Menning

Að vera bara einnar þjóðar

Að vera bara einnar þjóðar er úrelt fyrirbrigði að mati Ólafs Elíassonar listamanns en fyrsta yfirlitssýning hans í fæðingarlandinu, Danmörku, var opnuð í Aros, nýju samtímalistasafni í Árósum þann áttunda október.

Nýja safnið var opnað í apríl og telur rúmlega 17 þúsund fermetra. Sýning Ólafs Elíssonar heitir Minding the World og fjallar um hvernig maðurinn upplifir og skynjar umhverfi sitt. Á meðal verkanna þrettán á sýningunni er speglasalur með steingólfi - verk sem var á sýningu Ólafs í Hafnarhúsinu í Reykjavík síðasta vetur.

Á síðasta ári sýndi Ólafur í Feneyjum og London. Þetta ár hóf hann á Íslandi og hefur síðustu þrjá mánuði einnig sýnt í Noregi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Hann segir það eignlega hafa verið of mikið. Sumarið hafi síðan verið kærkomið til að undirbúa sýninguna í Danmörku. Langþráð rólegheit eru nú fram undan og segir Ólafur það „lúxus“ að hafa tíu mánuði til að undirbúa næstu sýningu sem fram fer í Rotterdam í Hollandi í september á næsta ári.

Margrét Þórhildur Danadrottning, verndari Aros-listasafnsins, var meðal gesta skömmu eftir opnun sýningar Ólafs. Í Danmörku er hann sagður dansk-íslenskur; hann á íslenska foreldra og ólst upp í Danmörku. Sjálfur segir hann skrítið að fólk vilji vera út um allan heim, en vilji samt vera eins og víkingar eldgamallar þjóðar.

Sýning Ólafs í Árósum stendur til 16. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.