Fastir pennar

Betri vegir í forgangi

Umferð um þjóðvegi landsins hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og áratugi. Ástæðurnar eru margar og má þar nefna aukna bílaeign þjóðarinnar, fjölgun ferðamanna og þá staðreynd að vegirnir bera nú mikinn hluta flutninga sem áður fóru fram á sjó. Aukning hefur því bæði orðið á umferð einkabíla og stórra og mikilla flutningabíla.

Vissulega hefur vegakerfi landsins tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum, til dæmis er bundið slitlag nú komið á flestar fjölfarnar leiðir. Þróun og bætur á vegakerfinu hafa þó ekki haldið í við stóraukna umferð og þjóðvegir landsins eru því ekki eins örugg umferðarmannvirki og þeir gætu verið.

Fjöldi einbreiðra brúa á þjóðvegi 1 er óviðunandi, jafnvel þótt við þeim sé varað með skiltum og blikkandi ljósum. Vissulega eru ekki einbreiðar brýr þar sem umferð er mest en þær verða að hverfa á allra næstu árum, að minnsta kosti af hringveginum. Af samgönguáætlun þeirri sem unnið er eftir er hins vegar ekki annað að sjá en að vinna við fækkun einbreiðra brúa muni enn standa árið 2014, sem er árið sem áætlunin nær til.

Breikkun vega í tvær akreinar í hvora átt, eins og vegfarendur hafa kynnst á nýju Reykjanesbrautinni, er mikil samgöngubót og hefur þegar sannað gildi sitt með tilliti til umferðaröryggis. Miðað við umferðarþunga ætti slíkur vegur með tvöfaldri akrein í hvora átt að liggja að minnsta kosti frá Reykjavík bæði að Hvalfjarðargöngum og austur á Selfoss. Í raun verður að teljast undarlegt að Hellisheiðarvegurinn sem opnaður var fyrr á þessu ári skyldi ekki vera tekinn alla leið í fjórar akreinar, þótt vissulega sé bót í endurbætta veginum miðað við þann gamla.

Auk einbreiðu brúanna og vega með eina akrein í hvora átt verður svo að nefna breidd íslenskra þjóðvega, eða öllu heldur skort á breidd, þ.e. mjóar akreinar og ýmist litlar eða engar öryggisaxlir. Þessir mjóu vegir gera gríðarlegar kröfur til ökumanna um einbeitingu og mat á skynsamlegum hámarkshraða á hverjum stað.

Markmið samgönguáætlunar um öryggi eru metnaðarfull. Ljóst er að ef ætlunin er að ná markmiðum um fækkun umferðarslysa verður að auka fjárveitingar til vegamála, bæta vegi landsins enn hraðar en gert er ráð fyrir í núverandi áætlunum og forgangsraða þannig að áhersla sé lögð á þá staði sem umferðin er þyngst.

Aldrei má þó gera lítið úr ábyrgð ökumanna á lífi og limum sínum og annarra vegfarenda. Á herðum ökumanna hvílir sú skylda að aka ævinlega í samræmi við aðstæður á hverjum stað, einnig þótt þeir kysu að þær væru betri. Óhætt er að fullyrða að íslenskir þjóðvegir bera víðast hvar ekki meiri hraða en þá 90 km á klukkustund sem leyfilegt er að aka á. Hins vegar eru aðstæður á vegum vegna þess hvernig þeir eru úr garði gerðir og einnig vegna umferðar og veðurs oft þannig að mun skynsamlegra er að aka hægar en hámarkshraðinn kveður á um. Þetta ættu ökumenn að hafa hugfast um þá miklu umferðarhelgi sem fram undan er.





×