Stjórnmálin hafa setið eftir 28. ágúst 2005 00:01 Það má hafa nokkuð gaman af þessum undanfara prófkjörskosninga vegna komandi sveitarstjórnarkosninga sem við upplifum þessa dagana. Sveitarstjórnarmenn -- og þeir sem vilja verða sveitarstjórnarmenn -- eru allt í einu eitthvað svo hugmyndaríkir og frjóir. Einn vill landfyllingu út í Akurey, annar tennisvöll á Klambratún, þriðji flugvöll út á Löngusker og fjórði kaffihús niður í Hljómskálagarð. Og svo hefur hjartað í þessu fólki skyndilega stækkað. Það finnur til með gæslukonum sem missa vinnuna, útigangsmönnum sem eru svangir og barnmörgum fjölskyldum. Það vill öllum vel. Er ráðdeildarsamt og réttsýnt. Glaðlegt en alls ekki kærulaust. Lífsglatt en ábyggilegt og traust. Alveg eins og við hin en samt tilvalin til að leiða okkur og hjálpa, stýra okkur og stjórna. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef fyrir löngu síðan misst þráðinn í íslenskri pólitík. Ég hef ekki hugmynd um það lengur hvað þetta fólk er að selja mér. Ég veit það vill geysla af trausti, en ef stjórnvöld, sveitarstjórnir og stjórnmálamenn vekja með mér einhverja tilfinningu, þá er það nettur uggur um að þessi fyrirbrigði muni gera líf mitt erfiðara, leiðinlegra og ruglaðra en það þyrfti að vera. Og ég veit að ég verð blankari eftir viðskipti við þetta fólk. Æði stór hluti af innkomu minni -- og væn sneið af allri eyðslu minni -- fer til ríkis og bæjar; og það verður að segjast eins og er að þetta fé fer ekki allt til nýtra verkefna heldur brennur að mestu upp í bruðli og tilgangsleysi. En þótt ég geti eins og aðrir borgarar kvartað undan stjórnmálamönnum þá held að það sé eiginlega enn verra hlutskipti í dag að vera stjórnmálamaður. Sem kunnugt er skipa stjórnmálamenn sér í flokka til að standast betur samkeppni um atkvæði almennings við aðra flokka stjórnmálamanna. Þeir reyna síðan í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi almennrar umræðu að draga fram kosti sína og síns flokks og ágalla annarra flokka, tillagna þeirra og frambjóðenda. Stjórnmálavettvangurinn er því ekki ólíkur annarri samkeppni; viðskiptum eða íþróttum -- svo dæmi séu tekin. Munurinn er helstur sá að í viðskiptum þykir ekki góð latína að eyða púðri í að sverta samkeppnisaðila en stjórnmálum verja menn mestum tíma sínum í þá iðju. Áður fyrr mátti heyra á íþróttavöllum hrakyrði stuðningsmanna um andstæðinginn til jafns við hvatningu til sinna manna; en flestir áhugamenn um íþróttir hafa aflagt slíkt -- nema allra verstu fótboltabullur, sem af þeim sökum er meinað að ferðast á milli landa og jafnvel til næsta bæjar. En í stjórnmálum þykir enn gott og gilt að hreyta hnjóðsyrðum á andstæðinginn og njóta þeir stjórnmálamenn mestrar virðingar kollega sinna sem leiknastir eru við þá iðju. En þótt tilburðir og framkoma stjórnmálamanna sé þannig æði hallærisleg og úr tísku fallinn þá er eiginlega enn sorglegra að öll sviðsetning stjórnmálanna, orðanotkun og svipbrigði -- allar þessar endalausu áhyggjur, hneykslan og vandlæting -- virðist vera sótt í átök sem eru löngu liðin og hugmyndaheim, sem er ekki bara horfinn, heldur sem enginn saknar. Stundum er virka stjórnmálin á okkur eins og sviðsetning á Skugga Sveini eða leikriti eftir Molière; leikarar að velkjast um í hlutverkum sem þóttu einu sinni fyndin en vekur engum bros lengur -- eins konar fórn til menningararfsins. Kannski höldum við stjórnmálaumræðunni gangandi af virðingu fyrir fólki fyrra tíða sem gat tekist á um raunveruleg verðmæti og glímt við raunverulegan vanda -- stjórnmálamenn sem tókst á við meira krefjandi verkefni en kaffihús í Hljómskálagarðinum eða tennisvöll á Klambratúni. Samfélagið tekur sífelldum breytingum og ekki bara hegðan manna á kappleikjum. Það sem einu sinni þótti gott og gilt verður einn daginn óþarft og tilgangslaust. Það hefur margt breyst hjá okkur á undanförnum árum og áratugum og flest til nokkurs batnaðar. En það er eins og stjórnmálin hafi setið eftir. Og það er fyrir löngu orðið tímabært að stjórnmálamennirnir okkar, flokkarnir þeirra og stefnumálin, verði líkari öðrum þáttum samfélagsins og þjóni þeim betur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Gunnar Smári Egilsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Það má hafa nokkuð gaman af þessum undanfara prófkjörskosninga vegna komandi sveitarstjórnarkosninga sem við upplifum þessa dagana. Sveitarstjórnarmenn -- og þeir sem vilja verða sveitarstjórnarmenn -- eru allt í einu eitthvað svo hugmyndaríkir og frjóir. Einn vill landfyllingu út í Akurey, annar tennisvöll á Klambratún, þriðji flugvöll út á Löngusker og fjórði kaffihús niður í Hljómskálagarð. Og svo hefur hjartað í þessu fólki skyndilega stækkað. Það finnur til með gæslukonum sem missa vinnuna, útigangsmönnum sem eru svangir og barnmörgum fjölskyldum. Það vill öllum vel. Er ráðdeildarsamt og réttsýnt. Glaðlegt en alls ekki kærulaust. Lífsglatt en ábyggilegt og traust. Alveg eins og við hin en samt tilvalin til að leiða okkur og hjálpa, stýra okkur og stjórna. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef fyrir löngu síðan misst þráðinn í íslenskri pólitík. Ég hef ekki hugmynd um það lengur hvað þetta fólk er að selja mér. Ég veit það vill geysla af trausti, en ef stjórnvöld, sveitarstjórnir og stjórnmálamenn vekja með mér einhverja tilfinningu, þá er það nettur uggur um að þessi fyrirbrigði muni gera líf mitt erfiðara, leiðinlegra og ruglaðra en það þyrfti að vera. Og ég veit að ég verð blankari eftir viðskipti við þetta fólk. Æði stór hluti af innkomu minni -- og væn sneið af allri eyðslu minni -- fer til ríkis og bæjar; og það verður að segjast eins og er að þetta fé fer ekki allt til nýtra verkefna heldur brennur að mestu upp í bruðli og tilgangsleysi. En þótt ég geti eins og aðrir borgarar kvartað undan stjórnmálamönnum þá held að það sé eiginlega enn verra hlutskipti í dag að vera stjórnmálamaður. Sem kunnugt er skipa stjórnmálamenn sér í flokka til að standast betur samkeppni um atkvæði almennings við aðra flokka stjórnmálamanna. Þeir reyna síðan í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi almennrar umræðu að draga fram kosti sína og síns flokks og ágalla annarra flokka, tillagna þeirra og frambjóðenda. Stjórnmálavettvangurinn er því ekki ólíkur annarri samkeppni; viðskiptum eða íþróttum -- svo dæmi séu tekin. Munurinn er helstur sá að í viðskiptum þykir ekki góð latína að eyða púðri í að sverta samkeppnisaðila en stjórnmálum verja menn mestum tíma sínum í þá iðju. Áður fyrr mátti heyra á íþróttavöllum hrakyrði stuðningsmanna um andstæðinginn til jafns við hvatningu til sinna manna; en flestir áhugamenn um íþróttir hafa aflagt slíkt -- nema allra verstu fótboltabullur, sem af þeim sökum er meinað að ferðast á milli landa og jafnvel til næsta bæjar. En í stjórnmálum þykir enn gott og gilt að hreyta hnjóðsyrðum á andstæðinginn og njóta þeir stjórnmálamenn mestrar virðingar kollega sinna sem leiknastir eru við þá iðju. En þótt tilburðir og framkoma stjórnmálamanna sé þannig æði hallærisleg og úr tísku fallinn þá er eiginlega enn sorglegra að öll sviðsetning stjórnmálanna, orðanotkun og svipbrigði -- allar þessar endalausu áhyggjur, hneykslan og vandlæting -- virðist vera sótt í átök sem eru löngu liðin og hugmyndaheim, sem er ekki bara horfinn, heldur sem enginn saknar. Stundum er virka stjórnmálin á okkur eins og sviðsetning á Skugga Sveini eða leikriti eftir Molière; leikarar að velkjast um í hlutverkum sem þóttu einu sinni fyndin en vekur engum bros lengur -- eins konar fórn til menningararfsins. Kannski höldum við stjórnmálaumræðunni gangandi af virðingu fyrir fólki fyrra tíða sem gat tekist á um raunveruleg verðmæti og glímt við raunverulegan vanda -- stjórnmálamenn sem tókst á við meira krefjandi verkefni en kaffihús í Hljómskálagarðinum eða tennisvöll á Klambratúni. Samfélagið tekur sífelldum breytingum og ekki bara hegðan manna á kappleikjum. Það sem einu sinni þótti gott og gilt verður einn daginn óþarft og tilgangslaust. Það hefur margt breyst hjá okkur á undanförnum árum og áratugum og flest til nokkurs batnaðar. En það er eins og stjórnmálin hafi setið eftir. Og það er fyrir löngu orðið tímabært að stjórnmálamennirnir okkar, flokkarnir þeirra og stefnumálin, verði líkari öðrum þáttum samfélagsins og þjóni þeim betur.
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun