Menning

Margir Nordjobbarar á leiðinni

Nordjobb er samnorrænt verkefni þar sem ungu, norrænu fólki á aldrinum 18 til 28 ára gefst tækifæri til að stunda sumarvinnu á einhverju Norðurlandanna. Markmið verkefnisins er að auka hreyfanleika ungs fólks milli Norðurlandanna og stuðla þannig að aukinni þekkingu á menningu og samfélagi Norðurlandanna. Katrín Magnúsdóttir, tómstundafulltrúi hjá Nordjobb á íslandi, segir að Nordjobb sé í sókn og að í sumar sé von á fleiri ungmennum hingað til lands en nokkru sinni fyrr. "Hér verða 80 Nordjobbarar í sumar, flestir frá Finnlandi og Svíþjóð. Atvinnutilboðum fyrir norræna starfsmenn hefur fjölgað hér á landi undanfarið en mættu þó vera fleiri. Við náum eiginlega ekki að anna eftirspurninni og vantar enn atvinnurekendur sem eru tilbúnir að taka til sín Nordjobbara," segir hún. Ungmennin sem koma til Íslands gegna alls konar störfum. "Flestir þeirra sem eru í Reykjavík fást við garðyrkjustörf en úti á landi eru ýmis önnur störf í boði, til dæmis vinna á hótelum og sveitabæjum," segir Katrín og bætir því við að Nordjobb snúist ekki bara um vinnuna heldur sé líka heilmikið félagslíf í boði. "Við erum með tómstundaprógramm og alls konar félagsstarf þar sem Nordjobbarar geta hist og skemmt sér saman. Við bjóðum líka upp á lengri ferðir út á land og þá reynum við að gera Nordjobburum á landsbyggðinni kleift að taka þátt. Þeir sem koma hingað ná því að ferðast svolítið um og sjá landið." Einn af þeim fjölmörgu Nordjobburum sem koma hingað í sumar er Finninn Kari Salo. Hann hefur verið hér í rúma viku og líkar vel. "Ég ákvað að koma til Íslands því ég hafði aldrei komið hingað áður og þótti landið framandi," segir Kari. Hann viðurkennir að hafa verið dálítið hissa á veðrinu enda bjóst hann við meiri kulda. Kari hefur áður tekið þátt í norrænu samstarfi en þetta er í fyrsta skipti sem hann vinnur sem Nordjobbari. "Þetta er mjög gaman og ég mæli hiklaust með þessu fyrir aðra." Kari ætlar að vera hér fram á sumarið en þá heldur hann heim til Finnlands þar sem hann stundar háskólanám. Þeir Íslendingar sem hafa áhuga á að eyða sumrinu erlendis geta enn sótt um Nordjobb en umsóknarfresturinn rennur út þann 31. maí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.