Ofbeldi í stað alþjóðalaga 29. júlí 2006 00:01 Það er með fullkomnum ólíkindum að utanríkisráðherra Íslands skuli hafa tengt innrás Ísraels í Líbanon við rétt Ísraels til sjálfsvarnar. En þessi ummæli eru því miður í takti við þá tvöfeldni orðræðunnar og siðferðisins sem jafnan kemur upp hjá íslenskum stjórnmálamönnum þegar utanríkismál eru annars vegar. Eða öllu heldur: Þeim stjórnmálamönnum sem gert hafa George W. Bush að leiðarstjörnu lífs síns. Það er líka fjarstæðukennt að ímynda sér að innrás Ísraels í Líbanon komi umheiminum ekkert við og síst af öllu stjórnvöldum í Washington. Bandaríkjastjórn heldur ekki aðeins hlífiskildi yfir Ísrael á alþjóðavettvangi og kemur í veg fyrir að fjölmörgum og gegndarlausum brotum Ísraels á alþjóðalögum sé svarað með viðeigandi aðgerðum frá alþjóðasamfélaginu. Það er ekki einvörðungu svo að Bandaríkin haldi ísraelsku vígvélinni á floti með ómældri fjárhagsaðstoð og sölu hergagna - sem Ísraelsmenn virðast geta pantað að vild hvenær sem lagt er í stríð. Framlag Bandaríkjastjórnar til núverandi stríðsrekstrar Ísraels er mun meira en svo. Eða eigum við að trúa því að sá sem borgar fyrir sýninguna fái engu ráðið um uppfærsluna? Innrás Ísraels í Líbanon er liður í stríðinu gegn hryðjuverkum sem ráðamenn í Washington eru staðráðnir að halda áfram hvað sem tautar og raular þrátt fyrir að útkoman í því hafi verið skelfileg fram að þessu. Bardagarnir í Afganistan halda áfram á 5. ár og kosta tugi mannslífa á degi hverjum. Þar er NATO undirverktaki Bandaríkjastjórnar með svipuðum hætti og Ísrael í Líbanon. Um Írak þarf ekki að fjölyrða. Þar er að bresta á borgarastyrjöld sem bandaríska og breska hernámsliðið hefur annað hvort ekki áhuga á eða burði til að kveða niður. Líbanon er svo þriðja víglínan í stríðinu, enn ein tilraun til að framkvæma útópískan draum Bandaríkjaforseta um ný Miðausturlönd. Ríki vestrænna landnema í Ísrael hefur jafnan haft miklu hlutverki að gegna í áformum Bandaríkjastjórnar um að viðhalda kúgun Araba og niðurlægingu á alþjóðavettvangi. Og eflaust var fyrir löngu búið að velja þetta tiltekna skotmark. Þess er skemmst að minnast að fyrir fáeinum misserum lagði Bandaríkjastjórn allt kapp á að losna við sýrlenskt herlið frá Líbanon. Þetta var árið 2005 og tók gervallt alþjóðasamfélagið undir. Til hvers þurfti erlent hernámslið í friðsömu landi? En hverjum gat heldur dottið í hug að Bandaríkin ætluðu sér eitthvað gott með skyndilegri herstöðvaandstöðu í Líbanon? Nú er komið í ljós til hvers losna þurfti við Sýrlendinga: Það átti að rýma fyrir ísraelska hernum. Ekki er langt síðan að talsmenn Bandaríkjastjórnar, og raunar vestrænir fjölmiðlar upp til hópa, kepptust við að telja okkur trú um að koma ætti á lýðræði í Miðausturlöndum. Framkvæmdin segir hins vegar allt um innistæðuna fyrir þessum fagurgala. Kosinn er forseti í Afganistan. Hann fer svo fram á að NATO-herinn endurskoði vinnubrögð sín en er hunsaður. NATO-herinn í Afganistan fær skipanir sínar frá Washington en ekki Kabúl. Í Írak var kosið þing og skipaður forsætisráðherra, en hann þurfti svo að segja af sér. Hann naut vissulega stuðnings meirihluta þingsins, en bandarísk stjórnvöld voru á móti honum og það eru þau sem setja og fella ríkisstjórnir í hinu nýja Írak. Eftirmaður hans myndast við að mótmæla framferði Bandaríkjahers gagnvart íröskum almenningi - hann er hunsaður jafn afdráttarlaust