Tíska og hönnun

Gleraugnasýning á Menningarnótt

Gleraugnaframleiðandinn Booth & Bruce England hefur ekki starfað lengi en hefur þó slegið í gegn á alþjóðamarkaði. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið 1999 á gleraugnasýningu í London og eftir það fóru hjólin að snúast. Booth & Bruce selur nú gleraugu um allan heim og er Yoko Ono einn af þekktustu viðskiptavinunum. Gleraugun henta öllum og eru á viðráðanlegu verði. Umboðsaðili Booth & Bruce-gleraugna er gleraugnaverslunin Sjáðu á Laugavegi 32. Nú um helgina verður haldin sérstök gleraugnasýning í versluninni í tilefni menningarnætur

"Hér kemur maður frá Booth & Bruce sem sér um markaðsmálin. Hann kemur með alla línuna, öll módel og öll form. Vonandi kemur hann líka með frumgerðir af gleraugum sem ekki eru komin á markað. Sýningin hefst á morgun og verður einnig á laugardaginn. Síðan ætlar maður frá Booth & Bruce að ferðast um landið og ég vona að ég fái að halda gleraugum lengur þannig að sýningin vari í nokkra daga í viðbót," segir Gylfi Björnsson, eigandi verslunarinnar Sjáðu. Á morgun er sýningin opin til klukkan 19 en á laugardaginn til klukkan 21.

Sjáðu hefur selt Booth & Bruce-gleraugu frá upphafi og hafa þau verið mjög vinsæl. Gleraugun eru mjög jarðbundin en samt töff. Þau eru í litum eins og brúnum, svörtu, glæru og kopar og henta öllum. "Þó að gleraugun henti öllum þá hafa þau samt karakter. Ég lít á gleraugu sem skartgrip og það á ekki að fara í feluleik með gleraugun. Gleraugu eiga að vera töff. Ef þú vilt ná sambandi við manneskju verður að ná augnsambandi ef hún á að heyra það sem þú ert að segja. Ef fólk þarf gleraugu á annað borð eiga þau að vera töff," segir Gylfi, sem er með öðruvísi pöntunarkerfi en margir. "Ef ég sel gleraugnapar finnst mér það fínt því þá get ég pantað annað. Ég hugsa ekki eins og sumir sem panta inn það sem selst vel. Ég fer eftir hugsjóninni hjá Booth & Bruce að skipta mjög ört um týpur og hafa sífellda hreyfingu á úrvalinu. Það er það sem gerir þetta skemmtilegt."

lilja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×