Skuldirnar taka kipp 9. mars 2006 00:01 Það þótti sæta tíðindum, þegar erlendar langtímaskuldir þjóðarbúsins fóru í fyrsta skipti upp fyrir helming af landsframleiðslunni. Þetta var 1993. Forsagan er fróðleg. Erlendu langtímaskuldirnar höfðu numið röskum fjórðungi af landsframleiðslu 1960, minnkuðu síðan niður í sjöttung á síldarárunum um og eftir 1965 og ruku síðan upp í þriðjung af landsframleiðslu, þegar síldin hvarf og gengi krónunnar féll með brauki og bramli 1967-68. Síðan hélzt skuldahlutfallið sæmilega stöðugt milli þriðjungs og fjórðungs af landsframleiðslunni í allmörg ár, en daðraði þó aðeins við 50 prósenta markið um og eftir 1983, þegar menn óttuðust, að þorskurinn væri á sömu leið og síldin, en 50 prósenta markinu var sem sagt ekki náð fyrr en 1993. Eftir það héldust skuldirnar stöðugar miðað við landsframleiðslu í nokkur ár og tóku síðan á rás upp á við 1997, nokkru eftir að fjárstreymi að og frá landinu var gefið frjálst til fulls í krafti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Langtímaskuldirnar rufu 100 prósenta múrinn 2003 og eru nú komnar upp í tæp 250 prósent af landsframleiðslunni samkvæmt glænýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Heildarskuldir þjóðarbúsins - langtímaskuldir auk skammtímaskulda - eru enn meiri, eða 294 prósent af landsframleiðslu. Á móti þessum skuldum standa eignir, rétt er það, en þær eru fjórðungi minni en skuldirnar, svo að hrein staða þjóðarbúsins við útlönd er neikvæð sem því nemur. Aðeins fjögur lönd heimsins skulda meira í útlöndum en Ísland miðað við landsframleiðslu, þar af eru þrjú í Afríku og eitt í Karíbahafi. Takið eftir einu í frásögninni hér að framan: erlendu skuldirnar snögghækkuðu jafnan, þegar á móti blés í búskap þjóðarinnar, því að menn tóku þá lán til að fleyta sér yfir erfiðleikana, og skuldirnar hjöðnuðu síðan aftur miðað við landsframleiðsluna, þegar efnahagslífið rétti úr kútnum. Nú er öldin önnur. Skuldirnar við útlönd halda áfram að aukast hröðum skrefum í langvinnu góðæri. Annað vekur athygli, þegar skuldatölurnar eru skoðaðar aftur í tímann. Á fyrri tíð stóðu ríkisvaldið og ríkisbankarnir á bak við mestan hluta skuldsetningarinnar erlendis, meðal annars til að byggja upp og endurnýja fiskiskipaflotann og til að virkja orkulindirnar. Nú stendur einkageirinn að miklu leyti á bak við skuldasöfnunina: fólkið í landinu er í óða önn að stækka við sig húsnæði og endurnýja bílana sína, og innlend fyrirtæki taka erlend lán fyrir milligöngu íslenzkra banka til að kaupa fyrirtæki í útlöndum. Ríkið og byggðirnar láta sitt ekki eftir liggja, því að Landsvirkjun tekur enn sem fyrr lánin til að fjármagna virkjunarframkvæmdir. Hvað er óhætt að skulda mikið í útlöndum? Við þeirri spurningu er ekki hægt að gefa einhlítt svar. Mikið ríður á því, að sem mestum hluta lánsfjárins sé varið til arðbærra framkvæmda, svo að arðurinn af framkvæmdunum geti staðið undir vaxtagreiðslum og afborgunum, því að ella eru menn að veðsetja vinnutekjur sínar fram í tímann. Þess vegna ekki sízt þurfa orkuframkvæmdirnar á hálendinu að bera viðunandi arð. Það er einnig brýnt, að útrás íslenzkra einkafyrirtækja á erlend mið beri arð, og það er ekki einkamál útrásarmanna, því að einkabankar eiga hægt með að velta skakkaföllum yfir á saklausa vegfarendur, ef illa fer, eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Neyzlulán til bílakaupa bera yfirleitt ekki beinan arð og gera því lítið til að bæta endurgreiðslugetu lántakenda. Yfirleitt líta menn svo á, að erlendar skuldir megi helzt ekki fara upp fyrir helming af landsframleiðslunni af öryggisástæðum. Nýja-Sjáland hefur að vísu gengið lengra en svo, en þar hafa erlendar skuldir haldizt stöðugar nálægt 100 prósentum af landsframleiðslu eða þar um bil síðan 1998 á móti tæplega 300 prósentum nú hér heima. Það er einnig algeng viðmiðun úti í heimi, að erlendar skammtímaskuldir megi helzt ekki fara upp fyrir gjaldeyrisforða seðlabankans, því að forðinn þarf á hverjum tíma að duga fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á skyldi reyna. Þetta brást í Taílandi sumarið 1997, þegar erlendir bankar veigruðu sér við því að halda áfram að dæla lánsfé inn í landið, svo að Taílendingar neyddust fyrst til að ganga mjög á gjaldeyrisforða sinn til að brúa bilið og fella síðan gengi bahtsins með illum afleiðingum. Erlendar skammtímaskuldir Íslendinga nema nú nærri fimmföldum gjaldeyrisforðanum. Það lítur ekki vel út. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Það þótti sæta tíðindum, þegar erlendar langtímaskuldir þjóðarbúsins fóru í fyrsta skipti upp fyrir helming af landsframleiðslunni. Þetta var 1993. Forsagan er fróðleg. Erlendu langtímaskuldirnar höfðu numið röskum fjórðungi af landsframleiðslu 1960, minnkuðu síðan niður í sjöttung á síldarárunum um og eftir 1965 og ruku síðan upp í þriðjung af landsframleiðslu, þegar síldin hvarf og gengi krónunnar féll með brauki og bramli 1967-68. Síðan hélzt skuldahlutfallið sæmilega stöðugt milli þriðjungs og fjórðungs af landsframleiðslunni í allmörg ár, en daðraði þó aðeins við 50 prósenta markið um og eftir 1983, þegar menn óttuðust, að þorskurinn væri á sömu leið og síldin, en 50 prósenta markinu var sem sagt ekki náð fyrr en 1993. Eftir það héldust skuldirnar stöðugar miðað við landsframleiðslu í nokkur ár og tóku síðan á rás upp á við 1997, nokkru eftir að fjárstreymi að og frá landinu var gefið frjálst til fulls í krafti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Langtímaskuldirnar rufu 100 prósenta múrinn 2003 og eru nú komnar upp í tæp 250 prósent af landsframleiðslunni samkvæmt glænýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Heildarskuldir þjóðarbúsins - langtímaskuldir auk skammtímaskulda - eru enn meiri, eða 294 prósent af landsframleiðslu. Á móti þessum skuldum standa eignir, rétt er það, en þær eru fjórðungi minni en skuldirnar, svo að hrein staða þjóðarbúsins við útlönd er neikvæð sem því nemur. Aðeins fjögur lönd heimsins skulda meira í útlöndum en Ísland miðað við landsframleiðslu, þar af eru þrjú í Afríku og eitt í Karíbahafi. Takið eftir einu í frásögninni hér að framan: erlendu skuldirnar snögghækkuðu jafnan, þegar á móti blés í búskap þjóðarinnar, því að menn tóku þá lán til að fleyta sér yfir erfiðleikana, og skuldirnar hjöðnuðu síðan aftur miðað við landsframleiðsluna, þegar efnahagslífið rétti úr kútnum. Nú er öldin önnur. Skuldirnar við útlönd halda áfram að aukast hröðum skrefum í langvinnu góðæri. Annað vekur athygli, þegar skuldatölurnar eru skoðaðar aftur í tímann. Á fyrri tíð stóðu ríkisvaldið og ríkisbankarnir á bak við mestan hluta skuldsetningarinnar erlendis, meðal annars til að byggja upp og endurnýja fiskiskipaflotann og til að virkja orkulindirnar. Nú stendur einkageirinn að miklu leyti á bak við skuldasöfnunina: fólkið í landinu er í óða önn að stækka við sig húsnæði og endurnýja bílana sína, og innlend fyrirtæki taka erlend lán fyrir milligöngu íslenzkra banka til að kaupa fyrirtæki í útlöndum. Ríkið og byggðirnar láta sitt ekki eftir liggja, því að Landsvirkjun tekur enn sem fyrr lánin til að fjármagna virkjunarframkvæmdir. Hvað er óhætt að skulda mikið í útlöndum? Við þeirri spurningu er ekki hægt að gefa einhlítt svar. Mikið ríður á því, að sem mestum hluta lánsfjárins sé varið til arðbærra framkvæmda, svo að arðurinn af framkvæmdunum geti staðið undir vaxtagreiðslum og afborgunum, því að ella eru menn að veðsetja vinnutekjur sínar fram í tímann. Þess vegna ekki sízt þurfa orkuframkvæmdirnar á hálendinu að bera viðunandi arð. Það er einnig brýnt, að útrás íslenzkra einkafyrirtækja á erlend mið beri arð, og það er ekki einkamál útrásarmanna, því að einkabankar eiga hægt með að velta skakkaföllum yfir á saklausa vegfarendur, ef illa fer, eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Neyzlulán til bílakaupa bera yfirleitt ekki beinan arð og gera því lítið til að bæta endurgreiðslugetu lántakenda. Yfirleitt líta menn svo á, að erlendar skuldir megi helzt ekki fara upp fyrir helming af landsframleiðslunni af öryggisástæðum. Nýja-Sjáland hefur að vísu gengið lengra en svo, en þar hafa erlendar skuldir haldizt stöðugar nálægt 100 prósentum af landsframleiðslu eða þar um bil síðan 1998 á móti tæplega 300 prósentum nú hér heima. Það er einnig algeng viðmiðun úti í heimi, að erlendar skammtímaskuldir megi helzt ekki fara upp fyrir gjaldeyrisforða seðlabankans, því að forðinn þarf á hverjum tíma að duga fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á skyldi reyna. Þetta brást í Taílandi sumarið 1997, þegar erlendir bankar veigruðu sér við því að halda áfram að dæla lánsfé inn í landið, svo að Taílendingar neyddust fyrst til að ganga mjög á gjaldeyrisforða sinn til að brúa bilið og fella síðan gengi bahtsins með illum afleiðingum. Erlendar skammtímaskuldir Íslendinga nema nú nærri fimmföldum gjaldeyrisforðanum. Það lítur ekki vel út.
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun