Er hægt að útrýma fátækt? 15. desember 2005 00:01 Fátækt heimsins er að sönnu þyngri en tárum taki. Nú þarf 1,1 milljarður manna að gera sér að góðu innan við einn Bandaríkjadollara á dag. Fyrir aldarfjórðungi þurfti einn og hálfur milljarður manna að búa við svo kröpp kjör. Það hefur m.ö.o. tekizt að lyfta 400 milljónum manna upp úr örbirgð síðan 1980, en það er ekki nóg. Nú hafa 2,8 milljarðar manna innan við tvo dollara á dag að bíta og brenna: þetta er næstum helmingur alls mannkyns. Þar af eru tveir milljarðar manna í Asíu og hálfur milljarður í Afríku. Þrír af hverjum fjórum íbúum Afríku þurfa að gera sér að góðu innan við tvo dollara á dag. Tæpur helmingur allra Afríkubúa lifir á minna en dollara á dag, ef líf skyldi kalla. Þjóðartekjur Bandaríkjamanna nema hundrað dollurum á dag til samanburðar. Er hægt að útrýma fátækt? Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, sem er Sameinuðu þjóðunum innan handar um ráðgjöf um þróunarmál, stillir dæminu upp á einfaldan hátt. Hann spyr: hvað skyldi það kosta að lyfta allri heimsbyggðinni upp fyrir dollara á dag? Það er einfalt reikningsdæmi. Meðaltekjur þeirra, sem búa undir þessum tilteknu fátæktarmörkum, eru 77 sent á dag. Þeir þyrftu einn dollara og átta sent á dag (átta senta viðbótin stafar af gengisfalli dollarans undangengin ár), svo að þá vantar 31 sent á mann á dag til að brúa bilið, og það gerir 113 dollara á mann á ári. Við erum að tala um 1.100 milljónir manna, svo að heildarkostnaðurinn er þá 124 milljarðar dollara á ári. Hversu mikið fé er það? Fjárhæðin nemur 0,6 prósenti af samanlagðri landsframleiðslu iðnríkjanna, og það er lægra hlutfall en þau lofuðu hvort eð er fyrir löngu að leggja fram til þróunarhjálpar. Þess vegna segir Sachs: þetta er hægt, ef menn vilja. Málið er samt ekki alveg svona einfalt. Það kostar sitt að koma öllu þessu fé í réttar hendur. Reynslan sýnir, að ílátin leka: féð, sem gefendur láta af hendi rakna, kemst ekki allt á leiðarenda. Til þess liggja ýmsar ástæður. Gefendur eru gjarnir á að binda ráðstöfun hjálparfjárins við eigin framleiðslu, svo að féð leysir þá aldrei landfestar. Ekki vilja Íslendingar, að fólkið í Mósambík noti íslenzkt fé til að kaupa pólsk skip eða hvað? Við þetta bætist það, að viðtakendur þróunarhjálpar freistast stundum til að nota hjálparféð til annarra þarfa en til var stofnað, að ekki sé meira sagt, og nauðsynlegt aðhald og eftirlit kostar sitt. Skilvirk þróunarhjálp útheimtir skipulag, sem erfitt og dýrt getur reynzt að koma á og halda við. Almenna reglan er þessi: ef við reiðum fram 100 milljónir króna handa fátækum þjóðum, þá aukast tekjur þeirra um miklu minni fjárhæð en svo. Hversu miklu minni? Það veit enginn með vissu: þar er efinn. Þróunaraðstoð í fríðu getur gert mikið gagn, þótt hún verði ekki með auðveldu móti metin til fjár. Hjálp í fríðu kristniboð, læknishjálp, lánveitingar hefur m.a. þann kost, að henni er ekki auðstolið. Tökum dæmi. Sumir halda, að bókstaflega allt hljóti að hafa gengið á afturfótunum í Kína undir stjórn Maós formanns, af því að hann var bandvitlaus og landið var í hers höndum öll þau ár. Eitt tókst þeim samt: þeir sendu lækna um landið til að hjálpa fólki. Berfættu læknarnir voru þeir kallaðir og fóru þorp úr þorpi og veittu fæðingarhjálp og gerðu einfaldar aðgerðir og björguðu með því móti miklum fjölda mannslífa. Þannig stendur á síminnkandi barnadauða í Kína allar götur síðan um 1960 og auknum ævilíkum. Árið 1960 gat nýfæddur Kínverji vænzt þess að verða tæplega fertugur. Nú getur hann vænzt þess að komast yfir sjötugt. Það er bylting. Fátækustu löndin í heiminum standa við stiga, sem hangir yfir höfðum þeirra, og þau ná ekki upp í neðsta þrepið og sökkva því smám saman dýpra og dýpra í gljúpa jörð. Þau síga vegna þess, að fólkið þarna lifir bókstaflega frá hendinni til munnsins og getur ekkert lagt til hliðar af sínu nauma aflafé, svo sem nauðsynlegt væri til viðhalds og viðgerða á framleiðslutækjum, þótt ekki væri annað. Fjármagnið grotnar því niður smám saman og framleiðslan minnkar, og þess vegna sökkva fátækustu löndin dýpra og dýpra. Vöxtur framleiðslunnar er m.