Spáðu í mér? 30. ágúst 2005 00:01 Í mínu ungdæmi upp úr miðri síðustu öld var talað um málfar fólks eins og veikindi. Málnotkun fólks - beygingar þess, orðfæri og meðferð á sérhljóðum og lokhljóðum - flokkaðist undir heilbrigðismál; sá einstaklingur var fárveikur sem átti kannski bæði við flámæli og linmæli að stríða og var jafnvel að auki haldinn þágufallssýki - ekkert annað en tafarlaus meðferð gat læknað fólk af slíkum kvillum, gat jafnvel þurft að skera... En fyrst og fremst þurfti að gæta þess að hlífa samborgurum hins helsjúka einstaklings við því að þurfa að heyra hann opinbera raunverulegt ástand sitt; öllum ráðum var beitt til að fá þetta málveika fólk til að tjá sig ekki undir nokkrum kringumstæðum... Rétt mál og rangt, heilbrigt mál og sýkt, hreint mál og mengað: í mínu ungdæmi voru skýrar línur; íslenskan var göfugt hljóðfæri og einungis þrotlaus lestur á verkum Brands ábóta eða áralöng vist í afdölum hjá þeim körlum og kerlingum sem fyrir sakir náttúruvals höfðu varðveitt íslenskuna eins og hún var í eðli sínu gat gert mann verðugan þess að taka sér þetta mál í munn nokkurn veginn kinnroðalaust. Þetta var sem sé öld málóttans. Frá því að börnin stigu inn í skólann í fyrsta sinn var þeim innrætt að þau kynnu ekki það tungumál sem þau höfðu numið við móðurkné, og að notkun þeirra á þessu tungumáli væri svo ábótavant að til tafarlausra ráðstafana þyrfti að grípa. Þeir dagar eru liðnir - liðnir eru tímar umvöndunarmálfræðinnar og upp er runnin öld mannúðarmálfræðinnar, svo gripið sé til orðs sem Megas bjó til í öðru samhengi. Maður sér ekki lengur fyrir sér málfræðinga á hvítum sloppum með samanbitnar varir að reyna að þrífa dönskuslettur af villuráfandi einstaklingi eða að lækna hljóðvilltan einstakling heldur eru málfræðingarnir orðnir eins og hverjir aðrir sveppafræðingar sem kunna skil á eitruðum sveppum og ofskynjunarsveppum og átsveppum en telja ekki í sínum verkahring að hlutast til um það hvaða sveppir fá að vaxa. Sjálfsagt er lítil eftirsjá að þeim tímum þegar litið var á það sem ógnun við íslenska tungu þegar almenningur vogaði sér að opna munninn - og umvandanir um málfar hafa í seinni tíð tekið að snúast fremur um óskýra hugsun en misgöfugan uppruna orða. En ég get samt ekki stillt mig um að hreyfa hér undarlegri málbreytingu sem farið hefur sigurför um samfélagið undanfarin misseri. Breytingin er þessi: þegar sögninni "að spá" fylgir forsetningin "í" er hún allt í einu farin að taka þágufall með sér í stað þolfalls eins og fyrr. Unnvörpum spáir fólk nú í "einhverju" í stað þess sem áður var, að það spái í "eitthvað". Hvað er hér á seyði? Er þetta þágufalls - uh - hneigð? Ný birtingarmynd á þeirri tilhneigingu þágufallsins að ryðja út þolfallinu? Kannski. En hér er þágufall ekki bara að ryðja út þolfalli heldur ryðst sögnin "að spá" hér inn á svið systursagnar sinnar "að pæla" og virðist jafnvel á góðri leið með að útrýma henni: eða hafið þið, kæru lesendur, nýlega heyrt einhvern tala um að pæla í einhverju? Eins og kunnugt er þá tekur sú sögn einmitt með sér þágufall, enda er þágufallið fall aðgerðanna, virkninnar, hreyfingarinnar en þolfallið er fall kyrrstöðu, óvirkni, dáðleysis, þess sem skoðað er. Það er þetta óvirka horf þolfallsins sem veldur því að fólk á erfitt með að nota það með sögnunum "að vilja" og "langa" og hyllist til að nota þar þágufallið sem gefur meira til kynna virkan vilja og löngun. Báðar gengu þessar gömlu og virðulegu sagnir " að spá og pæla " í endurnýjun lífdaganna á svipuðum tíma og voru mikið notaðar í unglingamáli á sjöunda og áttunda áratug 20. aldarinnar. Þær komust þaðan inn í almenna málnotkun og urðu tískuorðfæri við nokkra velþóknun málfræðinga. Einkum þótti nútímanotkun á sögninni "að pæla" til marks um endurnýjunarmátt íslenskrar tungu. Það er eitthvað mjög þjóðlegt og hrjóstrugt við þessa sögn sem merkir að grafa í gróðursnauðum jarðvegi með sérstökum spaða - páli - við skynjum í sögninni púlið við að hugsa; hér er enginn óbærilegur léttleiki, engin auðkeypt viska, heldur kostar sérhver niðurstaða umþenkinganna ómælda fyrirhöfn... En nú virðist þessi fallega og sérkennilega sögn allt í einu í bráðri útrýmingarhættu og spurning hvort ekki þurfi að setja hana í einhvers konar gjörgæslu... Ég leyfi mér hér með að gera dálitla uppreisn gegn ríkjandi reiðareksstefnu í málfarsefnum og nota hér gamalt form við málfarsábendingar: Heyrst hefur: ég er að spá í því að fara í föt. Rétt væri: ég er að spá í það að fara í föt. Enda pæli ég mikið í