Ástin á gömlum skoðunum 29. mars 2006 02:05 Það er löng hefð fyrir því á Íslandi að menn beri djúpa virðingu fyrir eigin skoðunum. Einbeittur vilji til að skipta ekki um skoðun, hvernig sem tilveran breytist, hefur verið álitin aðall hins sanna manns. Þess vegna minna íslenskar umræður um stjórnmál oftast meira á kappræðufundi í skóla en á upplýsandi samtöl manna sem vilja meta staðreyndir og komast að niðurstöðu. Þeir sem læra nógu mikið nýtt til að sjá fánýti gamalla skoðana sinna eru stundum grunaðir um vingulshátt eða jafnvel tvöfeldni. Þegar nýjar upplýsingar berast inn í heim sem þannig er innréttaður bregðast menn oft við þeim eins og ógn sem þarf að kveða niður eða þá sem áróðri sem þarf að svara. Þetta getur svo sem gengið í heimi sem breytist ekki mikið. Stöðugleiki er hins vegar ekki einkenni samtímans og þess vegna eru þetta enn verri tímar en áður fyrir bjargfastar skoðanir og kappræðustjórnmál. Við sjáum þetta í hverju málinu af öðru. Öryggis- og varnarmál landsins eru í upplausn og óvissu eftir áratuga kappræður þar sem allar upplýsingar sem ekki pössuðu við hinar þrengstu skoðanir voru útilokaðar og engrar sjálfstæðrar þekkingar var aflað. Þegar menn gengu að lokum frá þeirri kappræðu blasti við heimur sem hafði eiginlega ekki borist í tal í kappræðunum. Nú þegar ekki er lengur hægt að umgangast þessi grundvallaratriði í stjórnmálum sjálfstæðs ríkis með sama hætti og kappræður í skóla kemur í ljós hvaða þekkingu íslenska stjórnmálakerfið býr yfir í þessum málum. Líti menn í kringum sig verður samanburðurinn nöturlegur því að í nálægum löndum er upplýsingum stofnana og niðurstöðum rannsókna með kerfisbundnum hætti veitt inn í stilltar og alvörugefnar umræður stjórnmálamanna um þessi grunnatriði í tilvist sjálfstæðra ríkja. Umræðan um Evrópu, hitt stóra málið í íslenskum utanríkismálum, hefur verið miklu viðameiri og frjórri af því að hún hefur fyrst og fremst átt sér stað utan hins formlega heims íslenskra stjórnmála. Um leið og hún ratar inn í þann heim tekur hún líka stundum á sig einkennilegar myndir þar sem illa upplýst umræða um tæknilega hluti vefst inn í átök sem lúta lögmálum kappræðna. Ólíkt því sem er um varnarmálin hefur hins vegar orðið til mikil þekking á helstu þáttum Evrópumálsins úti í þjóðfélaginu og þá ekki síst í atvinnulífinu. Þannig mætti lengi telja upp mál sem sjaldan eru rædd með opnum huga og vilja til skilnings og þekkingaröflunar innan hins formlega stjórnmálakerfis. Umræður og stefnumörkun eru þess í stað byggðar á áratugagömlum skoðunum. Við sjáum þetta í ólíkustu málum eins og umhverfismálum, stóriðju, byggðastefnu, fjölmiðlun, alþjóðamálum, atvinnumálum, jafnrétti og jöfnuði svo nokkuð sé nefnt. Samanburður á milli hugmyndaauðgi í íslensku atvinnulífi og staðnaðs heims hinna föstu skoðana í stjórnmálum er dálítið sláandi. Hvers vegna skyldu menn dekra svona mikið við eigin skoðanir á Íslandi? Þetta er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri en ást manna hér á landi á gömlum skoðunum sínum virðist dálítið ofsafengin og minnir stundum meira á taugaveiklun en einlægni. Nú vita menn auðvitað flestir að skoðanir eru ekki veruleikinn sjálfur heldur aðeins í besta falli ófullkomin mynd af einhverri hlið hans og oftast þess konar mynd af þeirri hlið hans sem best hentar fyrir viðkomandi að horfa á. Menn vita líka að hið eina stöðuga í heiminum er breytingar. Maður austur í heimi sagði mér eitt sinn að hafi maður skoðun sem kemur sér vel fyrir mann sjálfan ætti maður að endurskoða þá skoðun umsvifalaust. Slíkar skoðanir, sagði þessi maður, eru yfirleitt í litlum tengslum við nokkuð sem kalla mætti sannleika. Hann sagði mér líka að það væru einkum fjórir hópar manna sem þyrftu á þeirri sannfæringu að halda að skoðanir þeirra væru réttar myndir af veruleikanunum. Það eru þeir ungu, sagði hann, þeir heimsku, þeir hræddu og þeir gráðugu. Þeir ungu ráða ekki við flókinn veruleika og verða að trúa því að einhver einföld mynd sé veruleikinn og sannleikurinn. Þetti eldist af mörgum. Þeir heimsku, sagði hann, sjá ekki muninn á skoðun og veruleika. Þeir hræddu, sagði hann, finna fótfestu og öryggi í skoðunum, og þeir gráðugu, sagði þessi maður, þurfa skoðanir sem gera græðgina háleita. