Kútkveðskapur Hannesar 18. júlí 2004 00:01 Sú var tíð að Morgunblaðið notaði tiltekna ramma til að auðkenna sérstaka sómapenna sem blaðið taldi að heiðruðu blaðið sérstaklega með nærveru sinni. Þessir viðhafnarrammar voru fráteknir handa sérstökum og alþekktum andans aristókrötum -- og sjaldgæfir eftir því: einungis notaðir ef þessir aristókratar skyldu nú fá skemmtilega hugdettu. Sjálft formið á þessum greinum ber útlitshönnuðum blaðsins fagurt vitni. Ramminn fangar augað undireins svo að annað efni á opnunni virðist nánast almúgalegt í samanburðinum. Íhaldssemi og fágun einkenna útlit þessara greina, útmælt yfirlætisleysi. Þetta er viðhafnarpúlt blaðsins, fagurlega hannað af fremstu listamönnum þess. Eða betristofan: reglulegur og formfastur ramminn, letrið, sjálf myndaleysið sem ögrar klisjunni um að mynd þurfi alltaf að fylgja öllum texta: hér er okkur vísað inn í fagurþiljaða betristofu íslenskrar umræðu, allt bendir hér til Sögu og Hefðar -- verður maður ekki svolítið hokinn á meðan maður les? Á þeim árum þegar viðhafnarramminn birtist lesendum einungis nokkrum sinnum í mánuði þótti manni óneitanlega á þessu nokkurt broddborgarasnið. Manni þótti blaðið fara í heldur mikið manngreinarálit, gera óþarflega mikið stáss með suma á meðan aðrir máttu dúsa í Bréfum til blaðsins, eða náðu jafnvel aldrei að tosa sig upp úr Velvakanda. Á móti kom hins vegar að þetta voru ekki fulltrúar auðs og veraldlegra valda, hinir útvöldu voru andans menn: þarna gat maður átt von á ádrepum Helga Hálfdanarsonar sem orðið "sér-viska" átti við í sinni bestu og tærustu merkingu, andríkum hugleiðingum Þorsteins Gylfasonar eða leifrandi fyndnum pólitískum athugasemdum frá Magnúsi Óskarssyni, svo að þrír eftirminnilegir rammapennar séu nefndir. Sjaldnast var um dægurþras að ræða í þessum rammagreinum, oft snerust þær um torskilda staði í ljóðum eða höfðu að geyma frumlegar hugdettur, óvænt sjónarhorn. Þetta voru jákvæðar greinar. Með öðrum orðum: þrátt fyrir dálítið þverslaufulegt hátíðafas var þetta ánægjulegur vettvangur og til þess fallinn að koma manni í gott skap. Þar til nú. Allt í einu er þessi viðhafnardálkur Morgunblaðsins handa vildarpennum sínum undirlagður af mjög kyndugum ritsmíðum. Satt að segja er gamla betristofan orðin eins og mötuneytið í Valhöll eða kaffistofan hjá Lögfræðingafélaginu. Þarna rekur hver greinin aðra þar sem lagarefir Flokksins reyna að telja þjóðinni trú um það að ef ekki séu tilteknar stjórnvaldsaðgerðir beinlínis og berum orðum bannaðar í stjórnarskránni þá hljóti þær þar með að samræmast henni -- jafnvel þótt viðkomandi aðgerðir fari í bága við það sem þó stendur í stjórnarskránni. Undarlegasta greinin í þessum bálki var þó tvímælalaust eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Á dögunum fékk hann gamla viðhafnarrammann utan um ritsmíð sem ekki varð betur séð en að fjallaði umfram allt um það hversu alþýðlegur, yfirvegaður og orðheppinn greinarhöfundur væri, andstætt Ólafi Hannibalssyni, sem hefði ekki til að bera þessa eftirsóknarverðu eiginleika og því farið mjög halloka í orðaskiptum þeirra tveggja. Í greininni var því lýst hvernig þessir miklu yfirburðir greinarhöfundar yfir Ólaf hefðu gagnast honum til að kveða hann gersamlega í kútinn með snjöllu tilsvari sem myndi sóma sér vel í bókaflokknum Íslenzk fyndni -- ef það er þar þá ekki nú þegar eða í öðru sambærilegu riti, sé höfundurinn trúr þeim aðferðum sem hann hefur nú þegar öðlast nokkra frægð fyrir. Innan um þetta var laumað óhróðri um störf Ólafs sem báru höfundi sínum vitni. Ekki er að efa að Hannes telur sig þurfa að jafna einhverjar sakir við Ólaf Hannibalsson. Og ekki kemur á óvart að hann notar til þess aðferðir sem löngum voru kenndar við Jónas frá Hriflu og einkennast af óhróðri, slúðri og rangfærslum - ef til vill ómaklega því Jónas má þó eiga að hann stóð á sinni tíð fyrir mikilli uppbyggingu, ekki bara niðurrifi. Sjálfur get ég vitnað um að það er óskemmtilegt að fá yfir sig skæðadrífu tölvuskeyta frá Hannesi og svara þeim eins og almenn kurteisi býður manni og frétta síðan af því hvernig hann sendir hingað og þangað bréfin, Guð má vita hvernig samanklippt, til að sýna fram á hvernig hann hafi kveðið viðkomandi í kútinn -- "sáuði hvernig ég tók hann piltar". Smám saman lærir maður að Hannes er líka hluti af sköpunarverki Guðs og verður fá að kveða sitt í sinn kút, en óneitanlega er hálf leiðinlegt fyrir dyggan lesanda Morgunblaðsins að sjá þennan virðulega og löngum ánægjulega vettvang hinnar sérviskulegu akademíu blaðsins nær daglega undirlagðan jafn kjánalegum samsetningi og umrædd grein Hannesar óneitanlega var. