Að flugeldasýningu lokinni 23. ágúst 2004 00:01 Óneitanlega fannst manni Bubbi Morthens eins og Jesaja spámaður þegar hann þrumaði yfir hundrað þúsund manns: Þið munuð öll... þið munuð öll... þið munuð öll DEYJA!!! – svo þakkaði hann klökkum orðum öllum fyrir samveruna og fór að telja niður: TÍU-NÍU-ÁTTA... Síðan hófst sprengjugnýrinn. Himinninn stóð í ljósum logum, litunum rigndi yfir okkur, jörðin nötraði og eitt andartak varð ég smeykur og hugsaði með sjálfum mér að svona litu Ragnarökin út. Lagið á undan og allt fýrverkeríið í kjölfarið: þetta var eins og sjóbissness-ragnarök. Sýningin hófst með meiri ákveðni en í fyrra. Krafturinn var meiri nú í ár, tempóið hraðara og hugkvæmari tengingar milli stóru búkettanna - í fyrra var sýningin framan af full nett og fínleg fyrir barnið í mér, örlaði jafnvel á listrænni tilgerð. Flugeldasýning orkar alltaf á mig eins og ég horfi á Guð mála með ósýnilegri hendi á strigann sinn sem er himinninn. Er ekki góð flugeldasýning alveg áreiðanlega hástig allrar nútímamyndlistar? Að minnsta kosti var unun að fylgjast með því hvernig listamenn kvöldsins léku sér að því að fylla ýmist út í flötinn sem þeir höfðu tekið sér til umráða eða skreyttu horn hans hér og hvar; flugeldasýning er ekki síst tónlist, list tímans og hverfuleikans; snýst um ryþma, samspil lita og hljóða, list sem lifir í augnablikinu og hverfur svo. Flugeldasýning er al-list, höfðað er til margra skynsviða í senn og leitast við að koma áhorfanda sífellt á óvart með nýjum og nýjum undrum, fylla himininn undrum svo að við trúum því jafnvel um stund að maðurinn megi sín einhvers í alheiminum. Og samt finnst mér fegursta augnablikið í flugeldasýningum alltaf vera þetta sekúndubrot milli búkettanna þegar maður sér ennþá reykinn – aðeins reykurinn er eftir, stirðnaður í fyrrum glæsilegri stellingu eins og teikning: hann er eins og minning, nákvæm eftirgerð á einhverju sem var óendanlega litskært og fallegt en er bara grár – og hverfur. Þið munuð öll... Ég heyrði barn fyrir aftan mig segja: "Það er búið að skemma himininn." Náungi við hliðina á mér tautaði "sæmilegt," við vin sinn en fór smám saman að segja "þetta er geðveikt." Hann sagði það með jöfnu millibili út sýninguna, eins og þetta væri mantra. Barn hinum megin við mig sagði við mömmu sína: "Þetta var flottara í Vatnaskógi í fyrra" en spölkorn frá sagði ungur maður: "Hvaðan kemur allt þetta fólk?" eins og hann hefði verið rétt í þessu að vakna. Fyrir framan mig benti maður á rakettu á ferð og sagði við vin sinn: "Sjáðu þetta er eins og sæðisfruma..." Það var gaman að heyra röflið í fólkinu. Íslendingar eru yfirleitt heldur skemmtilegir á milli ellefu og hálf tólf á kvöldin, búnir með nokkra bjóra, orðnir svolítið háværir en ekki farnir að garga, orðnir hreifir en ekki farnir að slefa, farnir að bulla en staðhæfingarnar enn bara hæfilega fráleitar, skynsemin ekki algerlega horfin úr þeim – kannski stirðnaður reykurinn af henni eftir – en áfengið ennþá frjósamt við að rugla mátulega hugsunina og opna mátulega hurðir í vitundinni sem annars eru lokaðar. Sem sagt: mátulegir. Þegar líða tekur á nóttina fer svo allt í tómt þvaður og stagl og menn lokast inni í áðurgreindum herbergjum vitundarinnar. En heill og heiður sé borgarstjórn að gefa okkur kost á því að safnast saman í miðbænum tugþúsundum saman til að vera á röltinu úti undir beru lofti. Eins og ég hef áður sagt: Menningarnóttin er Perlan hennar Ingibjargar Sólrúnar. Og þegar ég hugsaði mig betur um á leiðinni til baka eftir Flugeldasýninguna þá fann ég að það var vit í spurningu mannsins: Hvaðan kemur allt þetta fólk? Það kemur úr bílum og möllum og steinsteypuhúsum. Yfirleitt er það hending að rekast á fótgangandi vegfaranda sem hættir sér út undir bert loft hér á landi – nema með staðfestusvip í sérstökum göngugalla. Þennan eina dag, þetta eina kvöld, þessa einu nótt verður Reykjavík eins og hún á að vera og fólkið kemur úr bílum og möllum og steinsteypuhúsum og horfir undrandi í kringum sig – og hrifið: þetta er bara eins og í útlöndum. Í möllunum er ekkert mannlíf bara fólk, þar er ekkert spjall bara húk, þar er ekkert í loftinu, bara loftleysi – útiloftið opnar okkur, við finnum þetta bara þegar við opnum glugga. Og röltið opnar okkur líka því þá ertu ekki á sérstakri leið heldur ert tilbúinn að mæta því sem að höndum ber. Þennan eina dag, þetta kvöld og þessa nótt sá maður á röltinu örlög fólks í einni sjónhendingu, maður sá roskin hjón ganga niður Laugaveginn og manni vitraðist eitthvað mikilvægt áður en fólkið gekk hjá og var horfið út í mannhafið, en eftir sat minning, teikning, stirðnaður reykur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Óneitanlega fannst manni Bubbi Morthens eins og Jesaja spámaður þegar hann þrumaði yfir hundrað þúsund manns: Þið munuð öll... þið munuð öll... þið munuð öll DEYJA!!! – svo þakkaði hann klökkum orðum öllum fyrir samveruna og fór að telja niður: TÍU-NÍU-ÁTTA... Síðan hófst sprengjugnýrinn. Himinninn stóð í ljósum logum, litunum rigndi yfir okkur, jörðin nötraði og eitt andartak varð ég smeykur og hugsaði með sjálfum mér að svona litu Ragnarökin út. Lagið á undan og allt fýrverkeríið í kjölfarið: þetta var eins og sjóbissness-ragnarök. Sýningin hófst með meiri ákveðni en í fyrra. Krafturinn var meiri nú í ár, tempóið hraðara og hugkvæmari tengingar milli stóru búkettanna - í fyrra var sýningin framan af full nett og fínleg fyrir barnið í mér, örlaði jafnvel á listrænni tilgerð. Flugeldasýning orkar alltaf á mig eins og ég horfi á Guð mála með ósýnilegri hendi á strigann sinn sem er himinninn. Er ekki góð flugeldasýning alveg áreiðanlega hástig allrar nútímamyndlistar? Að minnsta kosti var unun að fylgjast með því hvernig listamenn kvöldsins léku sér að því að fylla ýmist út í flötinn sem þeir höfðu tekið sér til umráða eða skreyttu horn hans hér og hvar; flugeldasýning er ekki síst tónlist, list tímans og hverfuleikans; snýst um ryþma, samspil lita og hljóða, list sem lifir í augnablikinu og hverfur svo. Flugeldasýning er al-list, höfðað er til margra skynsviða í senn og leitast við að koma áhorfanda sífellt á óvart með nýjum og nýjum undrum, fylla himininn undrum svo að við trúum því jafnvel um stund að maðurinn megi sín einhvers í alheiminum. Og samt finnst mér fegursta augnablikið í flugeldasýningum alltaf vera þetta sekúndubrot milli búkettanna þegar maður sér ennþá reykinn – aðeins reykurinn er eftir, stirðnaður í fyrrum glæsilegri stellingu eins og teikning: hann er eins og minning, nákvæm eftirgerð á einhverju sem var óendanlega litskært og fallegt en er bara grár – og hverfur. Þið munuð öll... Ég heyrði barn fyrir aftan mig segja: "Það er búið að skemma himininn." Náungi við hliðina á mér tautaði "sæmilegt," við vin sinn en fór smám saman að segja "þetta er geðveikt." Hann sagði það með jöfnu millibili út sýninguna, eins og þetta væri mantra. Barn hinum megin við mig sagði við mömmu sína: "Þetta var flottara í Vatnaskógi í fyrra" en spölkorn frá sagði ungur maður: "Hvaðan kemur allt þetta fólk?" eins og hann hefði verið rétt í þessu að vakna. Fyrir framan mig benti maður á rakettu á ferð og sagði við vin sinn: "Sjáðu þetta er eins og sæðisfruma..." Það var gaman að heyra röflið í fólkinu. Íslendingar eru yfirleitt heldur skemmtilegir á milli ellefu og hálf tólf á kvöldin, búnir með nokkra bjóra, orðnir svolítið háværir en ekki farnir að garga, orðnir hreifir en ekki farnir að slefa, farnir að bulla en staðhæfingarnar enn bara hæfilega fráleitar, skynsemin ekki algerlega horfin úr þeim – kannski stirðnaður reykurinn af henni eftir – en áfengið ennþá frjósamt við að rugla mátulega hugsunina og opna mátulega hurðir í vitundinni sem annars eru lokaðar. Sem sagt: mátulegir. Þegar líða tekur á nóttina fer svo allt í tómt þvaður og stagl og menn lokast inni í áðurgreindum herbergjum vitundarinnar. En heill og heiður sé borgarstjórn að gefa okkur kost á því að safnast saman í miðbænum tugþúsundum saman til að vera á röltinu úti undir beru lofti. Eins og ég hef áður sagt: Menningarnóttin er Perlan hennar Ingibjargar Sólrúnar. Og þegar ég hugsaði mig betur um á leiðinni til baka eftir Flugeldasýninguna þá fann ég að það var vit í spurningu mannsins: Hvaðan kemur allt þetta fólk? Það kemur úr bílum og möllum og steinsteypuhúsum. Yfirleitt er það hending að rekast á fótgangandi vegfaranda sem hættir sér út undir bert loft hér á landi – nema með staðfestusvip í sérstökum göngugalla. Þennan eina dag, þetta eina kvöld, þessa einu nótt verður Reykjavík eins og hún á að vera og fólkið kemur úr bílum og möllum og steinsteypuhúsum og horfir undrandi í kringum sig – og hrifið: þetta er bara eins og í útlöndum. Í möllunum er ekkert mannlíf bara fólk, þar er ekkert spjall bara húk, þar er ekkert í loftinu, bara loftleysi – útiloftið opnar okkur, við finnum þetta bara þegar við opnum glugga. Og röltið opnar okkur líka því þá ertu ekki á sérstakri leið heldur ert tilbúinn að mæta því sem að höndum ber. Þennan eina dag, þetta kvöld og þessa nótt sá maður á röltinu örlög fólks í einni sjónhendingu, maður sá roskin hjón ganga niður Laugaveginn og manni vitraðist eitthvað mikilvægt áður en fólkið gekk hjá og var horfið út í mannhafið, en eftir sat minning, teikning, stirðnaður reykur.