Tíska og hönnun

Von Furstenberg-vafningskjóllinn

Prinsessan Diane von Furstenberg kom fram í tískuheiminum upp úr 1970 og tveimur árum seinna kynnti hún hinn heimsfræga "Wrap dress" eða "vafningskjólinn" fyrir heimsbyggðinni. Kjóllinn seldist gríðarlega á næstu árum og kom prinsessunni á forsíðu Newsweek árið 1976, þar sem hún er sögð mesta markaðsmanneskjan í tískubransanum síðan Coco Chanel var og hét.

Þá var búið að selja meira en fimm milljónir kjóla og það var engin kona með konum nema að eiga minnst einn vafningskjól frá von Furstenberg.

Grunnsnið kjólsins er mjög einfalt, hann er hnésíður, bundinn um mittið og ermarnar eru ýmist stuttar, síðar eða hlíra. Kjóllinn er afar klæðilegur og hentar öllum líkamsgerðum, hann er hversdagslegur og glæsilegur í senn og mjög kvenlegur. Eins og verður um allar tískubólur þurfa þær að víkja fyrir nýjum bólum og "vafningskjóllinn" fór í dvala í nokkur ár. Það var svo rétt fyrir síðustu aldamót að kjóllinn var vakinn upp að nýju og aftur náði hann stórkostlegum vinsældum sem ekkert lát er á.

Von Furstenberg-vafningskjóllinn er orðinn klassík í tískuheiminum og margar eftirlíkingar hafa verið gerðar af honum í gegnum árin.

Það ætti því ekki að vera erfitt að finna sér eftirlíkingu af vafningskjólnum í hinum ýmsu búðum bæjarins eða vafra um á netinu og finna sér einn upprunalegan.

Upprunalegur vafningskjóll, von Furstenberg (sebra). Til sölu á www.vintagepimp.com $175. Nýjasta útfærsta vafningskjólsins, Diane von Furstenberg, vor 2005 (gulur)





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.