Af mannviti og múgviti 12. september 2004 00:01 Gríski heimspekingurinn Platón lagði Sókratesi í munn orðin: "Það hef ég oft undrast, Aþenumenn, að þér eruð skynsömustu menn, þegar ég tala við yður hvern um sig, en þegar þér komið allir saman, hagið þér yður eins og fáráðlingar". Vel má vera að höfundur Laxdælu hafi lesið Platón og hagnýtt sér hugsunina - með öfugum formerkjum. Hann lætur Ólaf pá segja: "Því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman". Upp úr þessum orðum og öðru efni spann Sigurður Nordal hina frægu og listilega sömdu ritgerð sína "Samlagningu" sem birtist í tímaritinu Vöku 1927 og var í eina tíð skyldulesefni í skólum landsins. Sigurður setti fram þá kenningu að lögmál samlagningarinnar, svo mikilvægt sem það væri í reikningi og raunvísindum, gilti ekki á sviði mannlegra vitsmuna. "Þar eru 2 og 2 oft jafnvel ekki = 1," skrifaði hann. Af þessu dró hann víðtækar ályktanir um verkefni íslenskrar þjóðar. "Ekkert getur gefið oss gildi nema rækt við einstaklingana. En ef veldi vitsins fer sívaxandi í hlutfalli við veldi líkamskrafta, héðan af eins og hingað til, þá vex að því skapi von smárra menningarþjóða að láta til sín taka. Hún er reist á því einfalda lögmáli, að á sviði vitsmuna eru tveir og tveir ekki fjórir. Þar verða herskarar miðlunganna að lúta í lægra haldi fyrir einum manni fullgildum". Ritgerð Sigurðar kemur upp í hugann í tilefni af útkomu einkar áhugaverðrar bókar eftir Bandaríkjamanninn James Surowiecki, sem þekktur er fyrir regluleg skrif um efnahagsmál í vikuritið New Yorker; heitir hún The Wisdom of Crowds, með undirtitilinn Why the Many Are Smarter Than the Few and How Collective Wisdom Shapes Business, Economies, Societies, and Nations, og virðist í fljótu bragði hafa endaskipti á kenningunni um samlagningu vitsmuna. Leiðir höfundurinn rök að því að oft búi hópur manna, múgur, yfir meiri þekkingu og gáfum en fróðasti og gáfaðasti einstaklingurinn í hópnum. Bók Surowiecki er uppfull af dæmum um múgvit og frásögnum af rannsóknum á því sviði fyrr og síðar, ekki síst í bandarískum háskólum. Er margt af því þess eðlis að ekki verða bornar brigður á niðurstöðurnar. Þegar hópur fólks er til dæmis beðinn að giska á fjölda kúlna í stóru glerhylki verður niðurstaðan af samlagningu svaranna, meðaltalinu, jafnan réttari en tilgátur einstakra manna. Athuganir sem gerðar hafa verið á hinum frægu alþjóðlegu sjónvarpsþáttum Viltu vinna milljón? sýna að salurinn gefur rétt svör í 91% tilvika en hlutfallið er 65% þegar hringt er í fróðan einstakling úti í bæ. Raunar hafa menn fyrir löngu áttað sig á og hagnýtt sér gildi samlagningarinnar þegar vitsmunir og þekking eiga í hlut. Dæmi um það eru spámarkaðir af ýmsu tagi. Háskólinn í Iowa hefur í hálfan annan áratug starfrækt veðmarkað sem gefur þátttakendum kost á að veðja um úrslit forsetakosninga vestanhafs. Í öll skiptin hafa skekkjumörk verið að meðaltali um 1.5% sem er mun betri árangur en í skoðanakönnunum Gallups þar sem skekkjan hefur verið 2,1%. Ekki furða að slíkir markaðir spretti nú upp á netinu eins og gorkúlur á haugi. Má segja að vinsælasta leitarvélin á vefnum, Google, sé byggð á múgviti. Hún finnur efnið sem við erum að leita að með því að leggja saman óskir netverja og raða niðurstöðum upp á þeim grundvelli. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hugðist í fyrrasumar notfæra sér þessi vísindi og búa til spámarkað um hryðjuverk en varð að falla frá þeim fyrirætlunum, ekki vegna þess að hugsunin væri í sjálfu sér dregin í efa heldur vegna almennrar siðferðilegrar hneykslunar á framtakinu. Surowiecki kemst svo að orði í bók sinni: "Við réttar aðstæður er hópur fólks ótrúlega gáfaður, og oft gáfaðri en gáfaðasti einstaklingurinn í hópnum." Hann segir að oft geti verið skynsamlegra að byggja á múgviti en mannviti einstakra persóna. Þetta er svo ögrandi kenning að ekki er nema eðlilegt að ýmsum verði orðfall í fyrstu. Upp í hugann koma ótal dæmi um hið gagnstæða; er ekki veraldarsagan öðrum þræði sagan um þá ógæfu sem ósjálfstæð hugsun einstaklinga, sem birtist í múghyggju og múgæði, hefur valdið? Um miðja nítjándu öld skrifaði Charles MacKay