og hinn meinti þjóðhöfðingi Afganistans. Í Sýrlandi fóru fram kosningar og á Hizbollah þar sæti á þingi og í ríkisstjórn. Hamas vann frjálsar kosningar í Palestínu. En rödd almennings í Palestínu og Líbanon skiptir stjórnvöld í Washington engu. Ísraelski undirverktakinn er jafnan tilbúinn til innrásar í lönd þar sem almenningur fær að tjá vilja sinn með lýðræðislegum hætti en gerir þau mistök að lúta ekki vilja stjórnvalda í Washington. Einræðisríkin Egyptaland, Sádi-Arabía og Jórdanía skapa engin slík vandamál, enda hefur almenningur enga möguleika á að losna við hinar þægu ríkisstjórnir þeirra ríkja. Fyrirætlun Bandaríkjastjórnar er ljós: Það á að skapa ný Miðausturlönd með ofbeldi; koma til valda þægum ríkisstjórnum og tryggja að lýðræðið virki aðeins ef fólk kýs eins og George W. Bush vill að það kjósi. En hversu lengi ætla fjölmiðlar á Vesturlöndum að láta blekkjast? Er langlundargerð ríkisstjórna í Evrópu gagnvart bandarískri heimsvaldastefnu endalaust? Ætlar almenningur í Evrópu endalaust að sætta sig við þennan yfirgang í bland við roluhátt eigin stjórnvalda? Á veröld 21. aldarinnar að mótast af ofbeldismönnum en ekki alþjóðalögum? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Sverrir Jakobsson Mest lesið Halldór 23.11.2024 Halldór Sögufölsun í heimildarþætti RÚV — Svör óskast Jóna Benediktsdóttir,Hjörtur Hjartarson,Katrín Oddsdóttir,Kjartan Jónsson,Kristín Erna Arnardóttir,Sigríður Ólafsdóttir,Þórir Baldursson Skoðun Óframseljanlegt DAGA-kerfi Kári Jónsson Skoðun Kosningaloforðið sem gleymdist? Þorsteinn Siglaugsson Skoðun Eru aðventan og jólin kvíða- eða tilhlökkunarefni? Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir Skoðun Teppuleggjum ekki íslenska náttúru fyrir vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Kjósum á næsta kjörtímabili Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Það er með fullkomnum ólíkindum að utanríkisráðherra Íslands skuli hafa tengt innrás Ísraels í Líbanon við rétt Ísraels til sjálfsvarnar. En þessi ummæli eru því miður í takti við þá tvöfeldni orðræðunnar og siðferðisins sem jafnan kemur upp hjá íslenskum stjórnmálamönnum þegar utanríkismál eru annars vegar. Eða öllu heldur: Þeim stjórnmálamönnum sem gert hafa George W. Bush að leiðarstjörnu lífs síns. Það er líka fjarstæðukennt að ímynda sér að innrás Ísraels í Líbanon komi umheiminum ekkert við og síst af öllu stjórnvöldum í Washington. Bandaríkjastjórn heldur ekki aðeins hlífiskildi yfir Ísrael á alþjóðavettvangi og kemur í veg fyrir að fjölmörgum og gegndarlausum brotum Ísraels á alþjóðalögum sé svarað með viðeigandi aðgerðum frá alþjóðasamfélaginu. Það er ekki einvörðungu svo að Bandaríkin haldi ísraelsku vígvélinni á floti með ómældri fjárhagsaðstoð og sölu hergagna - sem Ísraelsmenn virðast geta pantað að vild hvenær sem lagt er í stríð. Framlag Bandaríkjastjórnar til núverandi stríðsrekstrar Ísraels er mun meira en svo. Eða eigum við að trúa því að sá sem borgar fyrir sýninguna fái engu ráðið um uppfærsluna? Innrás Ísraels í Líbanon er liður í stríðinu gegn hryðjuverkum sem ráðamenn í Washington eru staðráðnir að halda áfram hvað sem tautar og raular þrátt fyrir að útkoman í því hafi verið skelfileg fram að þessu. Bardagarnir í Afganistan halda áfram á 5. ár og kosta tugi mannslífa á degi hverjum. Þar er NATO undirverktaki Bandaríkjastjórnar með svipuðum hætti og