ö.o. neikvæður, og fólkið fær ekki rönd við reist af eigin rammleik. Þetta fólk þarf hjálp til þess að ná upp í neðsta þrep stigans, og þá getur það klifrað upp stigann af sjálfsdáðum. Það þarf hjálp til sjálfshjálpar. Þetta er áskorun til okkar allra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Fátækt heimsins er að sönnu þyngri en tárum taki. Nú þarf 1,1 milljarður manna að gera sér að góðu innan við einn Bandaríkjadollara á dag. Fyrir aldarfjórðungi þurfti einn og hálfur milljarður manna að búa við svo kröpp kjör. Það hefur m.ö.o. tekizt að lyfta 400 milljónum manna upp úr örbirgð síðan 1980, en það er ekki nóg. Nú hafa 2,8 milljarðar manna innan við tvo dollara á dag að bíta og brenna: þetta er næstum helmingur alls mannkyns. Þar af eru tveir milljarðar manna í Asíu og hálfur milljarður í Afríku. Þrír af hverjum fjórum íbúum Afríku þurfa að gera sér að góðu innan við tvo dollara á dag. Tæpur helmingur allra Afríkubúa lifir á minna en dollara á dag, ef líf skyldi kalla. Þjóðartekjur Bandaríkjamanna nema hundrað dollurum á dag til samanburðar. Er hægt að útrýma fátækt? Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, sem er Sameinuðu þjóðunum innan handar um ráðgjöf um þróunarmál, stillir dæminu upp á einfaldan hátt. Hann spyr: hvað skyldi það kosta að lyfta allri heimsbyggðinni upp fyrir dollara á dag? Það er einfalt reikningsdæmi. Meðaltekjur þeirra, sem búa undir þessum tilteknu fátæktarmörkum, eru 77 sent á dag. Þeir þyrftu einn dollara og átta sent á dag (átta senta viðbótin stafar af gengisfalli dollarans undangengin ár), svo að þá vantar 31 sent á mann á dag til að brúa bilið, og það gerir 113 dollara á mann á ári. Við erum að tala um 1.100 milljónir manna, svo að heildarkostnaðurinn er þá 124 milljarðar dollara á ári. Hversu mikið fé er það? Fjárhæðin nemur 0,6 prósenti af samanlagðri landsframleiðslu iðnríkjanna, og það er lægra hlutfall en þau lofuðu hvort eð er fyrir löngu að leggja fram til þróunarhjálpar. Þess vegna segir Sachs: þetta er hægt, ef menn vilja. Málið er samt ekki alveg svona einfalt. Það kostar sitt að koma öllu þessu fé í réttar hendur. Reynslan sýnir, að ílátin leka: féð, sem gefendur láta af hendi rakna, kemst ekki allt á leiðarenda. Til þess liggja ýmsar ástæður. Gefendur eru gjarnir á að binda ráðstöfun hjálparfjárins við eigin framleiðslu, svo að féð leysir þá aldrei landfestar. Ekki vilja Íslendingar, að fólkið í Mósambík noti íslenzkt fé til að kaupa pólsk skip eða hvað? Við þetta bætist það, að viðtakendur þróunarhjálpar freistast stundum til að nota hjálparféð til annarra þarfa en til var stofnað, að ekki sé meira sagt, og nauðsynlegt aðhald og eftirlit kostar sitt. Skilvirk þróunarhjálp útheimtir skipulag, sem erfitt og dýrt getur reynzt að koma á og halda við. Almenna reglan er þessi: ef við reiðum fram 100 milljónir króna handa fátækum þjóðum, þá aukast tekjur þeirra um miklu minni fjárhæð en svo. Hversu miklu minni? Það veit enginn með vissu: þar er efinn. Þróunaraðstoð í fríðu getur gert mikið gagn, þótt hún verði ekki með auðveldu móti metin til fjár. Hjálp í fríðu kristniboð, læknishjálp, lánveitingar hefur m.a. þann kost, að henni er ekki auðstolið. Tökum dæmi. Sumir halda, að bókstaflega allt hljóti að hafa gengið á afturfótunum í Kína undir stjórn Maós formanns, af því að hann var bandvitlaus og landið var í hers höndum öll þau ár. Eitt tókst þeim samt: þeir sendu lækna um landið til að hjálpa fólki. Berfættu læknarnir voru þeir kallaðir og fóru þorp úr þorpi og veittu fæðingarhjálp og gerðu einfaldar aðgerðir og björguðu með því móti miklum fjölda mannslífa. Þannig stendur á síminnkandi barnadauða í Kína allar götur síðan um 1960 og auknum ævilíkum. Árið 1960 gat nýfæddur Kínverji vænzt þess að verða tæplega fertugur. Nú getur hann vænzt þess að komast yfir sjötugt. Það er bylting. Fátækustu löndin í heiminum standa við stiga, sem hangir yfir höfðum þeirra, og þau ná ekki upp í neðsta þrepið og sökkva því smám saman dýpra og dýpra í gljúpa jörð. Þau síga vegna þess, að fólkið þarna lifir bókstaflega frá hendinni til munnsins og getur ekkert lagt til hliðar af sínu nauma aflafé, svo sem nauðsynlegt væri til viðhalds og viðgerða á framleiðslutækjum, þótt ekki væri annað. Fjármagnið grotnar því niður smám saman og framleiðslan minnkar, og þess vegna sökkva fátækustu löndin dýpra og dýpra. Vöxtur framleiðslunnar er m.ö.o. neikvæður, og fólkið fær ekki rönd við reist af eigin rammleik. Þetta fólk þarf hjálp til þess að ná upp í neðsta þrep stigans, og þá getur það klifrað upp stigann af sjálfsdáðum. Það þarf hjálp til sjálfshjálpar. Þetta er áskorun til okkar allra.