Sport

Vilja ekki auglýsingu á treyjurnar

Forseti spænska fótboltaliðsins Barcelona, Juan Laporta, segir að félagið ætli í lengstu lög að reyna að komast hjá því að spila með auglýsingu á keppnistreyjum liðsins þrátt fyrir að stjórn félagsins hafi heimilað það. Flest knattspyrnulið heims hafa fjármagnað kaup á leikmönnum með því að semja um auglýsingar á keppnistreyjum sínum. Barcelona hefur á undanförnum árum líkt og önnur stórlið lagt áherslu á að selja keppnistreyjur sínar í Asíu og Bandaríkjunum. Laporta sagði nemendum í London Schools of Economics að tekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum þessa árs næmu um átta milljörðum króna. Frá því að Juan Laporta tók við sem forseti félagsins hefur orðið mikill viðsnúningur á rekstrinum. Árið 2002 nam tap félagsins 5,6 milljörðum króna og skuldirnar voru 12,8 milljarðar króna. Þá gekk hvorki né rak en núna er liðið með átta stiga forystu í spænsku 1. deildinni og er ennþá með í Meistaradeildinni. Samkvæmt nýrri skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur tekið saman er Barcelona sjöunda ríkasta knattspyrnufélag heims. Liðin sex sem eru fyrir ofan á listanum eru: Manchester United, Real Madríd, AC Milan, Chelsea, Juventus og Arsenal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×