bókina Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds þar sem hann rekur kerfisbundið sögu óra og ímyndana mannkyns. En þegar nánar er aðgætt er ekki ginnungagap á milli MacKay og Surowiecki. Hinn síðarnefndi setur ýmsa fyrirvara á kenningu sína um múgvitið. Það er ekki sama hvernig hópur er samansettur ef hann á að ná meiri árangri en einstakir menn. Hann verður að vera fjölskrúðugur með þeim hætti að þekking og vit komi úr ólíkum áttum og vitneskjan verður að finna sér farveg sem kemur í veg fyrir að einn api eftir öðrum því það er ávísun á ranga útkomu. Takmörk kenningarinnar eru Surowiecki að sjálfsögðu ljós. Þau má sjá af einföldu dæmi sem hagfræðingurinn John Kay nefnir í umfjöllun um þetta efni í Financial Times á dögunum: "Þegar ég flýg í háloftunum treysti ég frekar á þekkingu flugmannanna en samanlagt vit farþeganna". Sama má segja um dóm læknisins á sjúkrahúsinu; við teljum víst öll skynsamlegra að byggja sjúkdómsgreiningu á sérþekkingu hans frekar en samanlögðu viti sjúklinganna í kringum hann. Segja má að múgvit í skilningi Surowiecki (en ekki MacKay) birtist hvergi betur en í frjálsu markaðskerfi og skýri hvernig það starfar og hvers vegna það hefur yfirburði yfir miðstjórnarskipulag eins og reynt hefur verið með raunalegum afleiðingum í sósíalískum ríkjum. Enginn einn maður eða eitt stjórnvald getur búið yfir þeirri þekkingu sem þarf til að uppfylla þarfir manna og óskir. Það gerist aðeins í víxlverkan ólíkrar og dreifðrar þekkingar. Þegar að er gáð er kannski ekki eðlismunur á hugsun Surowieckis og Sigurðar Nordal í "Samlagningu", heldur hafa þeir ólíkar áherslur og taka viðfangsefnið ólíkum tökum. Enda segir Sigurður í ritgerðinni: "Enginn mun geta neitað því, að mikill mannfjöldi hljóti að öllu saman töldu að hafa meira vit, meiri reynslu og þekkingu en hver einstaklingur sem vera skal." Og hann bætti við: "Gallinn er aðeins sá, að vér kunnum engin ráð til þess að leggja þessa hluti saman. Þeir hlíta ekki þeim lögum." Þetta síðarnefnda hefur ekki reynst alveg rétt eins og dæmin frá salviti spurningaþáttanna og árangri markaðanna sanna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Gríski heimspekingurinn Platón lagði Sókratesi í munn orðin: "Það hef ég oft undrast, Aþenumenn, að þér eruð skynsömustu menn, þegar ég tala við yður hvern um sig, en þegar þér komið allir saman, hagið þér yður eins og fáráðlingar". Vel má vera að höfundur Laxdælu hafi lesið Platón og hagnýtt sér hugsunina - með öfugum formerkjum. Hann lætur Ólaf pá segja: "Því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman". Upp úr þessum orðum og öðru efni spann Sigurður Nordal hina frægu og listilega sömdu ritgerð sína "Samlagningu" sem birtist í tímaritinu Vöku 1927 og var í eina tíð skyldulesefni í skólum landsins. Sigurður setti fram þá kenningu að lögmál samlagningarinnar, svo mikilvægt sem það væri í reikningi og raunvísindum, gilti ekki á sviði mannlegra vitsmuna. "Þar eru 2 og 2 oft jafnvel ekki = 1," skrifaði hann. Af þessu dró hann víðtækar ályktanir um verkefni íslenskrar þjóðar. "Ekkert getur gefið oss gildi nema rækt við einstaklingana. En ef veldi vitsins fer sívaxandi í hlutfalli við veldi líkamskrafta, héðan af eins og hingað til, þá vex að því skapi von smárra menningarþjóða að láta til sín taka. Hún er reist á því einfalda lögmáli, að á sviði vitsmuna eru tveir og tveir ekki fjórir. Þar verða herskarar miðlunganna að lúta í lægra haldi fyrir einum manni fullgildum". Ritgerð Sigurðar kemur upp í hugann í tilefni af útkomu einkar áhugaverðrar bókar eftir Bandaríkjamanninn James Surowiecki, sem þekktur er fyrir regluleg skrif um efnahagsmál í vikuritið New Yorker; heitir hún The Wisdom of Crowds, með undirtitilinn Why the Many Are Smarter Than the Few and How Collective Wisdom Shapes Business, Economies, Societies, and Nations, og virðist í fljótu bragði hafa endaskipti á kenningunni um samlagningu vitsmuna. Leiðir höfundurinn rök að því að oft búi hópur manna, múgur, yfir meiri þekkingu og gáfum en fróðasti og gáfaðasti einstaklingurinn í hópnum. Bók Surowiecki er uppfull af dæmum um múgvit og frásögnum af rannsóknum á því sviði fyrr og síðar, ekki síst í bandarískum háskólum. Er