Viðskipti innlent

Samskip opna skrifstofu í Vigo á Spáni

MYND/Fréttablaðið

Samskip opna skrifstofu í Vigo á vesturströnd Spánar um áramótin og verða helstu verkefni hennar umsýsla með hverskyns fiskafurðir, bæði kældar og frosnar.

„Opnun skrifstofunnar í Vigo er enn einn þátturinn í því að efla og bæta frystiflutningaþjónustu Samskipa en stórt skref var stigið í þeim efnum á vordögum með kaupunum á frystigeymslum hollenska fyrirtækisins Kloosterboer. Jafnframt erum við að huga að sókn inn á fleiri áhugaverða frystiflutningamarkaði, eins og vesturströnd Bandaríkjanna og Suður-Ameríku," segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa.

Stjórnandi Vigoskrifstofunnar verður Hollendingurinn Rainier Wolsleger. Hann hefur starfað hjá Samskipum í Rotterdam um árabil en flytur sig nú um set suður til Spánar.

Með tilkomu Vigoskrifstofunnar starfrækja Samskip alls 62 skrifstofur í 22 löndum. Starfsmenn félagsins eru um 1.400 talsins, 700 erlendis og um 700 á Íslandi, og er veltan á árinu sem er að líða áætluð um 60 milljarðar íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×