Blöð, lekar, morð 13. október 2005 19:33 Það er víst ekki alltaf tekið út með sitjandi sældinni að vera blaðamaður. Undangengin tíu ár hafa 339 blaðamenn verið drepnir við iðju sína víðs vegar um heiminn, þar af voru 246 myrtir, aðrir týndu lífinu í styrjöldum, götuóeirðum og þess háttar. Af þeim 246 sem voru myrtir með köldu blóði, hafði 60 áður verið hótað lífláti, og 23 blaðamönnum var rænt og haldið í gíslingu, áður en þeim var stútað. Fórnarlömbin voru ýmist myrt til þess að refsa þeim fyrir skrif, sem þegar höfðu birzt, eða til að koma í veg fyrir frekari skrif af sama tagi. Skrif um hvað? Það segir sig sjálft, nema hvað: spillingu, mannréttindabrot og annað, sem ekki þolir dagsbirtu. Tölurnar að ofan eru teknar af vefsetri virtra samtaka blaðamanna í New York, Committee to Protect Journalists (www.cpj.org). Blaðamannamorðin undangengin ár eru óvenjuleg meðal annars fyrir þá sök, að morðingjarnir komust yfirleitt undan. Af morðunum 246, sem minnzt var á að framan, hafa aðeins 35 verið upplýst og morðingjarnir fengið dóm. Með öðrum orðum: 85% þessara víga eru enn óupplýst, enda þótt það blasi við að minnsta kosti í sumum tilfellum, hverjir sökudólgarnir eru. Ef blaðamaður X afhjúpar ólöglegt athæfi stjórnmálamanns Y eða viðskiptajöfurs Z og er síðan skotinn til ólífis á útidyratröppunum heima hjá sér, þá þarf ekki mikla leikni í líkindastærðfræði til að leysa málið - eða hvað? Hættulegasta landið fyrir blaðamenn er nú Írak: Þar hafa 36 blaðamenn verið drepnir síðan 1995, allir reyndar síðan Bandaríkjamenn og fleiri réðust inn í landið í marz 2003. Fram að innrásinni höfðu blöðin öll og aðrir fjölmiðlar dansað eftir pípu einræðisherrans, Saddams Hussein, engin óþægð þar, ekki fyrr en nýir fjölmiðlar kvöddu sér hljóðs eftir innrásina. Næsthættulegast er Alsír, þar sem ofsatrúarmenn eru að reyna að ná völdum af núverandi herstjórn. Þá kemur eiturlyfjabælið Kólumbía og þá Rússland, þar sem 29 blaðamenn hafa týnt lífi síðan 1995, margir að vísu í Tsétséníu, alræmdu ófriðarbæli, en samt ekki allir: ellefu blaðamenn hafa verið myrtir í Rússlandi, síðan Pútín komst til valda árið 2000. Öll þessi morð bera svip leigumorða. Ekkert þeirra hefur verið upplýst. Blaðamenn í okkar heimshluta þurfa ekki að óttast um líf sitt. Og þó: Rússland er í okkar heimshluta. Íslenzkir blaðamenn hafa verið óhultir, að minnsta kosti á friðartímum, allar götur síðan Jón Ólafsson ritstjóri (1850-1916) þurfti að flýja land í tvígang vegna ógætilegra skrifa um yfirvöld. En þá er einnig þess að gæta, að fram á síðustu ár hafa íslenzkir fjölmiðlar margir hverjir verið frekar auðsveipir stjórnvöldum og þá um leið ýmsum oddvitum viðskiptalífsins, enda voru þeir margir handgengnir stjórnmálaflokkunum og öfugt. Dagblöðin voru flest flokksblöð og þögðu um ýmis óþægileg mál. Fámenni landsins átti trúlega þátt í þessu háttalagi og á enn, því að til að mynda spilling er óþægilegri um að fást í návígi en úr fjarlægð. Mestan þátt í ósjálfstæði flestra íslenzkra fjölmiðla fram á síðustu ár átti veldi stjórnmálaflokkanna langt umfram umsvif þeirra í nálægum löndum. Valddreifing undangenginna ára hefur grafið undan veldi flokkanna og skapað skilyrði til aukinnar grósku í fjölmiðlaheiminum, og þá byrjaði að molna úr þagnarmúrnum. Nokkrir hugrakkir blaðamenn hafa gengið á undan með góðu fordæmi. Nú situr þekktur bandarískur blaðamaður í fangelsi fyrir að neita að rjúfa trúnað við heimildarmann, sem óskaði nafnleyndar. Annar blaðamaður hafði birt nafn á starfsmanni leyniþjónustunnar CIA fyrir nokkru og borið fyrir sig hátt setta embættismenn í Hvíta húsinu. Það varðar við bandarísk lög að ljóstra upp nöfnum njósnara, svo að grunur vaknaði um lögbrot í innsta hring Bush forseta. Viðurlögin eru allt að 20 ára fangavist. Eftir mikla rekistefnu var sérstökum saksóknara falið að rannsaka málið. Hann kallaði meðal annarra fyrir sig blaðamann New York Times, konu, sem hafði viðað að sér efni í grein um málið, en ekkert birt af því enn. Hún neitaði að segja til heimildarmanns síns og situr því inni. Annar blaðamaður leysti frá skjóðunni. Nú ganga ritstjórar fram fyrir skjöldu og lýsa því, að þeir þurfi að neita lesendum um leknar upplýsingar, því að þeir eigi nú tveggja kosta völ: að ljóstra upp um þá, sem láku, yrði þess krafizt fyrir rétti, eða fara í fangelsi. Af tvennu illu þykir þeim flestum skárra að sitja á upplýsingunum en að sitja í