Menning

Algjör matarfíkill

María Björk Sverrisdóttir er mikið fyrir góðan mat. "Ég er matarfíkill og matur er helsta nautnin í mínu lífi. Mér finnst rosagaman að fara út að borða og finnst þá gaman að borða öðruvís mat. Mér finnst alveg gaman að elda en ég er oft mjög upptekin svo ég borða mikið úti. Ég elda sjaldan og stundum biðja börnin mín mig að elda fisk eða einhvern hversdagsmat ólíkt öðrum börnum sem kannski fá sjaldnar pitsu eða annan heimsendan mat." María ratar samt alveg um eldhúsið sitt. "Mér finnst mjög gaman að drekka gott rauðvín og elda góðan mat. Ég á nokkrar uppskriftir sem klikka ekki og ég held mig frekar við þær en að prófa eitthvað nýtt. Ég er ekki tilraunakokkur og vil láta þá sem vitið hafa elda það sem þeir gera best, En ég er talin góð í því að elda það sem ég kann. Ég kann að gera frábæran lax með kókosmassa utan um og með appelsínusósu og hvítlauk. Svo hef ég líka þann sið að þegar ég fæ góðan mat hjá vinum mínum fæ ég uppskriftina og elda hana svo. Þannig lærði ég t.d. að gera chili-kjúkling a la Jónas R. og Diddú lét mig fá uppskrift að pasta með engu kjöti en fullt af hvítlauk, ólífum og tómötum en þar er það mysingur sem gerir gæfumuninn." Hver er besti maturinn sem María matgæðingur hefur fengið? "Ég fer stundum til Ísraels og þar fæ ég gæsalifur sem er grilluð en samt eiginlega hrá og hún bráðnar upp í manni og það er, held ég, eitt það besta sem ég hef smakkað." María mun ekki ná að elda næstu daga því Söngskóli Maríu og Siggu er að hefja hauststarfið í nýju húsnæði og það er í morg horn að líta. En hún á vonandi eftir að finna tíma til að borða almennilega.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×