Lýsti frati á Öryggisráðið 21. september 2005 00:01 Ísland lýsti frati á Sameinuðu þjóðirnar og sérstaklega Öryggisráðið þann 18. mars 2003 með þeirri ákvörðun að lýsa blessun yfir innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak án samþykktar í Öryggisráðinu til þess að komast á lista hinna "fúsu og staðföstu". Á sama tíma synjuðu keppinautarnir, Tyrkir, Bandaríkjunum um leyfi til að nota tyrkneskt land til árása á Írak. Höfðu þó Tyrkir allan kaldastríðstímann kappkostað að vera Bandaríkjunum traustir bandamenn, enda áttu þeir landamæri að Sovétríkjunum. Dagarnir fyrir 18. mars voru prófsteinn á það prinsipp, sem í aðalatriðum hefur gilt frá lokum heimsstyrjaldarinnar: hvort alþjóðlegar hernaðaraðgerðir gegn einni aðildarþjóð Sameinuðu þjóðanna þyrftu samþykki Öryggisráðsins eða hvort sá tími væri upp runninn, að Bandaríkin sem lögreglulið heimsins tækju um það einhliða ákvörðun. Ísland ákvað að taka stuðning við Bandaríkin fram yfir stuðning við Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið. Að sögn Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknar, var það gert einkum með tilliti til atvinnuástands á Suðurnesjum og þess hlutverks sem Bandaríkjamenn gegna í atvinnulífi þeirra Suðurnesjamanna! Á þeim tíma var þó liðið á fimmta ár síðan Ísland hafði fyrst lýst yfir áhuga sínum um að bjóða sig fram til sætis í Öryggisráðinu kjörtímabilið 2008-10. Stefnumótun af þessu tagi hefði einhvern tíma verið kölluð nesjamennska. Við inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar á sínum tíma gerðu Íslendingar grein fyrir því að þeir væru herlaus þjóð, sem aldrei mundi fara með stríði gegn annarri þjóð. Hvaða siðferðilegan rétt hefur slík þjóð til að koma sér í stöðu þar sem fulltrúi hennar tekur ákvörðun um að etja ungmennum annarra þjóða fram á vígvelli heimsins? Allan kaldastríðstímann – þegar þó má segja að við höfum verið í víglínu stríðandi afla heimsins – hvarflaði ekki að okkur að koma okkur í þá stöðu. Hvað hefur breyst síðan þá? Jú, rökin nú eru helst þau, að Íslendingar vilji "láta gott af sér leiða", séu nú tilbúnir "að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna", við séum að lyfta okkur til jafns við hin Norðurlöndin, sem hafi skipst á um að taka sæti í ráðinu, þegar þess hefur verið kostur. Og stjórnarandstaðan tekur undir þessa slefandi góðvild, sem vart þætti einu sinni boðleg í stefnuályktun íslenskra flokksþinga, hvað þá sem stefnumótun á alþjóðavettvangi! Vissulega eiga Íslendingar að láta til sín taka í alþjóðastofnunum, axla ábyrgð og láta gott af sér leiða. En við eigum að velja okkur verkefni á sviðum þar sem við stöndum jafnfætis öðrum þjóðum eða jafnvel feti framar. Þá leið höfum við farið með því að taka að okkur að reka Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Einar Oddur hefur nefnt að við gætum látið til okkar taka í mannréttindamálum. Um skeið vorum við virkir í FAO, Landbúnaðar- og matvælastofnuninni, við þjálfun þriðja heims sjómanna í útgerð og fiskvinnslu. Þann þráð mætti taka upp aftur af endurnýjuðum krafti. Við gætum lagt Barnahjálp SÞ lið svo og Menningarstofnuninni. Ísland nýtur virðingar á sviði hafréttar fyrir framlag Hans G. Andersen og annarra. Það gæti opnað okkur leið til áhrifa í umræðum um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Við gætum líka miðlað Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni af reynslu okkar í baráttunni við fátækt og sjúkdóma. Á öllum