Ísrael í Líbanon. Um Írak þarf ekki að fjölyrða. Þar er að bresta á borgarastyrjöld sem bandaríska og breska hernámsliðið hefur annað hvort ekki áhuga á eða burði til að kveða niður. Líbanon er svo þriðja víglínan í stríðinu, enn ein tilraun til að framkvæma útópískan draum Bandaríkjaforseta um ný Miðausturlönd. Ríki vestrænna landnema í Ísrael hefur jafnan haft miklu hlutverki að gegna í áformum Bandaríkjastjórnar um að viðhalda kúgun Araba og niðurlægingu á alþjóðavettvangi. Og eflaust var fyrir löngu búið að velja þetta tiltekna skotmark. Þess er skemmst að minnast að fyrir fáeinum misserum lagði Bandaríkjastjórn allt kapp á að losna við sýrlenskt herlið frá Líbanon. Þetta var árið 2005 og tók gervallt alþjóðasamfélagið undir. Til hvers þurfti erlent hernámslið í friðsömu landi? En hverjum gat heldur dottið í hug að Bandaríkin ætluðu sér eitthvað gott með skyndilegri herstöðvaandstöðu í Líbanon? Nú er komið í ljós til hvers losna þurfti við Sýrlendinga: Það átti að rýma fyrir ísraelska hernum. Ekki er langt síðan að talsmenn Bandaríkjastjórnar, og raunar vestrænir fjölmiðlar upp til hópa, kepptust við að telja okkur trú um að koma ætti á lýðræði í Miðausturlöndum. Framkvæmdin segir hins vegar allt um innistæðuna fyrir þessum fagurgala. Kosinn er forseti í Afganistan. Hann fer svo fram á að NATO-herinn endurskoði vinnubrögð sín en er hunsaður. NATO-herinn í Afganistan fær skipanir sínar frá Washington en ekki Kabúl. Í Írak var kosið þing og skipaður forsætisráðherra, en hann þurfti svo að segja af sér. Hann naut vissulega stuðnings meirihluta þingsins, en bandarísk stjórnvöld voru á móti honum og það eru þau sem setja og fella ríkisstjórnir í hinu nýja Írak. Eftirmaður hans myndast við að mótmæla framferði Bandaríkjahers gagnvart íröskum almenningi - hann er hunsaður jafn afdráttarlaust og hinn meinti þjóðhöfðingi Afganistans. Í Sýrlandi fóru fram kosningar og á Hizbollah þar sæti á þingi og í ríkisstjórn. Hamas vann frjálsar kosningar í Palestínu. En rödd almennings í Palestínu og Líbanon skiptir stjórnvöld í Washington engu. Ísraelski undirverktakinn er jafnan tilbúinn til innrásar í lönd þar sem almenningur fær að tjá vilja sinn með lýðræðislegum hætti en gerir þau mistök að lúta ekki vilja stjórnvalda í Washington. Einræðisríkin Egyptaland, Sádi-Arabía og Jórdanía skapa engin slík vandamál, enda hefur almenningur enga möguleika á að losna við hinar þægu ríkisstjórnir þeirra ríkja. Fyrirætlun Bandaríkjastjórnar er ljós: Það á að skapa ný Miðausturlönd með ofbeldi; koma til valda þægum ríkisstjórnum og tryggja að lýðræðið virki aðeins ef fólk kýs eins og George W. Bush vill að það kjósi. En hversu lengi ætla fjölmiðlar á Vesturlöndum að láta blekkjast? Er langlundargerð ríkisstjórna í Evrópu gagnvart bandarískri heimsvaldastefnu endalaust? Ætlar almenningur í Evrópu endalaust að sætta sig við þennan yfirgang í bland við roluhátt eigin stjórnvalda? Á veröld 21. aldarinnar að mótast af ofbeldismönnum en ekki alþjóðalögum?
Sögufölsun í heimildarþætti RÚV — Svör óskast Jóna Benediktsdóttir,Hjörtur Hjartarson,Katrín Oddsdóttir,Kjartan Jónsson,Kristín Erna Arnardóttir,Sigríður Ólafsdóttir,Þórir Baldursson Skoðun
Sögufölsun í heimildarþætti RÚV — Svör óskast Jóna Benediktsdóttir,Hjörtur Hjartarson,Katrín Oddsdóttir,Kjartan Jónsson,Kristín Erna Arnardóttir,Sigríður Ólafsdóttir,Þórir Baldursson Skoðun