Hernaður gegn jöfnuði 17. ágúst 2006 00:01 Þegar kvótakerfið var tekið upp 1984 með endurgjaldslausri úthlutun aflakvóta til útvegsmanna, vöruðu margir við því, að þar væri að óþörfu verið að stíga stórt skref í átt til aukins ójafnaðar á Íslandi. Rökin gegn endurgjaldslausri úthlutun og þá um leið með veiðigjaldi í einhverri mynd snerust bæði um hagkvæmni og réttlæti og ófust saman, því að ranglæti hneigist jafnan til að rýra hagkvæmni eftir ýmsum leiðum, til dæmis með því að tefla auði og völdum upp í hendur óverðugra, sem kunna með hvorugt að fara. Ójafnaðarmenn ganga þá á lagið, og misskipting auðs og tekna vindur upp á sig. Með tímanum tók að bera á aukinni misskiptingu, svo sem vænta mátti, en um þessa þróun var þó engum opinberum staðtölum til að dreifa þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Þetta er ekkert smámál. Hvað segðu menn, ef engar upplýsingar lægju fyrir um hagvöxt og umræðan um hann væri öll byggð á sandi? Veiðigjald var leitt í lög eftir dúk og disk. Ísland er nær eina Evrópulandið, sem engar tekjuskiptingartölur eru birtar um í alþjóðlegum skýrslum. Ekki þar fyrir, að einkaaðilum eins og til dæmis mér sjálfum sé um megn að gera þessa útreikninga, alls ekki. Kjarni málsins er sá, að stjórnvöldum ber skylda til að safna og dreifa upplýsingum um helztu þætti efnahagsmála, og þá einnig um tekjuskiptingu. Opinberar tölur verða ekki vefengdar í hráskinnsleik stjórnmálanna líkt og ýmsir stjórnmálamenn voga sér stundum að vefengja réttar upplýsingar frá einkaaðilum. Ég sneri mér því að gefnu tilefni til ríkisskattstjóra nú í vor og óskaði eftir því, að embættið reiknaði og birti vísitölu ójafnaðar, svo nefndan Gini-stuðul, tólf ár aftur í tímann. Nú liggja tölur ríkisskattstjóraembættisins um Ísland fyrir, svo að hægt er að ganga að þeim vísum á vefsetri embættisins og einnig á vefsetri mínu. Tölurnar sýna, að áhyggjur manna af auknum ójöfnuði reyndust eiga við gild rök að styðjast. Ójöfnuður á Íslandi hefur aukizt til muna ár fram af ári síðan 1993. Gini-stuðullinn er viðtekinn mælikvarði á misskiptingu tekna milli manna og er reiknaður úr gögnum um neyzluútgjöld heimilanna eða tekjur, ýmist samkvæmt neyzlukönnunum eða skattframtölum, og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur eða neyzlu (fullkominn jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar tekjur og neyzla falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Séu tekjur mælikvarðinn, er helzt miðað við heildartekjur að greiddum sköttum og þegnum bótum, svo að tekjujöfnunaráhrifum skatta- og tryggingakerfisins sé haldið til haga. Ef horft er til heimsins alls, nær Gini-stuðullinn frá 25 í Danmörku, Japan, Belgíu, Svíþjóð og Tékklandi, þar sem tekjuskiptingin er jöfnust, upp í 71 í Afríkulandinu Namibíu, þar sem hún er nú talin vera ójöfnust. Jöfnuður á Íslandi var löngum talinn svipaður og annars staðar um Norðurlönd, en svo er ekki lengur. Samkvæmt ríkisskattstjóra var Gini-stuðull Íslands í fyrra 36 eins og á Bretlandi, en þar er misskipting tekna meiri en annars staðar í Evrópu nema í Eistlandi, Portúgal og Tyrklandi. Tölurnar um Ísland eiga við ráðstöfunartekjur sambýlisfólks með fjármagnstekjum samkvæmt skattframtali ásamt barna- og vaxtabótum að frádregnum tekju-, eignar- og fjármagnstekjuskatti. Tölur ríkisskattstjóra sýna, að jöfnunaráhrif skatta- og tryggingakerfisins hafa minnkað jafnt og þétt allt tímabilið. Breytingar á skattkerfinu og tryggingakerfinu undangengin ár hafa því dregið úr jöfnuði. Íslenzki Gini-stuðullinn hefur að jafnaði hækkað um eitt stig á ári og vel það síðan 1993. Mér er ekki kunnugt um, að svo skyndileg umskipti í tekjuskiptingu hafi nokkurn tímann átt sér stað í nokkru nálægu landi, þótt misskipting tekna hafi víða færzt í vöxt að undanförnu vegna tækniframfara og aukinna viðskipta. Tíu stiga munur á Gini-stuðlum milli landa svarar til munarins á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi og á Bretlandi. Það yrðu væntanlega uppi fótur og fit meðal Norðmanna, ef tekjuskiptingin þar í landi hefði á röskum áratug færzt í sama horf og á Bretlandi og stefndi hraðbyri á Bandaríkin, þar sem ójöfnuður er mun meiri en annars staðar í okkar heimshluta, án þess að frá því væri greint á áberandi stað í opinberum hagskýrslum. Nú hefur ríkisskattstjóri svipt hulunni af þessari viðkvæmu hlið á þróun íslenzks samfélags undangengin ár. Svona eiga sýslumenn að vera. