Dýrt bensín er blessun 18. nóvember 2004 00:01 Það er freistandi fyrir þjóðir, sem búa að gjöfulum olíulindum, að útvega sjálfum sér aðgang að ódýru eldsneyti. Og það gera þær flestar. En þetta er samt ósiður, því að olíu, sem seld er á kostnaðarverði heima fyrir, væri að öðrum kosti hægt að selja erlendis við hærra verði, þ.e. heimsmarkaðsverði. Orkusala við kostnaðarverði heima fyrir frekar en við heimsmarkaðsverði jafngildir því niðurgreiðslu eldsneytis. Ef karlarnir, sem róa til fiskjar snemma á morgnana frá Ægisíðunni í Reykjavík, seldu fiskinn á kostnaðarverði, væru þeir að fleygja verðmætum. Þeir taka heldur heimsmarkaðsverð fyrir fiskinn. Niðurgreiðsla eldsneytis í olíulöndum er hvorki réttlát né hagkvæm. Hún mismunar mönnum af handahófi og sólundar verðmætum. Mismununin felst í því, að niðurgreiðsla eldsneytis bitnar á þeim, sem hefðu kosið að verja aðstoðinni öðruvísi, hefði hún t.d. verið reidd fram í reiðufé frekar en í fríðu. Sóunin felst í því, að niðurgreiðslan freistar manna til að brenna of miklu eldsneyti, þyngir umferð og mengar andrúmsloftið. Í Moskvu aka menn langar leiðir til þess eins að kaupa sér eldspýtur, svo að andrúmsloftið angar af ódýru bensíni: þeir láta eldavélarnar ganga á nóttunni, það tekur því ekki að slökkva, og annað er eftir því. Rússar eru samt að reyna að taka sig á: þeir eru að reyna að þoka innanlandsverði á olíu og bensíni upp á við til móts við heimsmarkaðsverð. Sádi-Arabar standa í svipuðum sporum og einnig Nígeríumenn. En bensín er eldfimt: lítils háttar hækkun bensínverðs í Nígeríu olli allsherjarverkfalli og uppþotum fyrir fáeinum árum, svo að ríkisstjórnin dró hækkunina til baka. Umferðin í Lagos, höfuðborg Nígeríu, er gríðarlega þung. Bílalestir á breiðum brautum haggast varla um háannatímann, enda þótt akreinarnar séu þrjár til hvorrar áttar (eða fjórar, þeir aka einnig á gangstéttunum). Aðlögun bensínverðs heima fyrir að heimsmarkaðsverði felur í sér afnám óbeinnar niðurgreiðslu á eldsneyti. Afnám niðurgreiðslunnar kallar í reynd á bensíngjald til að færa verðið við dæluna nær heimsmarkaðsverði. Ef tekjunum af bensíngjaldinu er skilað til almennings, t.d. með lækkun virðisaukaskatts, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir almennri niðurgreiðslu á neyzluvörum. Þessi lausn hefur þann kost, að hún mismunar mönnum ekki eftir því, hvort þeir brenna miklu bensíni eða ekki. Sé tekjunum af gjaldinu heldur varið til að efla menntakerfið, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir auknum framlögum til menntamála. Sé tekjunum varið til heilbrigðismála, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir meiri og betri heilbrigðisþjónustu og þannig áfram. Hyggileg málamiðlun myndi blanda saman ólíkum leiðum til að sætta ólík sjónarmið. Flestir kysu helzt, að bensín kostaði lítið, en menn vilja einnig meiri og betri almannaþjónustu, hreint loft og greiðar ökuleiðir. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti dugir þó ekki til að eyða öllu kraðaki í umferðinni, enda er umferð stjórnað með gjaldheimtu t.d. í London og Singapúr. Niðurgreiðsla einstakra vörutegunda er ekki hagfelld aðferð til að hjálpa fátæku fólki. Það er alltaf hægt að finna greiðari – ódýrari! – leið að settu marki, einkum í gegnum almannatryggingar og skattkerfið. Dulbúnar niðurgreiðslur eru jafnan dýru verði keyptar vegna þess, að þær koma hvergi fram í reikningum ríkisins. Skortur á gagnsæi elur á óhagkvæmni. Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af verðlagningu einstakra vörutegunda, því að þar er frjáls markaður á heimavelli. Þarna liggja yfirburðir markaðsbúskapar umfram aðra búskaparhætti. Bensínmarkaður í olíulöndum er ekki undanþeginn þessari reglu. Kostnaðurinn, sem lágt bensínverð í Lagos leggur á fólkið í borginni, er firnamikill, þegar umferðartafir og tíminn, sem þær taka frá öðru gagnlegra athæfi, eru teknar með í reikninginn. Þessu er hægt að breyta. Í Accra, höfuðborg Gönu, er bensín dýrara en í Lagos og umferðin mun greiðari. Auðvitað myndi hækkun bensínverðs í Lagos leggja auknar byrðar á suma. En þegar til lengdar lætur, myndi hærra bensínverð laða fólk til þess að vinna nær heimilum sínum eða búa nær vinnustöðunum. Minna öngþveiti í umferðinni þýðir minni sóun, meiri hagkvæmni, meiri viðskipti og meiri grósku í efnahagslífinu til langs tíma litið. Dýrt bensín er blessun, en þá þarf afraksturinn helzt að lenda hjá fólkinu sjálfu og ekki t.d. hjá óprúttnum