Þýskur sveigjanleiki 17. ágúst 2005 00:01 Flóknari viðskipti við verslanir í Þýskalandi og öll viðskipti við banka og stofnanir minna á leik þar sem starfsfólk reynir að gera viðskiptavininum sem erfiðast fyrir. Ég stend mig stundum að því að reyna að ímynda mér fyrirfram með hvaða hætti menn muni gera væntanleg viðskipti sem flóknust, erfiðust og leiðinlegust en ímyndunarafl þýskra fyrirtækja, stofnana og starfsmanna þeirra reynist oftast meira en mitt. Þetta hefur raunar sparað mér stórfé þann tíma sem ég hef búið í landinu því ég er hættur að fara í búðir í Þýskalandi nema gersamlega tilneyddur. Frá þessari almennu reglu um flókin, skrifræðiskennd og leiðinleg viðskipti eru auðvitað til margar undantekningar. Reglan er hins vegar svo almenn að leiðinleg, flókin og erfið viðskipti eru eitt af algengustu umræðuefnum þeirra útlendinga í Þýskalandi sem hafa búið í öðrum þróuðum samfélögum. Blaðamenn sem heimsækja landið, sérstaklega frá Bretlandi, taka líka fljótt eftir þessu. Sögur manna af viðskiptum við þýska banka, þýsk símafyrirtæki og þýskar verslanir eru stundum svo ótrúlegar að menn reyna ekki að segja þær fólki sem ekki hefur reynslu af landinu. Þýskaland hefur dregist stórlega aftur úr öðrum þróuðum samfélögum á síðustu árum og það svo mjög að tilfinning um almenna og djúpa kreppu ríkir í landinu. Hagkerfið hefur á síðustu tíu árum aðeins vaxið um þriðjung af heimsmeðaltali og aðeins helming af vexti í öðrum þróuðum ríkjum Evrópu sem mörg hver hafa þó átt í erfiðleikum. Þjóðverjar eru ekki lengur á meðal þeirra Evrópuþjóða sem hæstar tekjur hafa að meðaltali. Hver hefði trúað því fyrir aðeins tíu árum? Algengar ástæður sem menn nefna fyrir hnignun Þýskalands eru aðgerðarleysi á langri stjórnartíð Kohls og mistök í hagstjórn við sameiningu landsins fyrir fimmtán árum. Styrkir til austurhluta landsins hafa líka á síðustu árum numið stjarnfræðilegum upphæðum. Meðaltekjur manna í austurhluta landsins eru þó enn sama lága hlutfallið af tekjum manna í vesturhluta landsins og þær voru fyrir tíu árum. Mistökin í hagstjórn á valdaferli Kohls og sérstaklega við sameiningu landsins eru nógu augljós til að vera lítið umdeild. Mér datt hins vegar í hug önnur skýring á hnignun Þýskalands á læknabiðstofu í fyrra. Allir sem sátu á þéttsetinni biðstofunni reyndust eiga tíma kl. eitt og framundan var löng bið. Mér var sagt að lækninum þætti þægilegast að hafa þetta svona. Ég átti eftir að komast að því að þetta er alsiða hjá læknum. Ég fór líka að reka mig á skylt verklag í bönkum, verslunum og stofnunum. Allar skýringar sem ég reyndi að finna á undarlegum og stirðum viðskiptaháttum enduðu í sömu skýringunni. Þetta var alltaf svona vegna einhverra sérstakra hentugleika þess sem þjónustuna veitti. Viðskiptavinir voru afgangsstærð. Með sama hætti virðast alls kyns hagsmunahópar móta stjórnarstefnuna hver á sínu sviði. Almenningur endar alltaf sem afgangsstærð. Þetta er líklega ástæðan fyrir almennri svartsýni í landinu á að úrslit kosninganna muni í reynd skipta miklu máli þótt fjölmiðlar segi þær hinar mikilvægustu í áratugi. Þeir hagsmunir sem ráða stefnu kristilegra demókrata eru talsvert aðrir en þeir sem ráða hjá jafnaðarmönnum og stefnumiðin virðast ólík. Báðir flokkarnir eru hins vegar rígbundnir sérhagsmunum. Hagsmunirnir að baki kristilegum demókrötum virðast engu heppilegri fyrir Þýskaland við þær aðstæður sem nú eru komnar upp í atvinnulífi heimsins. Ástæðan fyrir því að Þýskaland hefur dregist svo mjög aftur úr á síðustu árum er í grunninn sú að atvinnulíf landsins hefur ekki ráðið við óhefta samkeppni. Það kann að hljóma undarlega í ljósi þess að Þýskaland er stærsti útflytjandi heimsins, stærri en Japan og stærri en Bandaríkin. Nokkur stór og enn fleiri tiltölulega lítil og sérhæfð fyrirtæki í Þýskalandi eru leiðandi í heiminum hvert í sinni grein. Dýpkun Evrópusamrunans, stækkun Evrópusambandsins og hnattvæðing viðskipta með þátttöku Asíulanda hafa hins vegar greinilega oftar orðið að áföllum en tækifærum fyrir þýska hagkerfið sem skortir þann sveigjanleika sem nútíminn krefst vegna pólitískt varinna hagsmuna. Eftir stríðið var Þýskaland lausara við sterka sérhagsmuni en önnur ríki og þýska efnahagsundrið var stundum skýrt með því. Nú er það fast í viðjum sérhagsmuna á tímum þegar sveigjanleiki skilur á milli feigs og