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Þegar kvótakerfið var tekið upp 1984 með endurgjaldslausri úthlutun aflakvóta til útvegsmanna, vöruðu margir við því, að þar væri að óþörfu verið að stíga stórt skref í átt til aukins ójafnaðar á Íslandi. Rökin gegn endurgjaldslausri úthlutun og þá um leið með veiðigjaldi í einhverri mynd snerust bæði um hagkvæmni og réttlæti og ófust saman, því að ranglæti hneigist jafnan til að rýra hagkvæmni eftir ýmsum leiðum, til dæmis með því að tefla auði og völdum upp í hendur óverðugra, sem kunna með hvorugt að fara. Ójafnaðarmenn ganga þá á lagið, og misskipting auðs og tekna vindur upp á sig. Með tímanum tók að bera á aukinni misskiptingu, svo sem vænta mátti, en um þessa þróun var þó engum opinberum staðtölum til að dreifa þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Þetta er ekkert smámál. Hvað segðu menn, ef engar upplýsingar lægju fyrir um hagvöxt og umræðan um hann væri öll byggð á sandi? Veiðigjald var leitt í lög eftir dúk og disk. Ísland er nær eina Evrópulandið, sem engar tekjuskiptingartölur eru birtar um í alþjóðlegum skýrslum. Ekki þar fyrir, að einkaaðilum eins og til dæmis mér sjálfum sé um megn að gera þessa útreikninga, alls ekki. Kjarni málsins er sá, að stjórnvöldum ber skylda til að safna og dreifa upplýsingum um helztu þætti efnahagsmála, og þá einnig um tekjuskiptingu. Opinberar tölur verða ekki vefengdar í hráskinnsleik stjórnmálanna líkt og ýmsir stjórnmálamenn voga sér stundum að vefengja réttar upplýsingar frá einkaaðilum. Ég sneri mér því að gefnu tilefni til ríkisskattstjóra nú í vor og óskaði eftir því, að embættið reiknaði og birti vísitölu ójafnaðar, svo nefndan Gini-stuðul, tólf ár aftur í tímann. Nú liggja tölur ríkisskattstjóraembættisins um Ísland fyrir, svo að hægt er að ganga að þeim vísum á vefsetri embættisins og einnig á vefsetri mínu. Tölurnar sýna, að áhyggjur manna af auknum ójöfnuði reyndust eiga við gild rök að styðjast. Ójöfnuður á Íslandi hefur aukizt til muna ár fram af ári síðan 1993. Gini-stuðullinn er viðtekinn mælikvarði á misskiptingu tekna milli manna og er reiknaður úr gögnum um neyzluútgjöld heimilanna eða tekjur, ýmist samkvæmt neyzlukönnunum eða skattframtölum, og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur eða neyzlu (fullkominn jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar tekjur og neyzla falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Séu tekjur mælikvarðinn, er helzt miðað við heildartekjur að greiddum sköttum og þegnum bótum, svo að tekjujöfnunaráhrifum skatta- og tryggingakerfisins sé haldið til haga. Ef horft er til heimsins alls, nær Gini-stuðullinn frá 25 í Danmörku, Japan, Belgíu, Svíþjóð og Tékklandi, þar sem tekjuskiptingin er jöfnust, upp í 71 í Afríkulandinu Namibíu, þar sem hún er nú talin vera ójöfnust. Jöfnuður á Íslandi var löngum talinn svipaður og annars staðar um Norðurlönd, en svo er ekki lengur. Samkvæmt ríkisskattstjóra var Gini-stuðull Íslands í fyrra 36 eins og á Bretlandi, en þar er misskipting tekna meiri en annars staðar í Evrópu nema í Eistlandi, Portúgal og Tyrklandi. Tölurnar um Ísland eiga við ráðstöfunartekjur sambýlisfólks með fjármagnstekjum samkvæmt skattframtali ásamt barna- og vaxtabótum að frádregnum tekju-, eignar- og fjármagnstekjuskatti. Tölur ríkisskattstjóra sýna, að jöfnunaráhrif skatta- og tryggingakerfisins hafa minnkað jafnt og þétt allt tímabilið. Breytingar á skattkerfinu og tryggingakerfinu undangengin ár hafa því dregið úr jöfnuði. Íslenzki Gini-stuðullinn hefur að jafnaði hækkað um eitt stig á ári og vel það síðan 1993. Mér er ekki kunnugt um, að svo skyndileg umskipti í tekjuskiptingu hafi nokkurn tímann átt sér stað í nokkru nálægu landi, þótt misskipting tekna hafi víða færzt í vöxt að undanförnu vegna tækniframfara og aukinna viðskipta. Tíu stiga munur á Gini-stuðlum milli landa svarar til munarins á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi og á Bretlandi. Það yrðu væntanlega uppi fótur og fit meðal Norðmanna, ef tekjuskiptingin þar í landi hefði á röskum áratug færzt í sama horf og á Bretlandi og stefndi hraðbyri á Bandaríkin, þar sem ójöfnuður er mun meiri en annars staðar í okkar heimshluta, án þess að frá því væri greint á áberandi stað í opinberum hagskýrslum. Nú hefur ríkisskattstjóri svipt hulunni af þessari viðkvæmu hlið á þróun íslenzks samfélags undangengin ár. Svona eiga sýslumenn að vera.