olíufélögum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Það er freistandi fyrir þjóðir, sem búa að gjöfulum olíulindum, að útvega sjálfum sér aðgang að ódýru eldsneyti. Og það gera þær flestar. En þetta er samt ósiður, því að olíu, sem seld er á kostnaðarverði heima fyrir, væri að öðrum kosti hægt að selja erlendis við hærra verði, þ.e. heimsmarkaðsverði. Orkusala við kostnaðarverði heima fyrir frekar en við heimsmarkaðsverði jafngildir því niðurgreiðslu eldsneytis. Ef karlarnir, sem róa til fiskjar snemma á morgnana frá Ægisíðunni í Reykjavík, seldu fiskinn á kostnaðarverði, væru þeir að fleygja verðmætum. Þeir taka heldur heimsmarkaðsverð fyrir fiskinn. Niðurgreiðsla eldsneytis í olíulöndum er hvorki réttlát né hagkvæm. Hún mismunar mönnum af handahófi og sólundar verðmætum. Mismununin felst í því, að niðurgreiðsla eldsneytis bitnar á þeim, sem hefðu kosið að verja aðstoðinni öðruvísi, hefði hún t.d. verið reidd fram í reiðufé frekar en í fríðu. Sóunin felst í því, að niðurgreiðslan freistar manna til að brenna of miklu eldsneyti, þyngir umferð og mengar andrúmsloftið. Í Moskvu aka menn langar leiðir til þess eins að kaupa sér eldspýtur, svo að andrúmsloftið angar af ódýru bensíni: þeir láta eldavélarnar ganga á nóttunni, það tekur því ekki að slökkva, og annað er eftir því. Rússar eru samt að reyna að taka sig á: þeir eru að reyna að þoka innanlandsverði á olíu og bensíni upp á við til móts við heimsmarkaðsverð. Sádi-Arabar standa í svipuðum sporum og einnig Nígeríumenn. En bensín er eldfimt: lítils háttar hækkun bensínverðs í Nígeríu olli allsherjarverkfalli og uppþotum fyrir fáeinum árum, svo að ríkisstjórnin dró hækkunina til baka. Umferðin í Lagos, höfuðborg Nígeríu, er gríðarlega þung. Bílalestir á breiðum brautum haggast varla um háannatímann, enda þótt akreinarnar séu þrjár til hvorrar áttar (eða fjórar, þeir aka einnig á gangstéttunum). Aðlögun bensínverðs heima fyrir að heimsmarkaðsverði felur í sér afnám óbeinnar niðurgreiðslu á eldsneyti. Afnám niðurgreiðslunnar kallar í reynd á bensíngjald til að færa verðið við dæluna nær heimsmarkaðsverði. Ef tekjunum af bensíngjaldinu er skilað til almennings, t.d. með lækkun virðisaukaskatts, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir almennri niðurgreiðslu á neyzluvörum. Þessi lausn hefur þann kost, að hún mismunar mönnum ekki eftir því, hvort þeir brenna miklu bensíni eða ekki. Sé tekjunum af gjaldinu heldur varið til að efla menntakerfið, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir auknum framlögum til menntamála. Sé tekjunum varið til heilbrigðismála, þá víkur niðurgreiðsla eldsneytis fyrir meiri og betri heilbrigðisþjónustu og þannig áfram. Hyggileg málamiðlun myndi blanda saman ólíkum leiðum til að sætta ólík sjónarmið. Flestir kysu helzt, að bensín kostaði lítið, en menn vilja einnig meiri og betri almannaþjónustu, hreint loft og greiðar ökuleiðir. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti dugir þó ekki til að eyða öllu kraðaki í umferðinni, enda er umferð stjórnað með gjaldheimtu t.d. í London og Singapúr. Niðurgreiðsla einstakra vörutegunda er ekki hagfelld aðferð til að hjálpa fátæku fólki. Það er alltaf hægt að finna greiðari – ódýrari! – leið að settu marki, einkum í gegnum almannatryggingar og skattkerfið. Dulbúnar niðurgreiðslur eru jafnan dýru verði keyptar vegna þess, að þær koma hvergi fram í reikningum ríkisins. Skortur á gagnsæi elur á óhagkvæmni. Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af verðlagningu einstakra vörutegunda, því að þar er frjáls markaður á heimavelli. Þarna liggja yfirburðir markaðsbúskapar umfram aðra búskaparhætti. Bensínmarkaður í olíulöndum er ekki undanþeginn þessari reglu. Kostnaðurinn, sem lágt bensínverð í Lagos leggur á fólkið í borginni, er firnamikill, þegar umferðartafir og tíminn, sem þær taka frá öðru gagnlegra athæfi, eru teknar með í reikninginn. Þessu er hægt að breyta. Í Accra, höfuðborg Gönu, er bensín dýrara en í Lagos og umferðin mun greiðari. Auðvitað myndi hækkun bensínverðs í Lagos leggja auknar byrðar á suma. En þegar til lengdar lætur, myndi hærra bensínverð laða fólk til þess að vinna nær heimilum sínum eða búa nær vinnustöðunum. Minna öngþveiti í umferðinni þýðir minni sóun, meiri hagkvæmni, meiri viðskipti og meiri grósku í efnahagslífinu til langs tíma litið. Dýrt bensín er blessun, en þá þarf afraksturinn helzt að lenda hjá fólkinu sjálfu og ekki t.d. hjá óprúttnum olíufélögum.