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Skoðanir Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Það er löng hefð fyrir því á Íslandi að menn beri djúpa virðingu fyrir eigin skoðunum. Einbeittur vilji til að skipta ekki um skoðun, hvernig sem tilveran breytist, hefur verið álitin aðall hins sanna manns. Þess vegna minna íslenskar umræður um stjórnmál oftast meira á kappræðufundi í skóla en á upplýsandi samtöl manna sem vilja meta staðreyndir og komast að niðurstöðu. Þeir sem læra nógu mikið nýtt til að sjá fánýti gamalla skoðana sinna eru stundum grunaðir um vingulshátt eða jafnvel tvöfeldni. Þegar nýjar upplýsingar berast inn í heim sem þannig er innréttaður bregðast menn oft við þeim eins og ógn sem þarf að kveða niður eða þá sem áróðri sem þarf að svara. Þetta getur svo sem gengið í heimi sem breytist ekki mikið. Stöðugleiki er hins vegar ekki einkenni samtímans og þess vegna eru þetta enn verri tímar en áður fyrir bjargfastar skoðanir og kappræðustjórnmál. Við sjáum þetta í hverju málinu af öðru. Öryggis- og varnarmál landsins eru í upplausn og óvissu eftir áratuga kappræður þar sem allar upplýsingar sem ekki pössuðu við hinar þrengstu skoðanir voru útilokaðar og engrar sjálfstæðrar þekkingar var aflað. Þegar menn gengu að lokum frá þeirri kappræðu blasti við heimur sem hafði eiginlega ekki borist í tal í kappræðunum. Nú þegar ekki er lengur hægt að umgangast þessi grundvallaratriði í stjórnmálum sjálfstæðs ríkis með sama hætti og kappræður í skóla kemur í ljós hvaða þekkingu íslenska stjórnmálakerfið býr yfir í þessum málum. Líti menn í kringum sig verður samanburðurinn nöturlegur því að í nálægum löndum er upplýsingum stofnana og niðurstöðum rannsókna með kerfisbundnum hætti veitt inn í stilltar og alvörugefnar umræður stjórnmálamanna um þessi grunnatriði í tilvist sjálfstæðra ríkja. Umræðan um Evrópu, hitt stóra málið í íslenskum utanríkismálum, hefur verið miklu viðameiri og frjórri af því að hún hefur fyrst og fremst átt sér stað utan hins formlega heims íslenskra stjórnmála. Um leið og hún ratar inn í þann heim tekur hún líka stundum á sig einkennilegar myndir þar sem illa upplýst umræða um tæknilega hluti vefst inn í átök sem lúta lögmálum kappræðna. Ólíkt því sem er um varnarmálin hefur hins vegar orðið til mikil þekking á helstu þáttum Evrópumálsins úti í þjóðfélaginu og þá ekki síst í atvinnulífinu. Þannig mætti lengi telja upp mál sem sjaldan eru rædd með opnum huga og vilja til skilnings og þekkingaröflunar innan hins formlega stjórnmálakerfis. Umræður og stefnumörkun eru þess í stað byggðar á áratugagömlum skoðunum. Við sjáum þetta í ólíkustu málum eins og umhverfismálum, stóriðju, byggðastefnu, fjölmiðlun, alþjóðamálum, atvinnumálum, jafnrétti og jöfnuði svo nokkuð sé nefnt. Samanburður á milli hugmyndaauðgi í íslensku atvinnulífi og staðnaðs heims hinna föstu skoðana í stjórnmálum er dálítið sláandi. Hvers vegna skyldu menn dekra svona mikið við eigin skoðanir á Íslandi? Þetta er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri en ást manna hér á landi á gömlum skoðunum sínum virðist dálítið ofsafengin og minnir stundum meira á taugaveiklun en einlægni. Nú vita menn auðvitað flestir að skoðanir eru ekki veruleikinn sjálfur heldur aðeins í besta falli ófullkomin mynd af einhverri hlið hans og oftast þess konar mynd af þeirri hlið hans sem best hentar fyrir viðkomandi að horfa á. Menn vita líka að hið eina stöðuga í heiminum er breytingar. Maður austur í heimi sagði mér eitt sinn að hafi maður skoðun sem kemur sér vel fyrir mann sjálfan ætti maður að endurskoða þá skoðun umsvifalaust. Slíkar skoðanir, sagði þessi maður, eru yfirleitt í litlum tengslum við nokkuð sem kalla mætti sannleika. Hann sagði mér líka að það væru einkum fjórir hópar manna sem þyrftu á þeirri sannfæringu að halda að skoðanir þeirra væru réttar myndir af veruleikanunum. Það eru þeir ungu, sagði hann, þeir heimsku, þeir hræddu og þeir gráðugu. Þeir ungu ráða ekki við flókinn veruleika og verða að trúa því að einhver einföld mynd sé veruleikinn og sannleikurinn. Þetti eldist af mörgum. Þeir heimsku, sagði hann, sjá ekki muninn á skoðun og veruleika. Þeir hræddu, sagði hann, finna fótfestu og öryggi í skoðunum, og þeir gráðugu, sagði þessi maður, þurfa skoðanir sem gera græðgina háleita.