Fastir pennar

Goodbye Lenin

Var ekki Menningarnóttin svolítið eins og lokakafli í skáldsögu um Reykjavíkurlistann - og varð Minningarnótt? Var ekki lokakaflinn að minnsta kosti fullur af örvæntingarfullu sjónarspili til að reyna að breiða yfir yfirþyrmandi vísbendingar um óhjákvæmilegar breytingar í vændum? Flugeldasýningin í boði Orkuveitunnar - sem rétt einu sinni segir við okkur notendur eins Bjartur í Sumarhúsum gerði: "Ekkert að spara, ég borga" - náði aldrei þessu vant ekki að heilla mann vegna þess að hugurinn var bundinn við dropana sem tóku að falla við hvert fet eins og eitthvað óhjákvæmilegt í vændum... Svo kom Bítlalagið All you need is love - sem hljómar í fljótu bragði eins og fegursti boðskapur í anda Gandhis en er í rauninni baráttusnauður uppgjafarsöngur hins al-passíva manns. Að því búnu kom grenjandi rigning í öllu sínu veldi. Við eigum að minnast Reykjavíkurlistans með hlýhug. Í minningargreinum um mjög leiðinlegt fólk er stundum sagt: hann/hún var ekki allra - en Reykjavíkurlistinn var nefnilega einmitt allra: Hann var hreyfing á meðan hann var og hét en ekki valdaklúbbur. Á sínum tíma var Reykjavíkurlistanum þröngvað upp á vinstri flokkana í Reykjavík af kjósendum sem fengið höfðu sig fullsadda af ofríki Sjálfstæðismanna sem ríktu í krafti þeirrar pattstöðu sem smáflokkafyrirkomulagið á vinstri vængnum bauð upp á - oftast með minnihluta atkvæða á bak við sig. Þetta var alls konar fólk: drýgindalegir Framsóknarmenn og dugnaðarlegar kvennalistakonur, drykkfelldir kratar og tortryggnir allaballar og svo allt hitt fólkið, allt venjulega fólkið - sjálfir kjósendurnir sem skildu ekki nauðsynina á því að viðhalda flokkakerfi sem byggðist á útræddum málum, nenntu ekki að lifa sig inn í gagnkvæma andúð Einars Olgeirssonar og Stefáns Jóhanns Stefánssonar, vissu sem var að tími Tónabíósfundarins var liðinn... Með öðrum orðum: Reykjavíkurlistinn var leið til að sameina vinstri menn. Og svo fór enda áður en yfir lauk að þeir vinstri menn sem á annað borð kærðu sig um það sameinuðust í Samfylkingunni. Eftir er Framsóknarflokkurinn sem er pólitískur armur S-hópsins, sem áður hét SÍS. Og Vinstri grænir. Það fólk sem vildi ekki vera með í sameinuðum jafnaðarmannaflokki fann sér farveg í flokknum sem kallar sig Vinstri græna, sumt vegna þess að það var beinlínis andvígt jafnaðarstefnunni og leit á orðið "krati" sem skammaryrði" en orðið er dregið af orðinu "demókratí" - og annað vegna þess að það vildi vera í umhverfisverndarflokki. Sennilega hefði Reykjavíkurlistinn átt að renna sitt skeið á enda fyrir kosningarnar 2002, en upp úr sigrinum þá gerði Ingibjörg Sólrún þau ægilegu mistök að ljá máls á því að setjast í vonlaust sæti á lista Samfylkingar fyrir alþingiskosningarnar 2003. Fyrir kosningarnar 2002 var andinn sem ríkti fyrir kosningarnar 94 og jafnvel 98 horfinn og gömlu flokkarnir höfðu sölsað allt undir sig. Reykjavíkurlistinn var nafnið tómt. Og nú hafa Vinstri grænir haft einurð í sér til að kveða upp úr með að þetta sé búið. Gott hjá þeim. Þótt þar sé margt dugmikið hugsjónafólk sem unnið hefur Reykjavík vel þá er því ekki að neita að flokkurinn dragnast með sumt af farmi Alþýðubandalagsins sáluga. Og ekki bara mjög útbreidda og gjörtæka unun af pexi og ráðabruggi - heldur líka andúð á "krötum". Þótt hugsjónir umhverfisverndar og andóf gegn alþjóðavæðingu stórkapítalsins hafi vissulega blásið nýju lífi í þessa hreyfingu virðist hún stundum enn ekki laus við horngrýtis lenínismann stalínismann maóismann eða hvað maður á að kalla þessa alræðis- og úrvalshyggju sem íslenskir vinstri-sósíalistar aðhylltust á síðustu öld - í alls konar myndum. Athugasemdalaust hafa komist til nokkurra áhrifa innan flokksins menn sem opinberlega hafa harmað fall Berlínarmúrsins og farið fögrum orðum um Jósep Stalín. Ungt fólk í flokknum hefur um árabil talið "Múrinn" nokkuð gott nafn á vefmálgagni sínu. Flokkurinn hefur þannig innan sinna vébanda öfl sem dufla við þessa fornu alvisku og það var því kaldhæðnislegt að flokkurinn skyldi láta steyta á því í viðræðum um framtíð Reykjavíkurlistans að geta ekki með nokkru móti fallist á prófkjör, þ.e.a.s. að kjósendur fái að hafa um það að segja hvaða manneskjur eiga að vera í framvarðarsveitinni... Og nú er þetta búið. Og við eigum að minnast Reykjavíkurlistans með hlýhug. Blessuð sé minning þessara samtaka sem buðu fram undir merkjum regnbogans. Á minningarnóttinni var enginn regnbogi. Bara myrkur og "All you need is love" og grenjandi rigning; og eftir miðnætti tóku barbararnir öll völd.





×