Innlent

Þarf fleiri en kusu Ólaf Ragnar

Fleiri þurfa að kjósa gegn fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fella lögin úr gildi en kusu Ólaf Ragnar Grímsson forseta lýðveldisins þriðja kjörtímabilið í röð, verði þess krafist að minnst 44% atkvæðabærra manna synji lögunum. Starfshópur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu telur að taka megi upp „hóflega og málefnalega lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni“, einsog það er orðað. Síðan eru nefndar hugmyndir um að ekki færri en 25-44% atkvæðabærra manna verði að synja lögunum til að fella þau úr gildi. En hvað þýðir þetta í atkvæðum og prósentum af kjörskrá? Ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðslan verður og því ekki heldur hve margir verða nákvæmlega á kjörskrá. Þeir verða þó líklega um 213.500. Ef við miðum við að minnst 44% atkvæðabærra manna þurfi til synja lögunum, einsog bæði fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra hafa tekið undir, þýðir þetta að minnst 94 þúsund kjósendur þurfa að kjósa gegn fjölmiðlalögunum, og gildir þá einu hve margir koma á kjörstað. Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn forseti Íslands um helgina með miklum yfirburðum, hvernig svo sem menn túlka þær niðurstöður. Hann hlaut 86% af gildum atkvæðum en 67% af öllum greiddum atkvæðum. 90.662 kusu Ólaf Ragnar eða nokkuð færri en þarf til að synja fjölmiðlalögunum, ef áðurnefnt skilyrði um 44% atkvæðabærra manna verður að veruleika. Verði kjörsóknin meiri, t.d. 75%, þurfa 59% þeirra sem koma á kjörstað að kjósa gegn fjölmiðlalögunum til að þau falli úr gildi. Þetta hlutfall lækkar svo eftir því sem kjörsókn verður meiri, en þó aldrei þannig að einfaldur meirihluti ráði líkt og þekkist í þjóðaratkvæðagreiðslum í flestum Evrópulöndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×