fangelsi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Það er víst ekki alltaf tekið út með sitjandi sældinni að vera blaðamaður. Undangengin tíu ár hafa 339 blaðamenn verið drepnir við iðju sína víðs vegar um heiminn, þar af voru 246 myrtir, aðrir týndu lífinu í styrjöldum, götuóeirðum og þess háttar. Af þeim 246 sem voru myrtir með köldu blóði, hafði 60 áður verið hótað lífláti, og 23 blaðamönnum var rænt og haldið í gíslingu, áður en þeim var stútað. Fórnarlömbin voru ýmist myrt til þess að refsa þeim fyrir skrif, sem þegar höfðu birzt, eða til að koma í veg fyrir frekari skrif af sama tagi. Skrif um hvað? Það segir sig sjálft, nema hvað: spillingu, mannréttindabrot og annað, sem ekki þolir dagsbirtu. Tölurnar að ofan eru teknar af vefsetri virtra samtaka blaðamanna í New York, Committee to Protect Journalists (www.cpj.org). Blaðamannamorðin undangengin ár eru óvenjuleg meðal annars fyrir þá sök, að morðingjarnir komust yfirleitt undan. Af morðunum 246, sem minnzt var á að framan, hafa aðeins 35 verið upplýst og morðingjarnir fengið dóm. Með öðrum orðum: 85% þessara víga eru enn óupplýst, enda þótt það blasi við að minnsta kosti í sumum tilfellum, hverjir sökudólgarnir eru. Ef blaðamaður X afhjúpar ólöglegt athæfi stjórnmálamanns Y eða viðskiptajöfurs Z og er síðan skotinn til ólífis á útidyratröppunum heima hjá sér, þá þarf ekki mikla leikni í líkindastærðfræði til að leysa málið - eða hvað? Hættulegasta landið fyrir blaðamenn er nú Írak: Þar hafa 36 blaðamenn verið drepnir síðan 1995, allir reyndar síðan Bandaríkjamenn og fleiri réðust inn í landið í marz 2003. Fram að innrásinni höfðu blöðin öll og aðrir fjölmiðlar dansað eftir pípu einræðisherrans, Saddams Hussein, engin óþægð þar, ekki fyrr en nýir fjölmiðlar kvöddu sér hljóðs eftir innrásina. Næsthættulegast er Alsír, þar sem ofsatrúarmenn eru að reyna að ná völdum af núverandi herstjórn. Þá kemur eiturlyfjabælið Kólumbía og þá Rússland, þar sem 29 blaðamenn hafa týnt lífi síðan 1995, margir að vísu í Tsétséníu, alræmdu ófriðarbæli, en samt ekki allir: ellefu blaðamenn hafa verið myrtir í Rússlandi, síðan Pútín komst til valda árið 2000. Öll þessi morð bera svip leigumorða. Ekkert þeirra hefur verið upplýst. Blaðamenn í okkar heimshluta þurfa ekki að óttast um líf sitt. Og þó: Rússland er í okkar heimshluta. Íslenzkir blaðamenn hafa verið óhultir, að minnsta kosti á friðartímum, allar götur síðan Jón Ólafsson ritstjóri (1850-1916) þurfti að flýja land í tvígang vegna ógætilegra skrifa um yfirvöld. En þá er einnig þess að gæta, að fram á síðustu ár hafa íslenzkir fjölmiðlar margir hverjir verið frekar auðsveipir stjórnvöldum og þá um leið ýmsum oddvitum viðskiptalífsins, enda voru þeir margir handgengnir stjórnmálaflokkunum og öfugt. Dagblöðin voru flest flokksblöð og þögðu um ýmis óþægileg mál. Fámenni landsins átti trúlega þátt í þessu háttalagi og á enn, því að til að mynda spilling er óþægilegri um að fást í návígi en úr fjarlægð. Mestan þátt í ósjálfstæði flestra íslenzkra fjölmiðla fram á síðustu ár átti veldi stjórnmálaflokkanna langt umfram umsvif þeirra í nálægum löndum. Valddreifing undangenginna ára hefur grafið undan veldi flokkanna og skapað skilyrði til aukinnar grósku í fjölmiðlaheiminum, og þá byrjaði að molna úr þagnarmúrnum. Nokkrir hugrakkir blaðamenn hafa gengið á undan með góðu fordæmi. Nú situr þekktur bandarískur blaðamaður í fangelsi fyrir að neita að rjúfa trúnað við heimildarmann, sem óskaði nafnleyndar. Annar blaðamaður hafði birt nafn á starfsmanni leyniþjónustunnar CIA fyrir nokkru og borið fyrir sig hátt setta embættismenn í Hvíta húsinu. Það varðar við bandarísk lög að ljóstra upp nöfnum njósnara, svo að grunur vaknaði um lögbrot í innsta hring Bush forseta. Viðurlögin eru allt að 20 ára fangavist. Eftir mikla rekistefnu var sérstökum saksóknara falið að rannsaka málið. Hann kallaði meðal annarra fyrir sig blaðamann New York Times, konu, sem hafði viðað að sér efni í grein um málið, en ekkert birt af því enn. Hún neitaði að segja til heimildarmanns síns og situr því inni. Annar blaðamaður leysti frá skjóðunni. Nú ganga ritstjórar fram fyrir skjöldu og lýsa því, að þeir þurfi að neita lesendum um leknar upplýsingar, því að þeir eigi nú tveggja kosta völ: að ljóstra upp um þá, sem láku, yrði þess krafizt fyrir rétti, eða fara í fangelsi. Af tvennu illu þykir þeim flestum skárra að sitja á upplýsingunum en að sitja í fangelsi.