Útgönguleiðir og Afríka 3. maí 2006 17:00 Mörgum Afríkulöndum fleygir fram, en ýmislegt stendur samt í þeim, þar á meðal þriðja kjörtímabilið. Vandinn er þessi: margar Afríkuþjóðir hafa brennt sig illilega á einræði og óstjórn og hafa því reynt að efla lýðræði með því til dæmis að takmarka kjörgengi forseta sinna við tvö kjörtímabil að bandarískri fyrirmynd. Takmarkið er að veita fersku lofti inn í stjórnmálin með reglulegu millibili og aftra sitjandi forsetum frá því að hanga á völdum sínum eins og hundar á roði. Þetta þykir hafa gefizt vel í Bandaríkjunum og annars staðar. Bandaríkjamenn hafa aðeins einu sinni vikið frá þessari reglu: það var þegar Franklin D. Roosevelt var endurkjörinn forseti í annað sinn 1940, þriðja kjörtímabilið í röð, og aftur 1944. Fram að því hafði það verið órofa hefð, að forsetar Bandaríkjanna sætu í embætti tvö kjörtímabil í mesta lagi. Hefðarrof Roosevelts þótti réttlætanlegt í miðri heimsstyrjöld, og hann sigraði keppinauta sína með yfirburðum í bæði skiptin. andaríkjamenn bættu ákvæði um tvö kjörtímabil forseta í stjórnarskrá sína 1951. Nokkrar Afríkuþjóðir hafa gert hið sama. Fyrir þeim vakir aukið lýðræði og virkari valddreifing eins og í Ameríku. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er ófrávíkjanleg: undan henni verður ekki vikizt undir nokkrum kringumstæðum, og henni er ekki heldur hægt að breyta eftir hentugleikum. Þetta er einn höfuðstyrkur bandarísks samfélags. Öðru máli gegnir um Afríku. Byrjum í Úgöndu. Að loknu löngu harðstjórnarskeiði náði skæruliðaforinginn Yoweri Músevení völdum 1986 og var síðan kjörinn forseti 1996 samkvæmt nýrri stjórnarskrá, sem batt setu á forsetastóli við tvö fimm ára kjörtímabil. Landsstjórnin gekk vel framan af þrátt fyrir ýmsa annmarka. Forsetinn var ótilleiðanlegur að leyfa stjórnmálaflokkum að keppa um hylli kjósenda og bar því við, að frjáls keppni milli flokka væri til þess fallin að ýta undir ættbálkaríg. Slíkur málflutningur hrykki skammt hér heima. Músevení náði endurkjöri 2001. Þegar leið að nýjum kosningum 2006, treysti hann engum til að taka við af sér og lét því breyta stjórnarskránni til að geta farið í framboð þriðja kjörtímabilið í röð og náði kjöri. Honum dugði ekki að hafa setið að völdum samfleytt í tuttugu ár. Hann vildi meira. Hefði hann staðið upp í tæka tíð, hefði hann átt vísan virðingarsess í sögu lands síns. Hann hefur nú trúlega fyrirgert þeim sessi, enda hefur stjórnarfarinu í Úgöndu hrakað til muna mörg undangengin ár og spilling færzt í vöxt. Mótframbjóðandi hans og fyrrum líflæknir var dreginn fyrir dóm fyrir kosningar, sakaður um landráð og fleira. Þessi saga er ekki einsdæmi. Nú stendur Ólúsegun Óbasanjó forseti Nígeríu í sömu sporum: hann treystir engum nema sjálfum sér til að stjórna landinu og leitar leiða til að breyta stjórnarskránni, svo að hann geti setið að völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Honum kann að takast það, og þá mun stjórnarfarinu þar í landi líklega halda áfram að hraka. Óbasanjó fór að ýmsu leyti vel af stað líkt og Músevení, en síðan tók hann til við að tefla af sér, og nú kýs hann að neyta stöðu sinnar til að sitja í embætti langt fram yfir síðasta söludag. Hans bíða ekki heldur góð eftirmæli, takist honum að sveigja stjórnarskrána að vilja sínum, því að með því mun hann grafa undan lýðræði í landi sínu líkt og Músevení hefur gert í Úgöndu. Hvers vegna gera mennirnir þetta? Það stafar meðal annars af því, að nýju stjórnarskrárnar þarna suður frá eru ekki eldfastar og þrískipting valdsins milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds með ströngu gagnkvæmu aðhaldi og eftirliti er ekki heldur nógu skýr og afdráttarlaus. Hefðin er of stutt, lýðræðið of ungt. Hvers vegna eygir Óbasanjó enga útgönguleið? Hvers vegna fer hann ekki á eftirlaun eins og Nelson Mandela forseti Suður-Afríku gerði? og það eftir bara eitt kjörtímabil. Kannski finnst honum það of snemmt. Hvers vegna tekur hann ekki Rafmagnseftirlitið? Af velsæmisástæðum? Varla. Menn hafa nú skipað sjálfa sig í aðrar eins forstjórastöður. Af því að hann þekkir ekki muninn á rakstraumi og riðstraumi? Ekki líklegt. Kannski finnst honum Rafmagnseftirlitið ekki nógu fínt og ekki nógu arðvænlegt: engar utanferðir, engar veizlur, engin athygli, bara straumrof og strípuð laun og vinna. Ég er auðvitað að gera að gamni mínu. Það myndi aldrei hvarfla að lýðkjörnum afrískum leiðtoga að skipa sjálfan sig í embætti á vegum ríkisins. Blöðin myndu draga hann sundur og saman í