ófeigs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Flóknari viðskipti við verslanir í Þýskalandi og öll viðskipti við banka og stofnanir minna á leik þar sem starfsfólk reynir að gera viðskiptavininum sem erfiðast fyrir. Ég stend mig stundum að því að reyna að ímynda mér fyrirfram með hvaða hætti menn muni gera væntanleg viðskipti sem flóknust, erfiðust og leiðinlegust en ímyndunarafl þýskra fyrirtækja, stofnana og starfsmanna þeirra reynist oftast meira en mitt. Þetta hefur raunar sparað mér stórfé þann tíma sem ég hef búið í landinu því ég er hættur að fara í búðir í Þýskalandi nema gersamlega tilneyddur. Frá þessari almennu reglu um flókin, skrifræðiskennd og leiðinleg viðskipti eru auðvitað til margar undantekningar. Reglan er hins vegar svo almenn að leiðinleg, flókin og erfið viðskipti eru eitt af algengustu umræðuefnum þeirra útlendinga í Þýskalandi sem hafa búið í öðrum þróuðum samfélögum. Blaðamenn sem heimsækja landið, sérstaklega frá Bretlandi, taka líka fljótt eftir þessu. Sögur manna af viðskiptum við þýska banka, þýsk símafyrirtæki og þýskar verslanir eru stundum svo ótrúlegar að menn reyna ekki að segja þær fólki sem ekki hefur reynslu af landinu. Þýskaland hefur dregist stórlega aftur úr öðrum þróuðum samfélögum á síðustu árum og það svo mjög að tilfinning um almenna og djúpa kreppu ríkir í landinu. Hagkerfið hefur á síðustu tíu árum aðeins vaxið um þriðjung af heimsmeðaltali og aðeins helming af vexti í öðrum þróuðum ríkjum Evrópu sem mörg hver hafa þó átt í erfiðleikum. Þjóðverjar eru ekki lengur á meðal þeirra Evrópuþjóða sem hæstar tekjur hafa að meðaltali. Hver hefði trúað því fyrir aðeins tíu árum? Algengar ástæður sem menn nefna fyrir hnignun Þýskalands eru aðgerðarleysi á langri stjórnartíð Kohls og mistök í hagstjórn við sameiningu landsins fyrir fimmtán árum. Styrkir til austurhluta landsins hafa líka á síðustu árum numið stjarnfræðilegum upphæðum. Meðaltekjur manna í austurhluta landsins eru þó enn sama lága hlutfallið af tekjum manna í vesturhluta landsins og þær voru fyrir tíu árum. Mistökin í hagstjórn á valdaferli Kohls og sérstaklega við sameiningu landsins eru nógu augljós til að vera lítið umdeild. Mér datt hins vegar í hug önnur skýring á hnignun Þýskalands á læknabiðstofu í fyrra. Allir sem sátu á þéttsetinni biðstofunni reyndust eiga tíma kl. eitt og framundan var löng bið. Mér var sagt að lækninum þætti þægilegast að hafa þetta svona. Ég átti eftir að komast að því að þetta er alsiða hjá læknum. Ég fór líka að reka mig á skylt verklag í bönkum, verslunum og stofnunum. Allar skýringar sem ég reyndi að finna á undarlegum og stirðum viðskiptaháttum enduðu í sömu skýringunni. Þetta var alltaf svona vegna einhverra sérstakra hentugleika þess sem þjónustuna veitti. Viðskiptavinir voru afgangsstærð. Með sama hætti virðast alls kyns hagsmunahópar móta stjórnarstefnuna hver á sínu sviði. Almenningur endar alltaf sem afgangsstærð. Þetta er líklega ástæðan fyrir almennri svartsýni í landinu á að úrslit kosninganna muni í reynd skipta miklu máli þótt fjölmiðlar segi þær hinar mikilvægustu í áratugi. Þeir hagsmunir sem ráða stefnu kristilegra demókrata eru talsvert aðrir en þeir sem ráða hjá jafnaðarmönnum og stefnumiðin virðast ólík. Báðir flokkarnir eru hins vegar rígbundnir sérhagsmunum. Hagsmunirnir að baki kristilegum demókrötum virðast engu heppilegri fyrir Þýskaland við þær aðstæður sem nú eru komnar upp í atvinnulífi heimsins. Ástæðan fyrir því að Þýskaland hefur dregist svo mjög aftur úr á síðustu árum er í grunninn sú að atvinnulíf landsins hefur ekki ráðið við óhefta samkeppni. Það kann að hljóma undarlega í ljósi þess að Þýskaland er stærsti útflytjandi heimsins, stærri en Japan og stærri en Bandaríkin. Nokkur stór og enn fleiri tiltölulega lítil og sérhæfð fyrirtæki í Þýskalandi eru leiðandi í heiminum hvert í sinni grein. Dýpkun Evrópusamrunans, stækkun Evrópusambandsins og hnattvæðing viðskipta með þátttöku Asíulanda hafa hins vegar greinilega oftar orðið að áföllum en tækifærum fyrir þýska hagkerfið sem skortir þann sveigjanleika sem nútíminn krefst vegna pólitískt varinna hagsmuna. Eftir stríðið var Þýskaland lausara við sterka sérhagsmuni en önnur ríki og þýska efnahagsundrið var stundum skýrt með því. Nú er það fast í viðjum sérhagsmuna á tímum þegar sveigjanleiki skilur á milli feigs og ófeigs.