Sport

Dujshebaev hættur og fer að þjálfa

Einn besti handboltamaður heims síðustu ár, Talant Dujshebaev, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna næsta sumar. Hann er þó ekki hættur afskiptum af handbolta því hann ætlar að taka við þjálfun liðsins sem hann spilar með - Ciudad Real. Þetta staðfesti félagi hans hjá Ciudad Real í gær, Ólafur Stefánsson, en að hans sögn er almenn ánægja með þessar fréttir enda er núverandi þjálfari liðsins, Juan de dios Roman, ekki í miklum metum hjá flestum leikmönnum liðsins. "Mér líst geysilega vel á að fá hann sem þjálfara. Hann er með mjög góðar hugmyndir og núna verður gert eitthvað af viti hérna," sagði Ólafur sem hefur áður gagnrýnt Roman þjálfara. "Það hefur lítið verið gert af viti hérna undanfarið og alls kyns vitleysa í gangi. Dujshebaev ætlar að breyta þessu öllu. Hann ætlar að láta okkur æfa almennilega á undirbúningstímabilinu og hefur lofað því að menn muni spýta blóði. Svo verður líka einhver skynsemi í taktík, varnarleik og öðru. Mér líst verulega vel á þetta allt saman." Ólafur er mjög jákvæður fyrir næstu leiktíð þótt Ciudad sé búið að kaupa Petar Metlicic og Jon Belaustegui sem báðir leika í sömu stöðu og Ólafur. Belaustegui kemur ekki næsta vetur því Ciudad hefur ákveðið að lána hann til Hamburg í eina leiktíð. "Ég er búinn að ræða málin við Dujshebaev og hann ætlar að nota mig almennilega. Þetta verður spennandi vetur," sagði Ólafur Stefánsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×