Sport

Komnir inn á EM í Svíss 2006

Íslenska handboltalandsliðið tryggði sér áðan sæti á Evrópumótinu í Sviss sem fram fer eftir áramót. Ísland vann þriggja marka sigur, 31-34, á Hvít Rússum í seinni leik liðanna sem fram fór í Minsk. Íslensku strákarnir unnu þar með samanlagt með tólf marka mun eftir 33-24 sigur í fyrri leiknum í Kaplakrika. Einar Hólmgeirsson var markahæstur í dag með 7 mörk, Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 5 og þeir Róbert Gunnarsson, Jaliesky Garcia, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu allir fjögur mörk. Allir útileikmenn íslenska liðsins skoruðu nema Sigfús Sigurðsson og Markús Máni Michalesson.  Birkir Ívar Guðmundsson varði 8 skot og Roland Valur Eradze tók 4. Þetta er sjöunda stórmótið í röð sem Ísland verður með en íslenska liðið hefur verið með á öllum mótum síðan á HM í Frakklandi 2001. Evrópumótið fer fram 26 janúar til 5 febrúar 2006 og þar keppa 16 þjóðir.  Þýskaland, Slóvenía, Danmörk, Króatía og Rússland tryggðu sér öll þátttökurétt á síðasta Evrópumóti og Svisslendingar fá sæti sem gestgjafar. Um hin 10 sætin er verið að keppa um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×