Olíuverð í upphæðum 1. september 2005 00:01 Mörgum bregður skiljanlega í brún við að þurfa nú að borga 113 til 120 krónur fyrir hvern bensínlítra, sem kostaði 70 krónur ekki alls fyrir löngu. Sunnudagsbíltúr frá Reykjavík austur á Þingvöll getur hæglega kostað 2.000 krónur bara fyrir bensínið. Hvernig bregst fólk við svo mikilli verðhækkun? Hvað er til ráða? Sagan bregður birtu á málið. Olíuverðshækkunin mikla fyrir þrjátíu árum kallaði á hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og öðrum olíuinnflutningsríkjum. Það var ekki við öðru að búast, enda margfaldaðist heimsmarkaðsverð á bensíni og olíu til upphitunar 1973-1974. Langar biðraðir mynduðust við bensínstöðvar þar vestra, leyfilegur hámarkshraði á vegum var lækkaður úr 70 mílum á klukkustund í 55, bílaframleiðendum í Detroit var einnig uppálagt með lögum að auka sparneytni ökutækja, japanskir smábílar ruddu sér til rúms í Bandaríkjunum og um allan heim og Carter Bandaríkjaforseti klæddist lopapeysu og bað landsfólkið að venja sig við minni hita í heimahúsum og á vinnustöðum í orkusparnaðarskyni. Biðraðirnar við bensínstöðvarnar hurfu eftir skamma hríð, og lífið færðist aftur í fyrra horf. Sagan endurtók sig 1979-1981, nema nú voru menn reynslunni ríkari og áttu enn auðveldara með að laga sig að hærra orkuverði en áður. Viðbrögðin voru ekki jafnhörð í Evrópu, þess gerðist ekki þörf, því að þar var bensínverð mun hærra fyrir vegna gjaldheimtu frá gamalli tíð, svo að hlutfallshækkun olíuverðs var minni þar en í Ameríku og olli þeim mun minna raski. Eigi að síður brugðust Evrópumenn einnig vel við olíuverðshækkuninni í bæði skiptin, t.d. með því að auka sparneytni evrópskra bíla og bæta almannasamgöngur. Evrópskir bílar ruddu sér nú braut inn á Bandaríkjamarkað við hlið japanskra bíla í áður óþekktum mæli. Bandarískir bílar hurfu að heita má af götum evrópskra borga á árunum eftir 1980: þeir þóttu einfaldlega of dýrir í rekstri. Toyota hefur æ síðan selst allra bíla mest á Íslandi. Olía lækkaði þó smám saman aftur í verði eftir 1981 miðað við ýmislegt annað, svo að bensín vó þá ekki lengur jafnþungt í útgjöldum heimilanna vestan hafs, og þá sáu bandarískir bílaframleiðendur sér leik á borði: þeir byrjuðu að framleiða jeppa. Hvers vegna jeppa? Það stafaði m.a. af því, að vinveittir stjórnmálamenn skilgreindu jeppana í lögum sem landbúnaðartæki, og þeir voru því undanþegnir þeim kröfum, sem gerðar eru til fólksbíla um sparneytni og útblástur úrgangsefna. Þannig tókst þeim í Detroit að stilla verðinu á þessum nýju tryllitækjum svo í hóf, að þau hafa selst eins og heitar lummur bæði heima og erlendis og gerbreytt ásjónu t.a.m. Reykjavíkur og annarra byggða (og óbyggða, svo sem hjólför á hálendi Íslands vitna um). Meira en helmingur nýrra bíla í Bandaríkjunum er nú jeppar og svipuð tæki. Jepparnir brenna um 40 prósent af öllu eldsneyti í Bandaríkjunum og blása út röskum fimmtungi þess koltvísýrings sem Bandaríkjamenn sleppa út í andrúmsloftið og mestu veldur um hlýnun loftslags um heiminn. En nú er mörgum jeppamanninum brugðið. Bílaframleiðendum í Detroit er ekki heldur skemmt, því að hækkun bensínverðs á heimsmarkaði hefur dregið úr jeppasölu um víða veröld. Verðhækkunin stafar m.a. af aukinni eldsneytiseftirspurn í Kína, þar sem meira en milljarður manna er sem óðast að skipta út ryðguðum reiðhjólum fyrir nýja bíla, einkum japanska, þýska, kóreska og kínverska bíla. Mörg erlend fyrirtæki framleiða bíla í Kína. Þeir í Detroit sitja eftir með síminnkandi markaðshlutdeild – og sárt ennið. Hvernig gat þetta gerst? Ein skýringin er sú, að bílaverksmiðjurnar í Detroit – General Motors, Ford og Chrysler – vanmátu hættuna á hækkun bensínverðs og nýttu sér nýja tækni til að auka vélarafl nýrra bíla frekar en að auka sparneytni þeirra. Og nú hefur Toyota sett á markað nýjan bíl, sem gengur jöfnum höndum fyrir bensíni og rafmagni. Bíllinn sá virðist líklegur til að fara sigurför um heiminn. Allir helstu bílaframleiðendur í Japan (Honda, Mazda, Nissan og Toyota), DaimlerChrysler og General Motors vinna nú að þróun vetnisbíla. Miklar vonir eru bundnar við slíka bíla. Bandarísku bílafyrirtækin virðast þó einna helst reiða sig á lækkun olíuverðs á heimsmarkaði, tilslakanir löggjafans frá fyrri viðmiðum um mengunarvarnir og olíuvinnslu í friðlöndum í Alaska. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Mörgum bregður skiljanlega í brún við að þurfa nú að borga 113 til 120 krónur fyrir hvern bensínlítra, sem kostaði 70 krónur ekki alls fyrir löngu. Sunnudagsbíltúr frá Reykjavík austur á Þingvöll getur hæglega kostað 2.000 krónur bara fyrir bensínið. Hvernig bregst fólk við svo mikilli verðhækkun? Hvað er til ráða? Sagan bregður birtu á málið. Olíuverðshækkunin mikla fyrir þrjátíu árum kallaði á hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og öðrum olíuinnflutningsríkjum. Það var ekki við öðru að búast, enda margfaldaðist heimsmarkaðsverð á bensíni og olíu til upphitunar 1973-1974. Langar biðraðir mynduðust við bensínstöðvar þar vestra, leyfilegur hámarkshraði á vegum var lækkaður úr 70 mílum á klukkustund í 55, bílaframleiðendum í Detroit var einnig uppálagt með lögum að auka sparneytni ökutækja, japanskir smábílar ruddu sér til rúms í Bandaríkjunum og um allan heim og Carter Bandaríkjaforseti klæddist lopapeysu og bað landsfólkið að venja sig við minni hita í heimahúsum og á vinnustöðum í orkusparnaðarskyni. Biðraðirnar við bensínstöðvarnar hurfu eftir skamma hríð, og lífið færðist aftur í fyrra horf. Sagan endurtók sig 1979-1981, nema nú voru menn reynslunni ríkari og áttu enn auðveldara með að laga sig að hærra orkuverði en áður. Viðbrögðin voru ekki jafnhörð í Evrópu, þess gerðist ekki þörf, því að þar var bensínverð mun hærra fyrir vegna gjaldheimtu frá gamalli tíð, svo að hlutfallshækkun olíuverðs var minni þar en í Ameríku og olli þeim mun minna raski. Eigi að síður brugðust Evrópumenn einnig vel við olíuverðshækkuninni í bæði skiptin, t.d. með því að auka sparneytni evrópskra bíla og bæta almannasamgöngur. Evrópskir bílar ruddu sér nú braut inn á Bandaríkjamarkað við hlið japanskra bíla í áður óþekktum mæli. Bandarískir bílar hurfu að heita má af götum evrópskra borga á árunum eftir 1980: þeir þóttu einfaldlega of dýrir í rekstri. Toyota hefur æ síðan selst allra bíla mest á Íslandi. Olía lækkaði þó smám saman aftur í verði eftir 1981 miðað við ýmislegt annað, svo að bensín vó þá ekki lengur jafnþungt í útgjöldum heimilanna vestan hafs, og þá sáu bandarískir bílaframleiðendur sér leik á borði: þeir byrjuðu að framleiða jeppa. Hvers vegna jeppa? Það stafaði m.a. af því, að vinveittir stjórnmálamenn skilgreindu jeppana í lögum sem landbúnaðartæki, og þeir voru því undanþegnir þeim kröfum, sem gerðar eru til fólksbíla um sparneytni og útblástur úrgangsefna. Þannig tókst þeim í Detroit að stilla verðinu á þessum nýju tryllitækjum svo í hóf, að þau hafa selst eins og heitar lummur bæði heima og erlendis og gerbreytt ásjónu t.a.m. Reykjavíkur og annarra byggða (og óbyggða, svo sem hjólför á hálendi Íslands vitna um). Meira en helmingur nýrra bíla í Bandaríkjunum er nú jeppar og svipuð tæki. Jepparnir brenna um 40 prósent af öllu eldsneyti í Bandaríkjunum og blása út röskum fimmtungi þess koltvísýrings sem Bandaríkjamenn sleppa út í andrúmsloftið og mestu veldur um hlýnun loftslags um heiminn. En nú er mörgum jeppamanninum brugðið. Bílaframleiðendum í Detroit er ekki heldur skemmt, því að hækkun bensínverðs á heimsmarkaði hefur dregið úr jeppasölu um víða veröld. Verðhækkunin stafar m.a. af aukinni eldsneytiseftirspurn í Kína, þar sem meira en milljarður manna er sem óðast að skipta út ryðguðum reiðhjólum fyrir nýja bíla, einkum japanska, þýska, kóreska og kínverska bíla. Mörg erlend fyrirtæki framleiða bíla í Kína. Þeir í Detroit sitja eftir með síminnkandi markaðshlutdeild – og sárt ennið. Hvernig gat þetta gerst? Ein skýringin er sú, að bílaverksmiðjurnar í Detroit – General Motors, Ford og Chrysler – vanmátu hættuna á hækkun bensínverðs og nýttu sér nýja tækni til að auka vélarafl nýrra bíla frekar en að auka sparneytni þeirra. Og nú hefur Toyota sett á markað nýjan bíl, sem gengur jöfnum höndum fyrir bensíni og rafmagni. Bíllinn sá virðist líklegur til að fara sigurför um heiminn. Allir helstu bílaframleiðendur í Japan (Honda, Mazda, Nissan og Toyota), DaimlerChrysler og General Motors vinna nú að þróun vetnisbíla. Miklar vonir eru bundnar við slíka bíla. Bandarísku bílafyrirtækin virðast þó einna helst reiða sig á lækkun olíuverðs á heimsmarkaði, tilslakanir löggjafans frá fyrri viðmiðum um mengunarvarnir og olíuvinnslu í friðlöndum í Alaska.