Viðskipti innlent

Eimskip selur Frílager

Eimskip hefur selt Frílager til Ekrunnar ehf, dótturfélags Nathan & Olsen ehf., samkvæmt samningi sem undirritaður var í dag. Samningurinn nær eingöngu til kostverslunar Frílagers, þ.e. matvöru, drykkjarvöru, hreinlætisvöru, áfengis og tóbaks. Viðskipti Frílagers með ýmsar sértækar vörur sem tengjast skipaútgerð, svo sem fatnað, flotbelgi, björgunarbúnað o.fl. eru undanþegin samningnum.

Endanleg yfirfærsla samkvæmt samningi mun eiga sér stað í janúar 2006. Þangað til mun Frílager starfa í núverandi mynd.

"Þessi sala er í samræmi við þá stefnu Eimskips að beina kröftunum fyrst og fremst að kjarnastarfsemi félagsins," segir Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Eimskips.

Vilhjálmur Fenger, framkvæmdastjóri hjá Nathan & Olsen ehf, segir að með breytingum á tollalögum, sem taka gildi nú um áramótin sé fyrirtækjum gert kleift að starfrækja tollfrjálsar birgðageymslur fyrir kost um borð í millilandaför. Þarna opnist nýr markaður fyrir Ekruna ehf, sem um árabil hefur starfrækt almenna kostverslun. Kaupin á Frílager falla því vel að þeirri starfsemi sem fyrir er í félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×