margt af því þess eðlis að ekki verða bornar brigður á niðurstöðurnar. Þegar hópur fólks er til dæmis beðinn að giska á fjölda kúlna í stóru glerhylki verður niðurstaðan af samlagningu svaranna, meðaltalinu, jafnan réttari en tilgátur einstakra manna. Athuganir sem gerðar hafa verið á hinum frægu alþjóðlegu sjónvarpsþáttum Viltu vinna milljón? sýna að salurinn gefur rétt svör í 91% tilvika en hlutfallið er 65% þegar hringt er í fróðan einstakling úti í bæ. Raunar hafa menn fyrir löngu áttað sig á og hagnýtt sér gildi samlagningarinnar þegar vitsmunir og þekking eiga í hlut. Dæmi um það eru spámarkaðir af ýmsu tagi. Háskólinn í Iowa hefur í hálfan annan áratug starfrækt veðmarkað sem gefur þátttakendum kost á að veðja um úrslit forsetakosninga vestanhafs. Í öll skiptin hafa skekkjumörk verið að meðaltali um 1.5% sem er mun betri árangur en í skoðanakönnunum Gallups þar sem skekkjan hefur verið 2,1%. Ekki furða að slíkir markaðir spretti nú upp á netinu eins og gorkúlur á haugi. Má segja að vinsælasta leitarvélin á vefnum, Google, sé byggð á múgviti. Hún finnur efnið sem við erum að leita að með því að leggja saman óskir netverja og raða niðurstöðum upp á þeim grundvelli. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hugðist í fyrrasumar notfæra sér þessi vísindi og búa til spámarkað um hryðjuverk en varð að falla frá þeim fyrirætlunum, ekki vegna þess að hugsunin væri í sjálfu sér dregin í efa heldur vegna almennrar siðferðilegrar hneykslunar á framtakinu. Surowiecki kemst svo að orði í bók sinni: "Við réttar aðstæður er hópur fólks ótrúlega gáfaður, og oft gáfaðri en gáfaðasti einstaklingurinn í hópnum." Hann segir að oft geti verið skynsamlegra að byggja á múgviti en mannviti einstakra persóna. Þetta er svo ögrandi kenning að ekki er nema eðlilegt að ýmsum verði orðfall í fyrstu. Upp í hugann koma ótal dæmi um hið gagnstæða; er ekki veraldarsagan öðrum þræði sagan um þá ógæfu sem ósjálfstæð hugsun einstaklinga, sem birtist í múghyggju og múgæði, hefur valdið? Um miðja nítjándu öld skrifaði Charles MacKay bókina Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds þar sem hann rekur kerfisbundið sögu óra og ímyndana mannkyns. En þegar nánar er aðgætt er ekki ginnungagap á milli MacKay og Surowiecki. Hinn síðarnefndi setur ýmsa fyrirvara á kenningu sína um múgvitið. Það er ekki sama hvernig hópur er samansettur ef hann á að ná meiri árangri en einstakir menn. Hann verður að vera fjölskrúðugur með þeim hætti að þekking og vit komi úr ólíkum áttum og vitneskjan verður að finna sér farveg sem kemur í veg fyrir að einn api eftir öðrum því það er ávísun á ranga útkomu. Takmörk kenningarinnar eru Surowiecki að sjálfsögðu ljós. Þau má sjá af einföldu dæmi sem hagfræðingurinn John Kay nefnir í umfjöllun um þetta efni í Financial Times á dögunum: "Þegar ég flýg í háloftunum treysti ég frekar á þekkingu flugmannanna en samanlagt vit farþeganna". Sama má segja um dóm læknisins á sjúkrahúsinu; við teljum víst öll skynsamlegra að byggja sjúkdómsgreiningu á sérþekkingu hans frekar en samanlögðu viti sjúklinganna í kringum hann. Segja má að múgvit í skilningi Surowiecki (en ekki MacKay) birtist hvergi betur en í frjálsu markaðskerfi og skýri hvernig það starfar og hvers vegna það hefur yfirburði yfir miðstjórnarskipulag eins og reynt hefur verið með raunalegum afleiðingum í sósíalískum ríkjum. Enginn einn maður eða eitt stjórnvald getur búið yfir þeirri þekkingu sem þarf til að uppfylla þarfir manna og óskir. Það gerist aðeins í víxlverkan ólíkrar og dreifðrar þekkingar. Þegar að er gáð er kannski ekki eðlismunur á hugsun Surowieckis og Sigurðar Nordal í "Samlagningu", heldur hafa þeir ólíkar áherslur og taka viðfangsefnið ólíkum tökum. Enda segir Sigurður í ritgerðinni: "Enginn mun geta neitað því, að mikill mannfjöldi hljóti að öllu saman töldu að hafa meira vit, meiri reynslu og þekkingu en hver einstaklingur sem vera skal." Og hann bætti við: "Gallinn er aðeins sá, að vér kunnum engin ráð til þess að leggja þessa hluti saman. Þeir hlíta ekki þeim lögum." Þetta síðarnefnda hefur ekki reynst alveg rétt eins og dæmin frá salviti spurningaþáttanna og árangri markaðanna sanna.