Ingibjörg eða Össur 25. janúar 2005 00:01 Nú er ljóst að landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn í vor en ekki í haust, eins og ráðgert hafði verið, enda skynsamlegra miðað við hvernig ástandið er innanbúðar í flokknum. Það hefur lengi verið vitað að skiptar skoðanir eru um Össur Skarphéðinsson innan Samfylkingarinnar sem formann flokksins. Össur var á sínum tíma kjörinn formaður til að sameina ólík öfl innan flokksins og margir litu svo á að hann væri heppilegasti formaðurinn á meðan verið væri að leita að framtíðarleiðtoga fyrir flokkinn. Það var ekkert auðvelt fyrir hann að taka að sér formennskuna, en hann var maðurinn sem flestir - ekki allir - gátu sætt sig við. Það voru margir kallaðir en fáir útvaldir þegar kom að kosningu fyrsta formannsins. Menn gengu út frá því sem vísu að formaðurinn yrði að vera í þingflokknum, og þá þrengdist hópurinn töluvert. Ekki þótti heppilegt að fyrrverandi framámenn í Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi eða Kvennalista gegndu leiðtogahlutverki fyrir hinn nýja flokk, og þá þrengdist enn um. Niðurstaðan var sem sé sú að Össur var kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar. Það leið ekki á löngu þar til gagnrýnisraddir tóku að heyrast og svo kom að því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók af skarið og sagðist ætla að bjóða sig fram til formennsku á landsfundinum haustið 2005. Hún hafði þá tekið þá ákvörðun að bjóða sig fram í alþingiskosningunum vorið 2003 og var kynnt sem forsætisráðherraefni flokksins. Jafnframt var hún neydd til að segja af sér sem borgarstjóri. Kapallinn gekk ekki upp. Ingibjörgu tókst ekki ætlunarhlutverk sitt, og síðan hefur hún verið svolítið utanveltu í Samfylkingunni þrátt fyrir að vera þar varaformaður. Það er útilokað fyrir formann eða varaformann flokks að vera ekki í föstu þingliði flokks. Dæmi undanfarinna ára sýna það og sanna. Ingibjörg Sólrún hefur að vísu átt góða spretti á Alþingi en það er ekki nóg. Um helgina má segja að lokið hafi verið tekið af kraumandi potti Samfylkingarinnar. Yfirlýsing Gylfa Arnbjörnssonar um að verkalýðshreyfingin muni fylkja sér að baki Ingibjargar Sólrúnar, kom eins og köld vatnsgusa framan í Össur. Auðvitað hefur hann vitað hvað var að gerst undir niðri, en hann hefur kannski ekki átt von á þessu á þessum tímapunkti. Framundir þetta hefur ekki verið áberandi málefnaágreiningur hjá þeim Össuri og Ingibjörgu Sólrúnu, en nú má búast við að þau fari að skerpa á þeim málum sem þau vilja leggja áherslu á. Þau eiga bæði sterka stuðningsmenn innan þingflokksins, en síðan eru líka aðrir sem ekki hafa gefið sig upp. Kjör formanns Samfylkingarinnar fer fram skriflega meðal almennra flokksmanna, en þingmenn í hverju kjördæmi hafa mikil áhrif á úrslitin. Á þeim fjórum mánuðum sem eru fram að landsfundi á margt eftir að gerast og fylkingar þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Össurar munu hart berjast. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Kári Jónasson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Nú er ljóst að landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn í vor en ekki í haust, eins og ráðgert hafði verið, enda skynsamlegra miðað við hvernig ástandið er innanbúðar í flokknum. Það hefur lengi verið vitað að skiptar skoðanir eru um Össur Skarphéðinsson innan Samfylkingarinnar sem formann flokksins. Össur var á sínum tíma kjörinn formaður til að sameina ólík öfl innan flokksins og margir litu svo á að hann væri heppilegasti formaðurinn á meðan verið væri að leita að framtíðarleiðtoga fyrir flokkinn. Það var ekkert auðvelt fyrir hann að taka að sér formennskuna, en hann var maðurinn sem flestir - ekki allir - gátu sætt sig við. Það voru margir kallaðir en fáir útvaldir þegar kom að kosningu fyrsta formannsins. Menn gengu út frá því sem vísu að formaðurinn yrði að vera í þingflokknum, og þá þrengdist hópurinn töluvert. Ekki þótti heppilegt að fyrrverandi framámenn í Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi eða Kvennalista gegndu leiðtogahlutverki fyrir hinn nýja flokk, og þá þrengdist enn um. Niðurstaðan var sem sé sú að Össur var kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar. Það leið ekki á löngu þar til gagnrýnisraddir tóku að heyrast og svo kom að því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók af skarið og sagðist ætla að bjóða sig fram til formennsku á landsfundinum haustið 2005. Hún hafði þá tekið þá ákvörðun að bjóða sig fram í alþingiskosningunum vorið 2003 og var kynnt sem forsætisráðherraefni flokksins. Jafnframt var hún neydd til að segja af sér sem borgarstjóri. Kapallinn gekk ekki upp. Ingibjörgu tókst ekki ætlunarhlutverk sitt, og síðan hefur hún verið svolítið utanveltu í Samfylkingunni þrátt fyrir að vera þar varaformaður. Það er útilokað fyrir formann eða varaformann flokks að vera ekki í föstu þingliði flokks. Dæmi undanfarinna ára sýna það og sanna. Ingibjörg Sólrún hefur að vísu átt góða spretti á Alþingi en það er ekki nóg. Um helgina má segja að lokið hafi verið tekið af kraumandi potti Samfylkingarinnar. Yfirlýsing Gylfa Arnbjörnssonar um að verkalýðshreyfingin muni fylkja sér að baki Ingibjargar Sólrúnar, kom eins og köld vatnsgusa framan í Össur. Auðvitað hefur hann vitað hvað var að gerst undir niðri, en hann hefur kannski ekki átt von á þessu á þessum tímapunkti. Framundir þetta hefur ekki verið áberandi málefnaágreiningur hjá þeim Össuri og Ingibjörgu Sólrúnu, en nú má búast við að þau fari að skerpa á þeim málum sem þau vilja leggja áherslu á. Þau eiga bæði sterka stuðningsmenn innan þingflokksins, en síðan eru líka aðrir sem ekki hafa gefið sig upp. Kjör formanns Samfylkingarinnar fer fram skriflega meðal almennra flokksmanna, en þingmenn í hverju kjördæmi hafa mikil áhrif á úrslitin. Á þeim fjórum mánuðum sem eru fram að landsfundi á margt eftir að gerast og fylkingar þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Össurar munu hart berjast.