiðin til að bregðast við þessari þróun hlýtur að vera sú að listar stjórnmálaflokkanna séu skipaðir breiðum hópi fólks með margvíslega reynslu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála á næstu vikum. Tekst stjórnmálaflokkunum að nýta tækifærið til að hleypa ferskum vindum um lista sína eða mun val kjósenda standa milli lista skipuðum einsleitum hópi, þar sem uppistaðan er karlmenn, vel menntaðir fjölskyldumenn á aldrinum 35 til 60 ára.