Fastir pennar

Smjörþefur orðaglímunnar

Í lok maímánaðar verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Hefðbundnum aðdraganda kosninga með vali frambjóðenda er um það bil að ljúka. Framundan er kosningabarátta um þau stefnumál og viðfangsefni sem frambjóðendur og forystumenn flokkanna vilja láta kjósendur dæma um.

Þess er varla að vænta að orðaglíman að þessu sinni hefjist af fullum þunga fyrr en eftir páska. Smjörþefinn hafa menn eigi að síður fengið nú þegar.

Svo sem efni standa til verða átökin um stjórn Reykjavíkurborgar fyrirferðarmest. Þau hafa aukheldur mesta almenna pólitíska skírskotun. Þar hafa þau veðrabrigði orðið að í fyrsta skipti í tólf ár á Sjálfstæðisflokkurinn raunhæfan möguleika á að endurheimta meirihluta í borgarstjórninni. Eins og sakir standa benda skoðanakannanir til að fylgi flokksins geti legið nærri því marki. En í því efni er ekkert gefið. Margt getur breyst á þeim tíma sem eftir er. Sjálf umræðuátökin eru eftir.

Eftir upplausn Reykjavíkurlistans er ljóst að tveir stjórnmálaflokkar, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, verða meginstoðirnar í borgarstjórninni. Gengi þriggja minni flokka, Framsóknarflokksins, Frjálslyndra og Vinstri grænna, getur þó haft úrslitaáhrif á þá stóru spurningu hvort einn flokkur verður kosinn til ábyrgðar eða hvort samsteypustjórn tveggja eða fleiri flokka mun ráða ríkjum.

Í reynd hefur það ávallt verið svo í Reykjavík, með aðeins einni undantekningu, að einn flokkur eða eitt sameiginlegt framboð hefur hlotið hreinan meirihluta borgarfulltrúa. Það hefur því aðeins einu sinni komið til þess að mynda hefur þurft meirihluta eftir kosningar. Það þótti gefast misjafnlega. Pólitísk ábyrgð hefur því jafnan verið skýrari í borgarstjórn Reykjavíkur en á Alþingi. Nú er meiri óvissa að þessu leyti en verið hefur í þrennum undangengnum kosningum.

Forystumenn þeirra flokka sem stóðu að Reykjavíkurlistanum komust að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að pólitískur grundvöllur væri ekki fyrir samstarfi þeirra eftir næstu kosningar, að minnsta kosti ekki á sömu forsendum og áður. Nú er spurning hvort kjósendur í Reykjavík eru þeim sammála eða hvort þeir vilja senda þeim skilaboð um að halda áfram.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins riðu á vaðið í málefnabaráttunni með, að því er virðist, metnaðarfullri stefnuyfirlýsingu um úrbætur í málefnum aldraðra. Líklegt er að aðrir flokkar fylgi í kjölfarið á því sviði. Hér er um að ræða mál sem kallar á úrlausnir.

Að öðru leyti hefur umræða forystumanna flokkanna snúist um mál eins og hraðbraut fyrir sundin og hvort gera eigi nýjan flugvöll. Reyndar hafa deilur þeirra nær einvörðungu staðið um þessi efni. Vissulega þurfa þeir að hafa skoðanir á málum sem þessum því þau lúta að skipulagi borgarinnar.

Kjarni málsins er hins vegar sá að bæði svokölluð Sundabraut og Reykjavíkurflugvöllur eru á kostnaðarkönnu samgönguráðherra. Það fer illa á því að borgarfulltrúar gefi mikið af loforðum á kostnað ríkissjóðs. Kosningabarátta af því tagi er of ódýr.

Þegar út í sjálfa málefnabaráttu kosninganna er komið vilja menn heyra hvernig flokkarnir ætla að ráðstafa tekjum borgarsjóðs, ekki ríkissjóðs. Þess er að vænta að umræðan falli í þann farveg þegar til kastanna kemur.






×