Hlífum Þjórsárverum 7. janúar 2006 00:01 Tíminn virðist ætla að vinna með þeim sem vilja koma í veg fyrir Norðlingaölduveitu, og að Þjórsárver og umhverfi þeirra fái að lifa óskert í þeirri mynd sem þau eru í dag. Þetta eru ánægjuleg tíðindi, því þótt settur umhverfisráðherra Jón Kristjánsson hafi unnið að úrskurði um Norðlingaölduveitu af samviskusemi, eins og hans var von og vísa, þá var óhjákæmilegt að einhver röskun yrði á nánasta umhverfi Þjórsárvera, þó svo að margir varnaglar væru slegnir í úrskurðinum. Þjórsárver eru einstakt svæði sem skilyrðislaust á að vernda. Það er ekki aðeins að þau sé mikilvæg fyrir náttúru Íslands, heldur eru Þjórsárver viðurkennt votlendissvæði samkvæmt alþjóðasamningum sem við Íslendingar erum aðilar að. Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að meirihluti umhverfisnefndar Alþingis er á móti Norðlingaölduveitu, og þannig hefur áhugamönnum um verndun Þjórsárvera bæst mikilvægur liðsauki. Núverandi umhverfisráðherra ætti að taka af skarið við þessar aðstæður og gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um friðun næsta nágrennis Þjórsárvera, þar sem fyrirhugaðar eru framkvæmdir vegna Norðlingaölduveitu. Þá mundi hún standa undir nafni sem ráðherra umhverfismála, en ekki vera að þvæla þessu máli til og frá í kerfinu með vísan til torskilinna lagakróka. Menn verða að staldra við varðandi náttúru Íslands og virkjanamál. Kárahnjúkavirkjun er staðreynd, og þar verður ekki aftur snúið. Reyndar var landsvæðið í kring um Kárahnjúka og þar suður af svo til óþekkt öðrum en gangnamönnum og fuglum himinsins áður en umræðan um virkjunina hófst. Allt öðru máli gegnir um Þjórsárver og nágrenni. Reyndar er það svo að Kárahnjúkavirkjun hefur vakið marga af værum blundi um umhverfismál og er það vel, en þegar upp er staðið verður þetta svæði áreiðanlega eftirsótt af ferðamönnum, sumar sem vetur, því þarna verður auðvelt að komast um, bæði til að skoða hin miklu virkjunarmannvirki og náttúruna í kring. Augu manna beinast nú í auknum mæli að jarðhitavirkjunum, og þannig er líklegt að miklar virkjanir verði á Þeistareykjasvæðinu, ef niðurstaðan af staðarvali fyrir álver á Norðurlandi verði sú að því verði valinn staður á Húsavík, eins og margt bendir til. En það þarf líka að fara varfærnum höndum um náttúruna, þótt um sé að ræða jarðvarmavirkjanir. Þeim fylgja líka háspennulínur og vegagerð um viðkvæm svæði, þannig að það er ekki allt fengið með slíkum virkjunum. Það þarf ekki að leita langt út fyrir höfuðborgina til að sjá hvernig friðsælt og gott útivistarsvæði á Hellisheiði hefur breyst í háspennumastraskóg og allt í kring eru blásandi borholur. Þarna er nú unnið í kapp við tímann við að virkja þann mikla jarðhita sem er í iðrum jarðar, og allt þetta byggist á því að orkuverðið hér er hagstætt stóriðjufyrirtækjunum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kári Jónasson Skoðanir Mest lesið ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Tíminn virðist ætla að vinna með þeim sem vilja koma í veg fyrir Norðlingaölduveitu, og að Þjórsárver og umhverfi þeirra fái að lifa óskert í þeirri mynd sem þau eru í dag. Þetta eru ánægjuleg tíðindi, því þótt settur umhverfisráðherra Jón Kristjánsson hafi unnið að úrskurði um Norðlingaölduveitu af samviskusemi, eins og hans var von og vísa, þá var óhjákæmilegt að einhver röskun yrði á nánasta umhverfi Þjórsárvera, þó svo að margir varnaglar væru slegnir í úrskurðinum. Þjórsárver eru einstakt svæði sem skilyrðislaust á að vernda. Það er ekki aðeins að þau sé mikilvæg fyrir náttúru Íslands, heldur eru Þjórsárver viðurkennt votlendissvæði samkvæmt alþjóðasamningum sem við Íslendingar erum aðilar að. Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að meirihluti umhverfisnefndar Alþingis er á móti Norðlingaölduveitu, og þannig hefur áhugamönnum um verndun Þjórsárvera bæst mikilvægur liðsauki. Núverandi umhverfisráðherra ætti að taka af skarið við þessar aðstæður og gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um friðun næsta nágrennis Þjórsárvera, þar sem fyrirhugaðar eru framkvæmdir vegna Norðlingaölduveitu. Þá mundi hún standa undir nafni sem ráðherra umhverfismála, en ekki vera að þvæla þessu máli til og frá í kerfinu með vísan til torskilinna lagakróka. Menn verða að staldra við varðandi náttúru Íslands og virkjanamál. Kárahnjúkavirkjun er staðreynd, og þar verður ekki aftur snúið. Reyndar var landsvæðið í kring um Kárahnjúka og þar suður af svo til óþekkt öðrum en gangnamönnum og fuglum himinsins áður en umræðan um virkjunina hófst. Allt öðru máli gegnir um Þjórsárver og nágrenni. Reyndar er það svo að Kárahnjúkavirkjun hefur vakið marga af værum blundi um umhverfismál og er það vel, en þegar upp er staðið verður þetta svæði áreiðanlega eftirsótt af ferðamönnum, sumar sem vetur, því þarna verður auðvelt að komast um, bæði til að skoða hin miklu virkjunarmannvirki og náttúruna í kring. Augu manna beinast nú í auknum mæli að jarðhitavirkjunum, og þannig er líklegt að miklar virkjanir verði á Þeistareykjasvæðinu, ef niðurstaðan af staðarvali fyrir álver á Norðurlandi verði sú að því verði valinn staður á Húsavík, eins og margt bendir til. En það þarf líka að fara varfærnum höndum um náttúruna, þótt um sé að ræða jarðvarmavirkjanir. Þeim fylgja líka háspennulínur og vegagerð um viðkvæm svæði, þannig að það er ekki allt fengið með slíkum virkjunum. Það þarf ekki að leita langt út fyrir höfuðborgina til að sjá hvernig friðsælt og gott útivistarsvæði á Hellisheiði hefur breyst í háspennumastraskóg og allt í kring eru blásandi borholur. Þarna er nú unnið í kapp við tímann við að virkja þann mikla jarðhita sem er í iðrum jarðar, og allt þetta byggist á því að orkuverðið hér er hagstætt stóriðjufyrirtækjunum.