þessum sviðum höfum við sérfræðinga og af mikilli og merkilegri reynslu að miðla. Síðast en ekki síst gætum við fyrir þá upphæð sem kastað verður á glæ í tilgangslausri baráttu um sæti í Öryggisráðinu hækkað um helming framlag okkar til þróunarhjálpar, sem þrátt fyrir tuttugu ára svardaga um að koma henni í 0,7% af þjóðartekjum hjakkar í 0,2% á sama tíma og við höfum skipað okkur í hóp fimm ríkustu þjóða heims. Við verðum að vera menn til að horfa á staðreyndir í samanburði okkar við Norðurlandaþjóðirnar. Allar eru þær hernaðarþjóðir og hafa teflt fram eigin þegnum til hernaðaraðgerða á vegum SÞ. Norðmenn og Svíar hafa um áratuga skeið rekið öflugar og virtar friðarstofnanir. Þær þjóðir hafa líka báðar lagt SÞ til virta og mikilsmetna framkvæmdastjóra. Norðmenn útdeila friðarverðlaunum Nóbels. Hvað eftir annað hefur Norðmönnum líka tekist að koma stríðandi öflum að samningaborði. Við höfum af engu þessu að státa, erum fámenn og herlaus þjóð, sem ætti að hafa friðsemd að leiðarljósi. Það er hárrétt sem Þorgerður Katrín sagði í Kastljósþætti á dögunum að "við erum stórþjóð á ákveðnum sviðum og við eigum að vera stolt af því." Öryggismál heimsins eru bara ekki þar á meðal. Því ber þetta framboð okkar ekki vott um annað en "mont" og "snobb", eins og Einar Oddur hefur réttilega bent á. Okkur vantar allar þær stofnanir, reynslu, þekkingu og greiningarhæfni, sem eru nauðsynleg innistæða fyrir framboði sem þessu. Það er rétt hjá stjórnarandstöðunni að stjórnarflokkarnir hafa klúðrað málinu. En meðan stjórnarandstaðan hefur heldur ekki skýrari stefnu fram að færa en gömlu loðmulluna um löngunina til að Íslendingar "láti gott af sér leiða" er hún sjálf partur af klúðrinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Ísland lýsti frati á Sameinuðu þjóðirnar og sérstaklega Öryggisráðið þann 18. mars 2003 með þeirri ákvörðun að lýsa blessun yfir innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak án samþykktar í Öryggisráðinu til þess að komast á lista hinna "fúsu og staðföstu". Á sama tíma synjuðu keppinautarnir, Tyrkir, Bandaríkjunum um leyfi til að nota tyrkneskt land til árása á Írak. Höfðu þó Tyrkir allan kaldastríðstímann kappkostað að vera Bandaríkjunum traustir bandamenn, enda áttu þeir landamæri að Sovétríkjunum. Dagarnir fyrir 18. mars voru prófsteinn á það prinsipp, sem í aðalatriðum hefur gilt frá lokum heimsstyrjaldarinnar: hvort alþjóðlegar hernaðaraðgerðir gegn einni aðildarþjóð Sameinuðu þjóðanna þyrftu samþykki Öryggisráðsins eða hvort sá tími væri upp runninn, að Bandaríkin sem lögreglulið heimsins tækju um það einhliða ákvörðun. Ísland ákvað að taka stuðning við Bandaríkin fram yfir stuðning við Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið. Að sögn Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknar, var það gert einkum með tilliti til atvinnuástands á Suðurnesjum og þess hlutverks sem Bandaríkjamenn gegna í atvinnulífi þeirra Suðurnesjamanna! Á þeim tíma var þó liðið á fimmta ár síðan Ísland hafði fyrst lýst yfir áhuga sínum um að bjóða sig fram til sætis í Öryggisráðinu kjörtímabilið 2008-10. Stefnumótun af þessu tagi hefði einhvern tíma verið kölluð nesjamennska. Við inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar á sínum tíma gerðu Íslendingar grein fyrir því að þeir væru herlaus þjóð, sem aldrei mundi fara með stríði gegn annarri þjóð. Hvaða siðferðilegan rétt hefur slík þjóð til að koma sér í stöðu þar sem fulltrúi hennar