Innlent

Kristinn H. tekinn í sátt

Sættir náðust í gærkvöld milli Kristins H. Gunnarssonar og þingflokks Framsóknarflokksins er Kristni voru boðin að nýju sæti í sjávarútvegsnefnd og umhverfisnefnd, sem hann sat í áður en honum var vikið úr nefndum í haust. Ástæðan fyrir útilokun Kristins úr nefndum var þá sögð samstarfserfiðleikar milli hans og annarra í þingflokknum. "Samþykkt var að ég færi aftur í sjávarútvegsnefnd og umhverfisnefnd þegar í stað. Þetta eru ekki allar nefndirnar sem ég var í áður, enda er erfitt að róta öllu til þegar svona langt er liðið á þinghaldið, en þetta verður allt stokkað aftur upp í haust." Kristinn verður í dag varaformaður í sjávarútvegsnefnd og umhverfisnefnd. "Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og tel að hún hafi verið skynsamleg. Mönnum var ljóst að það varð að leysa málið. Staða flokksins er erfið um þessar mundir. Lausnin er liður í að taka á öðrum atriðum. Það er nauðsynlegt að sýna stuðningsmönnum og kjósendum flokksins að þeir hafi áhrif."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×