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Sú var tíð að Morgunblaðið notaði tiltekna ramma til að auðkenna sérstaka sómapenna sem blaðið taldi að heiðruðu blaðið sérstaklega með nærveru sinni. Þessir viðhafnarrammar voru fráteknir handa sérstökum og alþekktum andans aristókrötum -- og sjaldgæfir eftir því: einungis notaðir ef þessir aristókratar skyldu nú fá skemmtilega hugdettu. Sjálft formið á þessum greinum ber útlitshönnuðum blaðsins fagurt vitni. Ramminn fangar augað undireins svo að annað efni á opnunni virðist nánast almúgalegt í samanburðinum. Íhaldssemi og fágun einkenna útlit þessara greina, útmælt yfirlætisleysi. Þetta er viðhafnarpúlt blaðsins, fagurlega hannað af fremstu listamönnum þess. Eða betristofan: reglulegur og formfastur ramminn, letrið, sjálf myndaleysið sem ögrar klisjunni um að mynd þurfi alltaf að fylgja öllum texta: hér er okkur vísað inn í fagurþiljaða betristofu íslenskrar umræðu, allt bendir hér til Sögu og Hefðar -- verður maður ekki svolítið hokinn á meðan maður les? Á þeim árum þegar viðhafnarramminn birtist lesendum einungis nokkrum sinnum í mánuði þótti manni óneitanlega á þessu nokkurt broddborgarasnið. Manni þótti blaðið fara í heldur mikið manngreinarálit, gera óþarflega mikið stáss með suma á meðan aðrir máttu dúsa í Bréfum til blaðsins, eða náðu jafnvel aldrei að tosa sig upp úr Velvakanda. Á móti kom hins vegar að þetta voru ekki fulltrúar auðs og veraldlegra valda, hinir útvöldu voru andans menn: þarna gat maður átt von á ádrepum Helga Hálfdanarsonar sem orðið "sér-viska" átti við í sinni bestu og tærustu merkingu, andríkum hugleiðingum Þorsteins Gylfasonar eða leifrandi fyndnum pólitískum athugasemdum frá Magnúsi Óskarssyni, svo að þrír eftirminnilegir rammapennar séu nefndir. Sjaldnast var um dægurþras að ræða í þessum rammagreinum, oft snerust þær um torskilda staði í ljóðum eða höfðu að geyma frumlegar hugdettur, óvænt sjónarhorn. Þetta voru jákvæðar greinar. Með öðrum orðum: þrátt fyrir dálítið þverslaufulegt hátíðafas var þetta ánægjulegur vettvangur og til þess fallinn að koma manni í gott skap. Þar til nú. Allt í einu er þessi viðhafnardálkur Morgunblaðsins handa vildarpennum sínum undirlagður af mjög kyndugum ritsmíðum. Satt að segja er gamla betristofan orðin eins og mötuneytið í Valhöll eða kaffistofan hjá Lögfræðingafélaginu. Þarna rekur hver greinin aðra þar sem lagarefir Flokksins reyna að telja þjóðinni trú um það að ef ekki séu tilteknar stjórnvaldsaðgerðir beinlínis og berum orðum bannaðar í stjórnarskránni þá hljóti þær þar með að samræmast henni -- jafnvel þótt viðkomandi aðgerðir fari í bága við það sem þó stendur í stjórnarskránni. Undarlegasta greinin í þessum bálki var þó tvímælalaust eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Á dögunum fékk hann gamla viðhafnarrammann utan um ritsmíð sem ekki varð betur séð en að fjallaði umfram allt um það hversu alþýðlegur, yfirvegaður og orðheppinn greinarhöfundur væri, andstætt Ólafi Hannibalssyni, sem hefði ekki til að bera þessa eftirsóknarverðu eiginleika og því farið mjög halloka í orðaskiptum þeirra tveggja. Í greininni var því lýst hvernig þessir miklu yfirburðir greinarhöfundar yfir Ólaf hefðu gagnast honum til að kveða hann gersamlega í kútinn með snjöllu tilsvari sem myndi sóma sér vel í bókaflokknum Íslenzk fyndni -- ef það er þar þá ekki nú þegar eða í öðru sambærilegu riti, sé höfundurinn trúr þeim aðferðum sem hann hefur nú þegar öðlast nokkra frægð fyrir. Innan um þetta var laumað óhróðri um störf Ólafs sem báru höfundi sínum vitni. Ekki er að efa að Hannes telur sig þurfa að jafna einhverjar sakir við Ólaf Hannibalsson. Og ekki kemur á óvart að hann notar til þess aðferðir sem löngum voru kenndar við Jónas frá Hriflu og einkennast af óhróðri, slúðri og rangfærslum - ef til vill ómaklega því Jónas má þó eiga að hann stóð á sinni tíð fyrir mikilli uppbyggingu, ekki bara niðurrifi. Sjálfur get ég vitnað um að það er óskemmtilegt að fá yfir sig skæðadrífu tölvuskeyta frá Hannesi og svara þeim eins og almenn kurteisi býður manni og frétta síðan af því hvernig hann sendir hingað og þangað bréfin, Guð má vita hvernig samanklippt, til að sýna fram á hvernig hann hafi kveðið viðkomandi í kútinn -- "sáuði hvernig ég tók hann piltar". Smám saman lærir maður að Hannes er líka hluti af sköpunarverki Guðs og verður fá að kveða sitt í sinn kút, en óneitanlega er hálf leiðinlegt fyrir dyggan lesanda Morgunblaðsins að sjá þennan virðulega og löngum ánægjulega vettvang hinnar sérviskulegu akademíu blaðsins nær daglega undirlagðan jafn kjánalegum samsetningi og umrædd grein Hannesar óneitanlega var.