fötum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Í mínu ungdæmi upp úr miðri síðustu öld var talað um málfar fólks eins og veikindi. Málnotkun fólks - beygingar þess, orðfæri og meðferð á sérhljóðum og lokhljóðum - flokkaðist undir heilbrigðismál; sá einstaklingur var fárveikur sem átti kannski bæði við flámæli og linmæli að stríða og var jafnvel að auki haldinn þágufallssýki - ekkert annað en tafarlaus meðferð gat læknað fólk af slíkum kvillum, gat jafnvel þurft að skera... En fyrst og fremst þurfti að gæta þess að hlífa samborgurum hins helsjúka einstaklings við því að þurfa að heyra hann opinbera raunverulegt ástand sitt; öllum ráðum var beitt til að fá þetta málveika fólk til að tjá sig ekki undir nokkrum kringumstæðum... Rétt mál og rangt, heilbrigt mál og sýkt, hreint mál og mengað: í mínu ungdæmi voru skýrar línur; íslenskan var göfugt hljóðfæri og einungis þrotlaus lestur á verkum Brands ábóta eða áralöng vist í afdölum hjá þeim körlum og kerlingum sem fyrir sakir náttúruvals höfðu varðveitt íslenskuna eins og hún var í eðli sínu gat gert mann verðugan þess að taka sér þetta mál í munn nokkurn veginn kinnroðalaust. Þetta var sem sé öld málóttans. Frá því að börnin stigu inn í skólann í fyrsta sinn var þeim innrætt að þau kynnu ekki það tungumál sem þau höfðu numið við móðurkné, og að notkun þeirra á þessu tungumáli væri svo ábótavant að til tafarlausra ráðstafana þyrfti að grípa. Þeir dagar eru liðnir - liðnir eru tímar umvöndunarmálfræðinnar og upp er runnin öld mannúðarmálfræðinnar, svo gripið sé til orðs sem Megas bjó til í öðru samhengi. Maður sér ekki lengur fyrir sér málfræðinga á hvítum sloppum með samanbitnar varir að reyna að þrífa dönskuslettur af villuráfandi einstaklingi eða að lækna hljóðvilltan einstakling heldur eru málfræðingarnir orðnir eins og hverjir aðrir sveppafræðingar sem kunna skil á eitruðum sveppum og ofskynjunarsveppum og átsveppum en telja ekki í sínum verkahring að hlutast til um það hvaða sveppir fá að vaxa. Sjálfsagt er lítil eftirsjá að þeim tímum þegar litið var á það sem ógnun við íslenska tungu þegar almenningur vogaði sér að opna munninn - og umvandanir um málfar hafa í seinni tíð tekið að snúast fremur um óskýra hugsun en misgöfugan uppruna orða. En ég get samt ekki stillt mig um að hreyfa hér undarlegri málbreytingu sem farið hefur sigurför um samfélagið undanfarin misseri. Breytingin er þessi: þegar sögninni "að spá" fylgir forsetningin "í" er hún allt í einu farin að taka þágufall með sér í stað þolfalls eins og fyrr. Unnvörpum spáir fólk nú í "einhverju" í stað þess sem áður var, að það spái í "eitthvað". Hvað er hér á seyði? Er þetta þágufalls - uh - hneigð? Ný birtingarmynd á þeirri tilhneigingu þágufallsins að ryðja út þolfallinu? Kannski. En hér er þágufall ekki bara að ryðja út þolfalli heldur ryðst sögnin "að spá" hér inn á svið systursagnar sinnar "að pæla" og virðist jafnvel á góðri leið með að útrýma henni: eða hafið þið, kæru lesendur, nýlega heyrt einhvern tala um að pæla í einhverju? Eins og kunnugt er þá tekur sú sögn einmitt með sér þágufall, enda er þágufallið fall aðgerðanna, virkninnar, hreyfingarinnar en þolfallið er fall kyrrstöðu, óvirkni, dáðleysis, þess sem skoðað er. Það er þetta óvirka horf þolfallsins sem veldur því að fólk á erfitt með að nota það með sögnunum "að vilja" og "langa" og hyllist til að nota þar þágufallið sem gefur meira til kynna virkan vilja og löngun. Báðar gengu þessar gömlu og virðulegu sagnir " að spá og pæla " í endurnýjun lífdaganna á svipuðum tíma og voru mikið notaðar í unglingamáli á sjöunda og áttunda áratug 20. aldarinnar. Þær komust þaðan inn í almenna málnotkun og urðu tískuorðfæri við nokkra velþóknun málfræðinga. Einkum þótti nútímanotkun á sögninni "að pæla" til marks um endurnýjunarmátt íslenskrar tungu. Það er eitthvað mjög þjóðlegt og hrjóstrugt við þessa sögn sem merkir að grafa í gróðursnauðum jarðvegi með sérstökum spaða - páli - við skynjum í sögninni púlið við að hugsa; hér er enginn óbærilegur léttleiki, engin auðkeypt viska, heldur kostar sérhver niðurstaða umþenkinganna ómælda fyrirhöfn... En nú virðist þessi fallega og sérkennilega sögn allt í einu í bráðri útrýmingarhættu og spurning hvort ekki þurfi að setja hana í einhvers konar gjörgæslu... Ég leyfi mér hér með að gera dálitla uppreisn gegn ríkjandi reiðareksstefnu í málfarsefnum og nota hér gamalt form við málfarsábendingar: Heyrst hefur: ég er að spá í því að fara í föt. Rétt væri: ég er að spá í það að fara í föt. Enda pæli ég mikið í fötum.