Um eftirlaunaósóma 20. júní 2006 00:01 Ný borgarstjórn í höfuðstaðnum og ný ríkisstjórn í sömu vikunni, ég hugsa að það gerist ekki oft, kannski hefur það aldrei gerst fyrr, en það skiptir ekki svo miklu máli að ég leggi á mig rannsóknir til að komast að því. Framsóknarflokkurinn sem minnkar stöðugt er með lykilhlutverk í báðum þessum stjórnum, skiptir engu að einu sigrarnir sem flokkurinn hefur unnið undanfarið eru á skoðanakönnunum. Formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar er kominn í áhrifastöðu í borginni og hefur nú tækifæri til að hrinda áhugamálum sínum í framkvæmd, sem kunnugt er telur hann skólabúninga þá aðgerð sem helst muni gagnast íslenskum fjölskyldum í lífsins ólgusjó. Sá vaski maður sagði í blaði nú um helgina að hann hefði hætt í stjórnmálum hefði hann ekki komist að í borginni, mér finnst það bera vott um mikla óþolinmæði og lítið úthald. Hann virðist líka frekar fúll út í Jónínu Bjartmarz af því að hún hefur mætt í vinnuna undanfarin þrjú ár og hann því ekki setið sem varamaður hennar á þingi. Eru ungir framsóknarmenn þeirrar skoðunar að fólk eigi skrópa í vinnunni svo varamenn komist á þing ? Sjálfstæðiskonur eru harmi slegnar vegna þess að karlarnir sem sömdu um ríkisstjórnarsamstarfið víluðu og díluðu umhverfisráðuneytið á milli flokka. Sjálfstæðiskona sem átti mikið ógert, að eigin sögn, missti ráðherraembætti og framsóknarkona tók við. Leikkonurnar í þessum þætti stjórnarmyndunarinnar kepptust við að segja okkur að umhverfisráðuneytið væri svo sannarlega mikilvægt jafnvel þótt önnur þeirra hætti að stjórna því og hin tæki við. Það er mikill óþarfi fyrir umhverfisráðherra að tyggja ofan í þjóðina að umhverfisráðuneytið sé mikilvægt, þjóðin veit það. Húsfyllir í Austurbæ á stofnfundi Framtíðarlandsins sýndi að fleirum en fráfarandi eða verðandi umhverfisráðherrum er annt um umhverfismál. Kannski eru samt skiptar skoðanir um hvað umhverfisráðherrar eiga að leggja mesta áherslu á. Akstur bifhjóla utan vega er vissulega áhyggjuefni, stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er umhverfinu hins vegar miklum mun hættulegri. Gaman væri að hafa umhverfisráðherra sem fattaði það. Nú er ár fram að alþingiskosningum, því varla er við öðru að búast en að ríkisstjórnin þrauki til næsta sumars fyrst hún komst í gegnum síðasta klúður forsætisráðherrans fráfarandi. Hann virðist frekar illa tengdur maðurinn sá, undrun konu ætlaði engan enda að taka í þeirri framvindu, en nú eru allir komnir í stóla og þá er ríkisstjórninni örugglega ekkert að vanbúnaði að glíma við efnahagsmálin og þau svörtu ský sem eru á þeim himni. Þingmenn hafa næsta vetur til að laga eftirlaunaskandalinn. Frambjóðendur við síðustu kosningar höfðu enga hugmynd um þá miklu launahækkun sem beið þingmanna og ráðherra á kjörtímabilinu. Því verður varla séð að nokkuð sé því til fyrirstöðu að kippa hneykslinu úr sambandi og byrja aftur þar sem frá var horfið. Þeir sem komnir eru á eftirlaun og hafa því fengið fúlgur greiddar samkvæmt ósómanum geta prísað sig sæla fyrir að hafa grætt í því happdrætti, en eiga engan rétt á að halda áfram að skipta með sér ránsfengnum. Ef hægt er að hækka laun þingmanna og ráðherra með lögum, þá er líka hægt að lækka laun þeirra með lögum. Það er ekki flóknara en það. Dragist þetta fram yfir kosningar geta þau sem þá bjóða sig fram haldið því fram að súperkjörin hafi haft áhrif á framboð þeirra og hafa kannski eitthvað til síns máls. Þess vegna skiptir meginmáli að snúa ofan af þessu fyrir kosningar. Verði það ekki gert finnst mér augljóst að kosið verði um launakjörin. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur hefur lagt fram tillögu um að þingmenn og ráðherrar leggi sitt til nýrrar þjóðarsáttar um laun í landinu með því að gefa eftir eftirlaunin en að hvor hópur fái í staðinn 30 prósenta og 70 prósenta kauphækkun. Ég er búin að lesa þetta oft og þessi er tillagan. Ég skil reyndar ekki alveg hvert framlag þessa hóps launþega yrði til sáttar um launin, nema að við eigum öll að fá 30 prósenta eða 70 prósenta launahækkun. Samkvæmt lógikkinni virðist mér að þeir sem lægri hafa launin ættu að fá 30 prósenta launahækkun og þeir sem hærri hafa þau 70 prósenta. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki bara hissa á þessari tillögu verkalýðsforingjans, ég er alveg gáttuð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Ný borgarstjórn í höfuðstaðnum og ný ríkisstjórn í sömu vikunni, ég hugsa að það gerist ekki oft, kannski hefur það aldrei gerst fyrr, en það skiptir ekki svo miklu máli að ég leggi á mig rannsóknir til að komast að því. Framsóknarflokkurinn sem minnkar stöðugt er með lykilhlutverk í báðum þessum stjórnum, skiptir engu að einu sigrarnir sem flokkurinn hefur unnið undanfarið eru á skoðanakönnunum. Formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar er kominn í áhrifastöðu í borginni og hefur nú tækifæri til að hrinda áhugamálum sínum í framkvæmd, sem kunnugt er telur hann skólabúninga þá aðgerð sem helst muni gagnast íslenskum fjölskyldum í lífsins ólgusjó. Sá vaski maður sagði í blaði nú um helgina að hann hefði hætt í stjórnmálum hefði hann ekki komist að í borginni, mér finnst það bera vott um mikla óþolinmæði og lítið úthald. Hann virðist líka frekar fúll út í Jónínu Bjartmarz af því að hún hefur mætt í vinnuna undanfarin þrjú ár og hann því ekki setið sem varamaður hennar á þingi. Eru ungir framsóknarmenn þeirrar skoðunar að fólk eigi skrópa í vinnunni svo varamenn komist á þing ? Sjálfstæðiskonur eru harmi slegnar vegna þess að karlarnir sem sömdu um ríkisstjórnarsamstarfið víluðu og díluðu umhverfisráðuneytið á milli flokka. Sjálfstæðiskona sem átti mikið ógert, að eigin sögn, missti ráðherraembætti og framsóknarkona tók við. Leikkonurnar í þessum þætti stjórnarmyndunarinnar kepptust við að segja okkur að umhverfisráðuneytið væri svo sannarlega mikilvægt jafnvel þótt önnur þeirra hætti að stjórna því og hin tæki við. Það er mikill óþarfi fyrir umhverfisráðherra að tyggja ofan í þjóðina að umhverfisráðuneytið sé mikilvægt, þjóðin veit það. Húsfyllir í Austurbæ á stofnfundi Framtíðarlandsins sýndi að fleirum en fráfarandi eða verðandi umhverfisráðherrum er annt um umhverfismál. Kannski eru samt skiptar skoðanir um hvað umhverfisráðherrar eiga að leggja mesta áherslu á. Akstur bifhjóla utan vega er vissulega áhyggjuefni, stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er umhverfinu hins vegar miklum mun hættulegri. Gaman væri að hafa umhverfisráðherra sem fattaði það. Nú er ár fram að alþingiskosningum, því varla er við öðru að búast en að ríkisstjórnin þrauki til næsta sumars fyrst hún komst í gegnum síðasta klúður forsætisráðherrans fráfarandi. Hann virðist frekar illa tengdur maðurinn sá, undrun konu ætlaði engan enda að taka í þeirri framvindu, en nú eru allir komnir í stóla og þá er ríkisstjórninni örugglega ekkert að vanbúnaði að glíma við efnahagsmálin og þau svörtu ský sem eru á þeim himni. Þingmenn hafa næsta vetur til að laga eftirlaunaskandalinn. Frambjóðendur við síðustu kosningar höfðu enga hugmynd um þá miklu launahækkun sem beið þingmanna og ráðherra á kjörtímabilinu. Því verður varla séð að nokkuð sé því til fyrirstöðu að kippa hneykslinu úr sambandi og byrja aftur þar sem frá var horfið. Þeir sem komnir eru á eftirlaun og hafa því fengið fúlgur greiddar samkvæmt ósómanum geta prísað sig sæla fyrir að hafa grætt í því happdrætti, en eiga engan rétt á að halda áfram að skipta með sér ránsfengnum. Ef hægt er að hækka laun þingmanna og ráðherra með lögum, þá er líka hægt að lækka laun þeirra með lögum. Það er ekki flóknara en það. Dragist þetta fram yfir kosningar geta þau sem þá bjóða sig fram haldið því fram að súperkjörin hafi haft áhrif á framboð þeirra og hafa kannski eitthvað til síns máls. Þess vegna skiptir meginmáli að snúa ofan af þessu fyrir kosningar. Verði það ekki gert finnst mér augljóst að kosið verði um launakjörin. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur hefur lagt fram tillögu um að þingmenn og ráðherrar leggi sitt til nýrrar þjóðarsáttar um laun í landinu með því að gefa eftir eftirlaunin en að hvor hópur fái í staðinn 30 prósenta og 70 prósenta kauphækkun. Ég er búin að lesa þetta oft og þessi er tillagan. Ég skil reyndar ekki alveg hvert framlag þessa hóps launþega yrði til sáttar um launin, nema að við eigum öll að fá 30 prósenta eða 70 prósenta launahækkun. Samkvæmt lógikkinni virðist mér að þeir sem lægri hafa launin ættu að fá 30 prósenta launahækkun og þeir sem hærri hafa þau 70 prósenta. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki bara hissa á þessari tillögu verkalýðsforingjans, ég er alveg gáttuð.