háði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Mörgum Afríkulöndum fleygir fram, en ýmislegt stendur samt í þeim, þar á meðal þriðja kjörtímabilið. Vandinn er þessi: margar Afríkuþjóðir hafa brennt sig illilega á einræði og óstjórn og hafa því reynt að efla lýðræði með því til dæmis að takmarka kjörgengi forseta sinna við tvö kjörtímabil að bandarískri fyrirmynd. Takmarkið er að veita fersku lofti inn í stjórnmálin með reglulegu millibili og aftra sitjandi forsetum frá því að hanga á völdum sínum eins og hundar á roði. Þetta þykir hafa gefizt vel í Bandaríkjunum og annars staðar. Bandaríkjamenn hafa aðeins einu sinni vikið frá þessari reglu: það var þegar Franklin D. Roosevelt var endurkjörinn forseti í annað sinn 1940, þriðja kjörtímabilið í röð, og aftur 1944. Fram að því hafði það verið órofa hefð, að forsetar Bandaríkjanna sætu í embætti tvö kjörtímabil í mesta lagi. Hefðarrof Roosevelts þótti réttlætanlegt í miðri heimsstyrjöld, og hann sigraði keppinauta sína með yfirburðum í bæði skiptin. andaríkjamenn bættu ákvæði um tvö kjörtímabil forseta í stjórnarskrá sína 1951. Nokkrar Afríkuþjóðir hafa gert hið sama. Fyrir þeim vakir aukið lýðræði og virkari valddreifing eins og í Ameríku. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er ófrávíkjanleg: undan henni verður ekki vikizt undir nokkrum kringumstæðum, og henni er ekki heldur hægt að breyta eftir hentugleikum. Þetta er einn höfuðstyrkur bandarísks samfélags. Öðru máli gegnir um Afríku. Byrjum í Úgöndu. Að loknu löngu harðstjórnarskeiði náði skæruliðaforinginn Yoweri Músevení völdum 1986 og var síðan kjörinn forseti 1996 samkvæmt nýrri stjórnarskrá, sem batt setu á forsetastóli við tvö fimm ára kjörtímabil. Landsstjórnin gekk vel framan af þrátt fyrir ýmsa annmarka. Forsetinn var ótilleiðanlegur að leyfa stjórnmálaflokkum að keppa um hylli kjósenda og bar því við, að frjáls keppni milli flokka væri til þess fallin að ýta undir ættbálkaríg. Slíkur málflutningur hrykki skammt hér heima. Músevení náði endurkjöri 2001. Þegar leið að nýjum kosningum 2006, treysti hann engum til að taka við af sér og lét því breyta stjórnarskránni til að geta farið í framboð þriðja kjörtímabilið í röð og náði kjöri. Honum dugði ekki að hafa setið að völdum samfleytt í tuttugu ár. Hann vildi meira. Hefði hann staðið upp í tæka tíð, hefði hann átt vísan virðingarsess í sögu lands síns. Hann hefur nú trúlega fyrirgert þeim sessi, enda hefur stjórnarfarinu í Úgöndu hrakað til muna mörg undangengin ár og spilling færzt í vöxt. Mótframbjóðandi hans og fyrrum líflæknir var dreginn fyrir dóm fyrir kosningar, sakaður um landráð og fleira. Þessi saga er ekki einsdæmi. Nú stendur Ólúsegun Óbasanjó forseti Nígeríu í sömu sporum: hann treystir engum nema sjálfum sér til að stjórna landinu og leitar leiða til að breyta stjórnarskránni, svo að hann geti setið að völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Honum kann að takast það, og þá mun stjórnarfarinu þar í landi líklega halda áfram að hraka. Óbasanjó fór að ýmsu leyti vel af stað líkt og Músevení, en síðan tók hann til við að tefla af sér, og nú kýs hann að neyta stöðu sinnar til að sitja í embætti langt fram yfir síðasta söludag. Hans bíða ekki heldur góð eftirmæli, takist honum að sveigja stjórnarskrána að vilja sínum, því að með því mun hann grafa undan lýðræði í landi sínu líkt og Músevení hefur gert í Úgöndu. Hvers vegna gera mennirnir þetta? Það stafar meðal annars af því, að nýju stjórnarskrárnar þarna suður frá eru ekki eldfastar og þrískipting valdsins milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds með ströngu gagnkvæmu aðhaldi og eftirliti er ekki heldur nógu skýr og afdráttarlaus. Hefðin er of stutt, lýðræðið of ungt. Hvers vegna eygir Óbasanjó enga útgönguleið? Hvers vegna fer hann ekki á eftirlaun eins og Nelson Mandela forseti Suður-Afríku gerði? og það eftir bara eitt kjörtímabil. Kannski finnst honum það of snemmt. Hvers vegna tekur hann ekki Rafmagnseftirlitið? Af velsæmisástæðum? Varla. Menn hafa nú skipað sjálfa sig í aðrar eins forstjórastöður. Af því að hann þekkir ekki muninn á rakstraumi og riðstraumi? Ekki líklegt. Kannski finnst honum Rafmagnseftirlitið ekki nógu fínt og ekki nógu arðvænlegt: engar utanferðir, engar veizlur, engin athygli, bara straumrof og strípuð laun og vinna. Ég er auðvitað að gera að gamni mínu. Það myndi aldrei hvarfla að lýðkjörnum afrískum leiðtoga að skipa sjálfan sig í embætti á vegum ríkisins. Blöðin myndu draga hann sundur og saman í háði.