Fastir pennar

Menningargróska í alþjóðlegri vídd

Menning og viðskipti eru tveir ólíkir heimar. Þeir eiga þó ýmsa sameign. Ein er sú að hvorugur heimurinn getur án hins verið. Þessir tveir samfélagsheimar rísa því gjarnan og hníga saman.

Útrás íslenskra fyrirtækja sem nýtt hafa sér tækifæri alþjóðavæðingarinnar er hvers manns umræðuefni. Reyndar má með nokkrum sanni segja að efnahagsumræðan hverfist nú orðið öðru fremur um ás útrásarinnar.

En sannast sagna er íslensk útrás annað og meir en atorka og árangur nokkurra dugmikilla framkvæmdamanna í atvinnulífinu. Þeir hafa að vísu breytt miklu í umhverfinu. En breytingar eru einnig að gerast í umhverfi íslenskra mennta og menningar.

Á úthallandi vetri kynnti rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, ný framtíðarmarkmið í starfi skólans. Það á nú að setja í alþjóðlegan samanburð á þann veg að jafna megi til þeirra sem fram úr skara.

Hafi einhver einhverju sinni sagt að nota mætti orð eins og værukærð til að lýsa þessari æðstu menntastofnun landsins má segja að nú gusti um hana. Það er gustur alþjóðlegrar hugsunar og framsýni.

Ein af þeim stofnunum Háskóla Íslands sem gengið hafa í endurnýjun lífdaganna er stofnun í erlendum tungumálum sem fáir vissu um fyrir fimm árum. Nafn hennar hefur síðan verið tengt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands.

Þó að nafnbreytingin hafi vissulega gefið stofnuninni víðtækari skírskotun en áður er það þó innra starf hennar sem hefur gefið henni aukið vægi og meiri víddir. Hún er nú þáttur í útrás íslenskrar menningar og mennta.

Vigdís Finnbogadóttir hefur verið velgerðarsendiherra tungumála á vegum Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það hlutverk felur í sér bæði vegsemd og viðurkenningu á mikilvægu starfi hennar á þessu sviði. Um leið er það lyftistöng fyrir unga og metnaðarfulla rannsóknarstofnun við háskóla í sóknarhug.

Auður Hauksdóttir hefur veitt þessari háskólastofnun forstöðu og plægt akur hennar bæði heima og erlendis. Þeir akrar eru ekki aðeins tengdir norrænu málsamfélagi og menningu. Þeir ná allar götur til Japan.

Þetta er merkt starf sem vert er eftirtektar. Innandyra hafa menn ekki setið og beðið eftir ríkisframlögum. Þeir sem þar fara fyrir hafa fangað athygli fyrirtækja og sjóða bæði heima og erlendis til þess að treysta undirstöður verkefnanna.

Með vissum hætti má segja að hér sé á ferðinni gott dæmi um það hvernig atvinnulífið og menningin geta gengið hönd í hönd fram til sóknar.

Menn þurfa að standa á háum kögunarhóli til þess að sjá slík verkefni og tækifæri. Og vel fer á því að Íslandi skuli með þessum hætti reistar vörður í menningarlegri alþjóðavæðingu.

Á sínum tíma reistu menn Rask minnisvarða. Á hann var meitluð þessi brýning úr Konungsskuggsjá: ef þú villt fullkominn vera í fróðleik, þá nem þú allar tungur, - en týn þó eigi at heldr þinni tungu.

Þessi einfaldi og um leið skýri boðskapur sýnist enn eiga við og lýsir ef til vill best merku alþjóðlegu menningarstarfi á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þar er ekki minni gróska en í viðskiptalífinu.





×