Viðskipti innlent

Kári heimilar sölu í deCode

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur gefið verðbréfamiðlurum heimild til að selja allt að 12 prósentum af eignarhlut sínum í fyrirtækinu. Verðmæti viðskiptanna gætu numið 250 milljónum króna eða meira. Í gær var tilkynnt í Nasdaq verðbréfahöllinni að Kári Stefánsson hefði ákveðið að fela verðbréfamiðlurum að annast sölu á allt að 400 þúsund hlutum í fyrirtækinu. Hver hlutur í deCode er nú skráður á 8,56 dollara á Nasdaq. Miðað við óbreytt gengi er verðmæti viðskiptanna því tæplega þrjár og hálf milljón dollara eða tæplega 250 milljónir króna. Viðskiptin geta farið fram á næstu tólf mánuðum samkvæmt reglum bandaríska fjármálaeftirlitsins. Þar er kveðið á um að innherjar gefi skriflegt umboð fyrir sölu á tilteknum hlut án þess að hafa innherjaupplýsingar sem geti haft áhrif á viðskiptin. Þannig eiga þessar reglur að koma í veg fyrir innherjasvik á bandarískum hlutabréfamarkaði. Kári segir aðgerðina eingöngu vera vegna þessa, þ.e. að hann sé að ganga úr skugga um að ef hann selji brjóti hann ekki umrædd lög. Í þessu felist því síður en svo yfirlýsing um að trú hans á fyrirtækinu hafi minnkað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×