Allir til ábyrgðar í umferðinni 15. september 2006 00:01 Umferðarslys eru að verða ein helsta ógn hins vestræna samfélags. Tollurinn sem þau taka í íslensku samfélagi er stór og slysaalda ágústmánaðar hefur svo sannarlega höggvið stórt skarð í litla þjóð. Íslenskum vegum er stundum líkt við vígvöll og víst er að flestir ökumenn hafa lifað þá tilfinningu undir stýri að finnast þeir geta litlu ráðið um örlög sín og að tilviljun ein hafi forðað stórslysi. Mikil áhættuhegðun er nefnilega stunduð í íslenskri umferð. Áhættuhegðun sem felst fyrst og fremst í hraðakstri en einnig óábyrgum framúrakstri, of lítilli fjarlægð milli bíla og áfram mætti telja. Fórnarlömb umferðarslysa eru orðin 19 það sem af er árinu. Þá eru þeir ótaldir sem misst hafa heilsu um lengri eða skemmri tíma vegna afleiðinga umferðarslysa. Við segjum stopp er yfirskrift þjóðarátaks sem Umferðarstofa, samgönguráðuneytið og aðilar að Umferðarráði ýttu úr vör í gær. Markmiðið er að kalla hvern og einn bílstjóra til ábyrgðar á lífi og limum sínum og samferðamanna sinna, útrýma áhættuhegðun í umferðinni og stuðla að róttækri hugarfarsbreytingu ökumanna. Akstur um þjóðvegi landsins á ekki að vera eins og rússnesk rúlletta. Umferðarslys valda gríðarlegu tjóni, en ekki bara tjóni heldur einnig sorg og missi. Raunveruleg fórnarlömb umferðarslysa eru því fráleitt aðeins þeir sem látast eða slasast. Fórnarlömbin eru líka aðstandendur þessa fólks og allir þeir sem um sárt eiga að binda í kjölfar slyss, stór hópur fólks sem um alla framtíð býr við sáran missi og eilífar spurningar um hvers vegna ástvinur þeirra var frá þeim tekinn í blóma lífsins. Aðstæður á íslenskum vegum eru vissulega víða ekki eins og best væri á kosið. Það er hins vegar á ábyrgð hvers og eins ökumanns að vinna úr aðstæðum hverju sinni. Átak eins og það sem hófst í gær minnir ökumenn á ábyrgð sína og gerir vonandi einhverja þeirra meðvitaðri um ábyrgð sína og skyldur. Samgönguyfirvöld ætla ekki að staðnæmast við hugarfarsátakið, Við segjum stopp, heldur efla eftirlit á vegum og vinna að því að þyngja refsingar við hraðakstursbrotum. Hvort tveggja er gott og gilt. Hitt er ljóst að til viðbótar við ábyrgan akstur hvers og eins þá eru bætur á umferðarmannvirkjum það sem best nýtist í baráttunni gegn umferðarslysum. Breikkun Reykjanesbrautar er til vitnis um það hversu miklu slíkar aðgerðir geta skilað. Verkefni hins almenna borgara er að taka ábyrgð á akstri sínum og aka ævinlega í samræmi við aðstæður. Verkefni samgönguyfirvalda er að stuðla að því að gera ytri aðstæður ökumanna eins öruggar og kostur er með því að bæta vegina og forgangsraða þeim vegabótum þannig að vegakerfið sé fyrst bætt þar sem umferðin er þyngst og slysahætta mest. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Umferðarslys eru að verða ein helsta ógn hins vestræna samfélags. Tollurinn sem þau taka í íslensku samfélagi er stór og slysaalda ágústmánaðar hefur svo sannarlega höggvið stórt skarð í litla þjóð. Íslenskum vegum er stundum líkt við vígvöll og víst er að flestir ökumenn hafa lifað þá tilfinningu undir stýri að finnast þeir geta litlu ráðið um örlög sín og að tilviljun ein hafi forðað stórslysi. Mikil áhættuhegðun er nefnilega stunduð í íslenskri umferð. Áhættuhegðun sem felst fyrst og fremst í hraðakstri en einnig óábyrgum framúrakstri, of lítilli fjarlægð milli bíla og áfram mætti telja. Fórnarlömb umferðarslysa eru orðin 19 það sem af er árinu. Þá eru þeir ótaldir sem misst hafa heilsu um lengri eða skemmri tíma vegna afleiðinga umferðarslysa. Við segjum stopp er yfirskrift þjóðarátaks sem Umferðarstofa, samgönguráðuneytið og aðilar að Umferðarráði ýttu úr vör í gær. Markmiðið er að kalla hvern og einn bílstjóra til ábyrgðar á lífi og limum sínum og samferðamanna sinna, útrýma áhættuhegðun í umferðinni og stuðla að róttækri hugarfarsbreytingu ökumanna. Akstur um þjóðvegi landsins á ekki að vera eins og rússnesk rúlletta. Umferðarslys valda gríðarlegu tjóni, en ekki bara tjóni heldur einnig sorg og missi. Raunveruleg fórnarlömb umferðarslysa eru því fráleitt aðeins þeir sem látast eða slasast. Fórnarlömbin eru líka aðstandendur þessa fólks og allir þeir sem um sárt eiga að binda í kjölfar slyss, stór hópur fólks sem um alla framtíð býr við sáran missi og eilífar spurningar um hvers vegna ástvinur þeirra var frá þeim tekinn í blóma lífsins. Aðstæður á íslenskum vegum eru vissulega víða ekki eins og best væri á kosið. Það er hins vegar á ábyrgð hvers og eins ökumanns að vinna úr aðstæðum hverju sinni. Átak eins og það sem hófst í gær minnir ökumenn á ábyrgð sína og gerir vonandi einhverja þeirra meðvitaðri um ábyrgð sína og skyldur. Samgönguyfirvöld ætla ekki að staðnæmast við hugarfarsátakið, Við segjum stopp, heldur efla eftirlit á vegum og vinna að því að þyngja refsingar við hraðakstursbrotum. Hvort tveggja er gott og gilt. Hitt er ljóst að til viðbótar við ábyrgan akstur hvers og eins þá eru bætur á umferðarmannvirkjum það sem best nýtist í baráttunni gegn umferðarslysum. Breikkun Reykjanesbrautar er til vitnis um það hversu miklu slíkar aðgerðir geta skilað. Verkefni hins almenna borgara er að taka ábyrgð á akstri sínum og aka ævinlega í samræmi við aðstæður. Verkefni samgönguyfirvalda er að stuðla að því að gera ytri aðstæður ökumanna eins öruggar og kostur er með því að bæta vegina og forgangsraða þeim vegabótum þannig að vegakerfið sé fyrst bætt þar sem umferðin er þyngst og slysahætta mest.