Hinn ískyggilegi kosningaréttur 5. júlí 2004 00:01 Einskær tilhugsunin um að einn maður hafi eitt atkvæði til ráðstöfunar virðist vera óhugnanleg fyrir ráðamenn þessa lands, og skjóta þeim slíkan skelk í bringu að þeir leita allra leiða til að koma í veg fyrir slíka óhæfu. Það er ekki að undra. Óskertur kosningaréttur myndi jaðra við byltingu. Hinar skringilegu skýringar Sjálfstæðismanna á úrslitum forsetakosninganna – þar sem einn maður hefur einmitt eitt atkvæði – benda til þess að þar á bæ sé mönnum það gersamlega ofviða að horfast í augu við útkomuna úr slíkum kosningum. Svo róttækt lýðræði hefur aldrei tíðkast hér á landi heldur hefur vægi atkvæðisins farið eftir búsetu – því hversu göfugum stað maður býr á og hversu brýnt það er talið af stjórnvöldum að maður búi þar áfram – og hafa báðir stjórnarflokkarnir löngum hagnast á þessu andlýðræðislega fyrirkomulagi, einkum Framsókn eins og kunnugt er, sem væri sennilega varla til sem flokkur ef ekki væri þetta misvægi atkvæða. Í rauninni hefur kosningakerfið um árabil verið svo flókið hér á landi að maður hefur eiginlega ekki hugmynd um hvað maður er að kjósa. Kjósi ég Vinstri græna í Reykjavík – er ég þá í rauninni að kjósa Jón Bjarnason? Eða kannski Einar K. Guðfinnsson? Og kjósi ég sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi – verður þá atkvæði mitt til þess að samfylkingarmaður frá Siglufirði sleppur inn á þing? Þetta veit maður aldrei. Kosningar á Íslandi eru svo ógagnsæjar að í rauninni má það teljast undravert hversu duglegir Íslendingar hafa verið að mæta á kjörstað og kjósa og ímynda sér að þar með hafi þeir eitthvað að segja um stjórn landsins. Íslenskir stjórnmálamenn eru enda þeir einu í heiminum sem bjóða kjósendum sínum upp á hugtakið „að ganga óbundnir til kosninga“, þetta er séríslensk hugsun sem hvergi finnst orðuð í nokkru öðru tungumáli, og sýnir líka séríslenska virðingu stjórnmálamanna fyrir kjósendum; þeir eru með þessum orðum að segja okkur það að okkur komi það ekkert við sem gerist eftir kosningar, okkur komi það ekkert við hvað séum að kjósa um, þeir séu „óbundnir“; þess vegna hefur aldrei verið hægt að kjósa um ríkisstjórn hér á landi. Sú hugmynd að kosningar séu til þess að leiða í ljós vilja almennings er ráðamönnum nýstárleg og ískyggileg. Þegar þetta er skrifað á sunnudagsmorgni liggur ekki fyrir til hvaða ráða ríkisstjórnin hyggst grípa í því skyni að takmarka kosningarétt fólks en hitt virðist nokkuð ljóst að ekki stendur til að fara að stjórnarskránni um það hvernig standa á að þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin heldur setja menn sem fyrr allt sitt traust á það fólk sem kýs ekki. Að skila auðu, að sitja heima, að taka ekki þátt – eins og góður maður segir stundum: það er vissulega sjónarmið. Það er líka afstaða – sem ber að virða. Sá/sú sem skilar auðu eða mætir ekki á kjörstað er þar með að segja: ég vil ekki velja á milli þeirra kosta sem bjóðast, ég vil ekki taka þátt í þessari kosningu. Til þess hefur fólk allan rétt. En það er vitaskuld fráleitt að sú afstaða skuli fá vægi í kosningum: að sú/sá sem segir „ég vil ekki taka þátt í kosningunum“ hafi áhrif á niðurstöðu kosninganna, og jafnvel meiri áhrif en sá/sú sem þó mætir og ráðstafar atkvæði sínu. Þar með er verið að ræna þann sem skilar auðu eða situr heima rétti sínum til þess að taka ekki þátt, það er verið að neyða viðkomandi upp á svið. Hlutleysi er breytt í þátttöku. Auðum seðli er breytt í raunverulegt atkvæði. Viðkomandi er þröngvað til að segja já eða nei, og þar með annað en viðkomandi hafði ætlað að segja. Þetta hefði maður ætlað að væri augljóst og að meira að segja lögfræðingar Flokksins skildu þetta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Einskær tilhugsunin um að einn maður hafi eitt atkvæði til ráðstöfunar virðist vera óhugnanleg fyrir ráðamenn þessa lands, og skjóta þeim slíkan skelk í bringu að þeir leita allra leiða til að koma í veg fyrir slíka óhæfu. Það er ekki að undra. Óskertur kosningaréttur myndi jaðra við byltingu. Hinar skringilegu skýringar Sjálfstæðismanna á úrslitum forsetakosninganna – þar sem einn maður hefur einmitt eitt atkvæði – benda til þess að þar á bæ sé mönnum það gersamlega ofviða að horfast í augu við útkomuna úr slíkum kosningum. Svo róttækt lýðræði hefur aldrei tíðkast hér á landi heldur hefur vægi atkvæðisins farið eftir búsetu – því hversu göfugum stað maður býr á og hversu brýnt það er talið af stjórnvöldum að maður búi þar áfram – og hafa báðir stjórnarflokkarnir löngum hagnast á þessu andlýðræðislega fyrirkomulagi, einkum Framsókn eins og kunnugt er, sem væri sennilega varla til sem flokkur ef ekki væri þetta misvægi atkvæða. Í rauninni hefur kosningakerfið um árabil verið svo flókið hér á landi að maður hefur eiginlega ekki hugmynd um hvað maður er að kjósa. Kjósi ég Vinstri græna í Reykjavík – er ég þá í rauninni að kjósa Jón Bjarnason? Eða kannski Einar K. Guðfinnsson? Og kjósi ég sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi – verður þá atkvæði mitt til þess að samfylkingarmaður frá Siglufirði sleppur inn á þing? Þetta veit maður aldrei. Kosningar á Íslandi eru svo ógagnsæjar að í rauninni má það teljast undravert hversu duglegir Íslendingar hafa verið að mæta á kjörstað og kjósa og ímynda sér að þar með hafi þeir eitthvað að segja um stjórn landsins. Íslenskir stjórnmálamenn eru enda þeir einu í heiminum sem bjóða kjósendum sínum upp á hugtakið „að ganga óbundnir til kosninga“, þetta er séríslensk hugsun sem hvergi finnst orðuð í nokkru öðru tungumáli, og sýnir líka séríslenska virðingu stjórnmálamanna fyrir kjósendum; þeir eru með þessum orðum að segja okkur það að okkur komi það ekkert við sem gerist eftir kosningar, okkur komi það ekkert við hvað séum að kjósa um, þeir séu „óbundnir“; þess vegna hefur aldrei verið hægt að kjósa um ríkisstjórn hér á landi. Sú hugmynd að kosningar séu til þess að leiða í ljós vilja almennings er ráðamönnum nýstárleg og ískyggileg. Þegar þetta er skrifað á sunnudagsmorgni liggur ekki fyrir til hvaða ráða ríkisstjórnin hyggst grípa í því skyni að takmarka kosningarétt fólks en hitt virðist nokkuð ljóst að ekki stendur til að fara að stjórnarskránni um það hvernig standa á að þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin heldur setja menn sem fyrr allt sitt traust á það fólk sem kýs ekki. Að skila auðu, að sitja heima, að taka ekki þátt – eins og góður maður segir stundum: það er vissulega sjónarmið. Það er líka afstaða – sem ber að virða. Sá/sú sem skilar auðu eða mætir ekki á kjörstað er þar með að segja: ég vil ekki velja á milli þeirra kosta sem bjóðast, ég vil ekki taka þátt í þessari kosningu. Til þess hefur fólk allan rétt. En það er vitaskuld fráleitt að sú afstaða skuli fá vægi í kosningum: að sú/sá sem segir „ég vil ekki taka þátt í kosningunum“ hafi áhrif á niðurstöðu kosninganna, og jafnvel meiri áhrif en sá/sú sem þó mætir og ráðstafar atkvæði sínu. Þar með er verið að ræna þann sem skilar auðu eða situr heima rétti sínum til þess að taka ekki þátt, það er verið að neyða viðkomandi upp á svið. Hlutleysi er breytt í þátttöku. Auðum seðli er breytt í raunverulegt atkvæði. Viðkomandi er þröngvað til að segja já eða nei, og þar með annað en viðkomandi hafði ætlað að segja. Þetta hefði maður ætlað að væri augljóst og að meira að segja lögfræðingar Flokksins skildu þetta.