tekur ákvörðun um að etja ungmennum annarra þjóða fram á vígvelli heimsins? Allan kaldastríðstímann – þegar þó má segja að við höfum verið í víglínu stríðandi afla heimsins – hvarflaði ekki að okkur að koma okkur í þá stöðu. Hvað hefur breyst síðan þá? Jú, rökin nú eru helst þau, að Íslendingar vilji "láta gott af sér leiða", séu nú tilbúnir "að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna", við séum að lyfta okkur til jafns við hin Norðurlöndin, sem hafi skipst á um að taka sæti í ráðinu, þegar þess hefur verið kostur. Og stjórnarandstaðan tekur undir þessa slefandi góðvild, sem vart þætti einu sinni boðleg í stefnuályktun íslenskra flokksþinga, hvað þá sem stefnumótun á alþjóðavettvangi! Vissulega eiga Íslendingar að láta til sín taka í alþjóðastofnunum, axla ábyrgð og láta gott af sér leiða. En við eigum að velja okkur verkefni á sviðum þar sem við stöndum jafnfætis öðrum þjóðum eða jafnvel feti framar. Þá leið höfum við farið með því að taka að okkur að reka Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Einar Oddur hefur nefnt að við gætum látið til okkar taka í mannréttindamálum. Um skeið vorum við virkir í FAO, Landbúnaðar- og matvælastofnuninni, við þjálfun þriðja heims sjómanna í útgerð og fiskvinnslu. Þann þráð mætti taka upp aftur af endurnýjuðum krafti. Við gætum lagt Barnahjálp SÞ lið svo og Menningarstofnuninni. Ísland nýtur virðingar á sviði hafréttar fyrir framlag Hans G. Andersen og annarra. Það gæti opnað okkur leið til áhrifa í umræðum um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Við gætum líka miðlað Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni af reynslu okkar í baráttunni við fátækt og sjúkdóma. Á öllum þessum sviðum höfum við sérfræðinga og af mikilli og merkilegri reynslu að miðla. Síðast en ekki síst gætum við fyrir þá upphæð sem kastað verður á glæ í tilgangslausri baráttu um sæti í Öryggisráðinu hækkað um helming framlag okkar til þróunarhjálpar, sem þrátt fyrir tuttugu ára svardaga um að koma henni í 0,7% af þjóðartekjum hjakkar í 0,2% á sama tíma og við höfum skipað okkur í hóp fimm ríkustu þjóða heims. Við verðum að vera menn til að horfa á staðreyndir í samanburði okkar við Norðurlandaþjóðirnar. Allar eru þær hernaðarþjóðir og hafa teflt fram eigin þegnum til hernaðaraðgerða á vegum SÞ. Norðmenn og Svíar hafa um áratuga skeið rekið öflugar og virtar friðarstofnanir. Þær þjóðir hafa líka báðar lagt SÞ til virta og mikilsmetna framkvæmdastjóra. Norðmenn útdeila friðarverðlaunum Nóbels. Hvað eftir annað hefur Norðmönnum líka tekist að koma stríðandi öflum að samningaborði. Við höfum af engu þessu að státa, erum fámenn og herlaus þjóð, sem ætti að hafa friðsemd að leiðarljósi. Það er hárrétt sem Þorgerður Katrín sagði í Kastljósþætti á dögunum að "við erum stórþjóð á ákveðnum sviðum og við eigum að vera stolt af því." Öryggismál heimsins eru bara ekki þar á meðal. Því ber þetta framboð okkar ekki vott um annað en "mont" og "snobb", eins og Einar Oddur hefur réttilega bent á. Okkur vantar allar þær stofnanir, reynslu, þekkingu og greiningarhæfni, sem eru nauðsynleg innistæða fyrir framboði sem þessu. Það er rétt hjá stjórnarandstöðunni að stjórnarflokkarnir hafa klúðrað málinu. En meðan stjórnarandstaðan hefur heldur ekki skýrari stefnu fram að færa en gömlu loðmulluna um löngunina til að Íslendingar "láti gott af sér leiða" er hún sjálf partur af klúðrinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun