Sport

Glæsilegt Íslandsmet Anítu dugði ekki til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta var glöð eftir að hún hljóp í Ríó í morgun.
Aníta var glöð eftir að hún hljóp í Ríó í morgun. vísir/anton
Aníta Hinriksdóttir bætti þriggja ára Íslandsmet sitt í 800 m hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í dag. Hún komst þó ekki áfram í undanúrslitin.

Hún var í sjötta sæti í sínum riðli sem var mjög hraður. Hún náði 20. besta tímanum í undanrásunum en það dugði ekki til að komast í undanúrslitin.

Aníta hljóp á 2:00,14 mínútum sem er nýtt Íslandsmet en gamla metið var 2:00,49 mínútur og var sett árið 2013. Hin tvítuga Aníta komst því afar vel frá sínum fyrstu Ólympíuleikum en þetta eru vonandi þeir fyrstu af mörgum hjá henni.

Efstu tveir keppendurnir úr hverjum riðli komust áfram sem og þeir hlauparar sem áttu átta bestu tímana þar fyrir utan. Aníta var í tíunda sæti í þeim hópi og sat því eftir, þrátt fyrir að sex keppendur sem voru með lakari tíma komust áfram. Þeir hlauparar voru hins vegar í einum tveimur efstu sætanna í sínum riðli.

Aníta hefur þar með lokið keppni á Ólympíuleikunum í Ríó en hún var síðasti íslenski keppandinn á leikunum að þessu sinni.

Melissa Bishop, sem hljóp í sama riðli og Aníta, náði besta tímanum í undanrásunum er hún hljóp á 1:58,38 mínútum. Reyndar voru fjórir af fimm hröðustu keppendum undanrásanna í riðli Anítu.

Caster Semenya frá Suður-Afríku, heimsmeistarinn frá HM í Berlín 2009 og silfurverðlaunahafinn í Lundúnum, komst örugglega áfram en hún náði sjötta besta tímanum í undanrásunum.

Vísir lýsti hlaupinu sjálfu, aðdragandanum og eftirmálanum, í beinni á Twitter. Hér fyrir neðan má lesa lýsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×