Að virða valdmörk 27. október 2005 06:00 Bandaríkjaforsetar þurfa jafnan að sæta gagnrýni fyrir gerðir sínar. Það liggur í hlutarins eðli. Stjórnmál snúast um skiptar skoðanir. Bush forseti hefur kallað yfir sig beittari gagnrýni en margir fyrirrennarar hans. Hann hefur sætt harðri gagnrýni m.a. fyrir frænddrægni, því að hann hefur í áður óþekktum mæli troðið einkavinum sínum í störf, sem aðrir væru hæfari til að gegna. Almannavarnir Bandaríkjanna eru til marks. Þær lutu kunnáttusamlegri stjórn hæfra manna, unz Bush tróð þangað inn ófærum flokksmönnum, svo að reyndir kunnáttumenn drógu sig í hlé í mótmælaskyni. Fjöldi fólks galt með lífi sínu fyrir frænddrægnina í flóðunum á Flóaströnd Bandaríkjanna í kjölfar fellibylsins Katrínar fyrir nokkru. Hitt gagnrýnisefnið er það, að forsetinn hefur mannað ýmsar aðrar stofnanir að því er virðist gagngert til að grafa undan þeim. Þannig hefur hann farið með umhverfisráðuneytið til að greiða götu olíufélaganna, fæðu- og lyfjamálaráðuneytið til að þóknast lyfjafyrirtækjunum og almenningsútvarpið (Public Broadcasting Corporation, PBC) til að skrúfa niður í meintum andstæðingum. Jafnvel Bush þarf þó að virða ákveðin mörk: það myndi aldrei hvarfla að honum að skipa sjálfan sig seðlabankastjóra. Á Íslandi virða menn ekki slík valdmörk. Þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins kunngerði það á blaðamannafundi um daginn, að hann hefði ákveðið að draga sig út úr stjórnmálum og taka við starfi seðlabankastjóra. Hann tilkynnti jafnframt, að þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hefði sagt af sér nokkrum dögum fyrr, en það hafði ekki komið fram áður. Lög kveða á um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart öðrum stjórnvöldum, og bankastjóri Sjálfstæðisflokksins stendur samt fyrirvaralaust upp úr starfi sínu fyrir formanni sínum, án þess að frá því sé sagt fyrr en eftir dúk og disk - og það fáeinum dögum áður en uppvíst varð um makalausa aðkomu ritstjóra Morgunblaðsins og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins að lögsókninni gegn Baugi. Seðlabankinn er enn sem fyrr eins og herfang í höndum stjórnmálastéttarinnar líkt og viðskiptabankarnir voru um langt árabil og eru sumpart enn, jafnvel eftir einkavæðingu þeirra. Seðlabankastjórarnir eru þrír, þótt einn hæfur bankastjóri myndi duga, og tveir þeirra eru fulltrúar núverandi stjórnarflokka og hafa verið það um langt skeið (nema þegar fulltrúi Framsóknarflokksins í bankastjórninni þurfti um nokkurra ára skeið að víkja fyrir fulltrúa Alþýðubandalagsins sáluga). Það er alkunna, að flokksbankastjórarnir unnu bankanum lítið gagn. Einn þeirra hafði golfhermi inni á skrifstofu sinni í bankanum. Annar lýsti því í endurminningum sínum, að hann hefði aldrei átt eins náðuga daga og í bankanum. Og þessir tveir voru ekki verstir. Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf reyndar þá skýringu á sjálfsráðningu sinni á blaðamannafundinum, að sér fyndist of snemmt að hætta alveg að vinna þrátt fyrir ,"meðfædda leti" (hans eigin orð). Stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna seðlabönkum og gera það yfirleitt ekki í öðrum löndum vegna þess, að seðlabönkum er skv. lögum ætlað að veita stjórnmálamönnum aðhald. Hér er ekki um að tefla pólitískt aðhald af því tagi, sem stjórnarandstöðu er ætlað að veita, heldur efnahagsaðhald, m.a. með aðvörunum gegn ofþenslu í efnahagslífinu, einmitt þess konar aðhald, sem stjórnarandstöðu er ósýnt um að veita. Þess vegna m.a. henta stjórnmálamenn illa til seðlabankastjórnar, einkum ábyrgðarlausir stjórnmálamenn. Ábyrgðarleysi fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins er hægt að lýsa með nokkrum dæmum. Hann hældist um af því í bókinni Í hlutverki leiðtogans (2000) að snúast gegn öllum málum andstæðinga sinna og reyna að gera þau tortryggileg. Sem borgarstjóri varði hann fjármunum borgarbúa til að reisa Ráðhúsið og Perluna, svo að það kom í hlut eftirmanns hans að ráðast í löngu tímabærar viðgerðir á holræsunum undir borginni. Sem forsætisráðherra varaði hann aldrei við hættunni, sem fylgir skefjalausri skuldasöfnun Íslendinga í útlöndum, en Ísland er nú skuldugra en nokkurt iðnríki hefur nokkurn tímann verið. Og nú býst hann af öllum mönnum til að taka það að sér að brýna ráðdeild fyrir ríkisstjórninni og þjóðinni! Hitt virðist einhvern veginn líklegra, að hann ætli sér að nota Seðlabankann til að velgja eftirmönnum sínum undir uggum. Það væri eftir öðru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Bandaríkjaforsetar þurfa jafnan að sæta gagnrýni fyrir gerðir sínar. Það liggur í hlutarins eðli. Stjórnmál snúast um skiptar skoðanir. Bush forseti hefur kallað yfir sig beittari gagnrýni en margir fyrirrennarar hans. Hann hefur sætt harðri gagnrýni m.a. fyrir frænddrægni, því að hann hefur í áður óþekktum mæli troðið einkavinum sínum í störf, sem aðrir væru hæfari til að gegna. Almannavarnir Bandaríkjanna eru til marks. Þær lutu kunnáttusamlegri stjórn hæfra manna, unz Bush tróð þangað inn ófærum flokksmönnum, svo að reyndir kunnáttumenn drógu sig í hlé í mótmælaskyni. Fjöldi fólks galt með lífi sínu fyrir frænddrægnina í flóðunum á Flóaströnd Bandaríkjanna í kjölfar fellibylsins Katrínar fyrir nokkru. Hitt gagnrýnisefnið er það, að forsetinn hefur mannað ýmsar aðrar stofnanir að því er virðist gagngert til að grafa undan þeim. Þannig hefur hann farið með umhverfisráðuneytið til að greiða götu olíufélaganna, fæðu- og lyfjamálaráðuneytið til að þóknast lyfjafyrirtækjunum og almenningsútvarpið (Public Broadcasting Corporation, PBC) til að skrúfa niður í meintum andstæðingum. Jafnvel Bush þarf þó að virða ákveðin mörk: það myndi aldrei hvarfla að honum að skipa sjálfan sig seðlabankastjóra. Á Íslandi virða menn ekki slík valdmörk. Þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins kunngerði það á blaðamannafundi um daginn, að hann hefði ákveðið að draga sig út úr stjórnmálum og taka við starfi seðlabankastjóra. Hann tilkynnti jafnframt, að þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hefði sagt af sér nokkrum dögum fyrr, en það hafði ekki komið fram áður. Lög kveða á um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart öðrum stjórnvöldum, og bankastjóri Sjálfstæðisflokksins stendur samt fyrirvaralaust upp úr starfi sínu fyrir formanni sínum, án þess að frá því sé sagt fyrr en eftir dúk og disk - og það fáeinum dögum áður en uppvíst varð um makalausa aðkomu ritstjóra Morgunblaðsins og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins að lögsókninni gegn Baugi. Seðlabankinn er enn sem fyrr eins og herfang í höndum stjórnmálastéttarinnar líkt og viðskiptabankarnir voru um langt árabil og eru sumpart enn, jafnvel eftir einkavæðingu þeirra. Seðlabankastjórarnir eru þrír, þótt einn hæfur bankastjóri myndi duga, og tveir þeirra eru fulltrúar núverandi stjórnarflokka og hafa verið það um langt skeið (nema þegar fulltrúi Framsóknarflokksins í bankastjórninni þurfti um nokkurra ára skeið að víkja fyrir fulltrúa Alþýðubandalagsins sáluga). Það er alkunna, að flokksbankastjórarnir unnu bankanum lítið gagn. Einn þeirra hafði golfhermi inni á skrifstofu sinni í bankanum. Annar lýsti því í endurminningum sínum, að hann hefði aldrei átt eins náðuga daga og í bankanum. Og þessir tveir voru ekki verstir. Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf reyndar þá skýringu á sjálfsráðningu sinni á blaðamannafundinum, að sér fyndist of snemmt að hætta alveg að vinna þrátt fyrir ,"meðfædda leti" (hans eigin orð). Stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna seðlabönkum og gera það yfirleitt ekki í öðrum löndum vegna þess, að seðlabönkum er skv. lögum ætlað að veita stjórnmálamönnum aðhald. Hér er ekki um að tefla pólitískt aðhald af því tagi, sem stjórnarandstöðu er ætlað að veita, heldur efnahagsaðhald, m.a. með aðvörunum gegn ofþenslu í efnahagslífinu, einmitt þess konar aðhald, sem stjórnarandstöðu er ósýnt um að veita. Þess vegna m.a. henta stjórnmálamenn illa til seðlabankastjórnar, einkum ábyrgðarlausir stjórnmálamenn. Ábyrgðarleysi fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins er hægt að lýsa með nokkrum dæmum. Hann hældist um af því í bókinni Í hlutverki leiðtogans (2000) að snúast gegn öllum málum andstæðinga sinna og reyna að gera þau tortryggileg. Sem borgarstjóri varði hann fjármunum borgarbúa til að reisa Ráðhúsið og Perluna, svo að það kom í hlut eftirmanns hans að ráðast í löngu tímabærar viðgerðir á holræsunum undir borginni. Sem forsætisráðherra varaði hann aldrei við hættunni, sem fylgir skefjalausri skuldasöfnun Íslendinga í útlöndum, en Ísland er nú skuldugra en nokkurt iðnríki hefur nokkurn tímann verið. Og nú býst hann af öllum mönnum til að taka það að sér að brýna ráðdeild fyrir ríkisstjórninni og þjóðinni! Hitt virðist einhvern veginn líklegra, að hann ætli sér að nota Seðlabankann til að velgja eftirmönnum sínum undir uggum. Það væri eftir öðru.