Bílar

Nissan Navara áreiðanlegastur samkvæmt J.D. Power

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Navara pallbíllinn.
Nissan Navara pallbíllinn.
J.D. Power framkvæmrir árlega könnun meðal bíleigenda í Bandaríkjunum sem keypt hafa nýjan bíl og spyr þá um reynslu þeirra fyrstu 90 dagana frá afhendingu og hvort einhver tilfelli hafi komið upp sem gera hafi þurft við á tímabilinu.

Í nýjustu gæðakönnuninni, J.D. Power 2016 U.S. Initial Quality StudySM, hlaut hinn nýi Nissan Frontier, sem heitir Navara á Evrópumarkaði, hæstu einkunn í flokki meðalstórra pallbíla (Midsize Pickup) og er hann því áreiðanlegasti bíllinn í sínum flokki.

Í árlegum gæðakönnunum sínum flokkar J.D. Power bílana eftir stærð og gerð og hvort um lúxusbíla er að ræða eða ekki og skipuðu bílar frá Nissan sér 6 sinnum í eitt af þremur efstu sætunum í ýmsum flokkum. Auk Frontier varð Nissan Altima í öðru sæti í flokki meðalstórra fólksbíla (Midsize Car) og Murano í þriðja sæti í flokki meðalstórra sportjeppa (Midsize SUV). Þá varð Infiniti QX80 sem tilheyrir lúxusmerki Nissan annar í flokki stórra lúxusjeppa (Large Premium SUV).

Gæði og áreiðanleiki vaxa ár frá ári Samkvæmt J.D. Power jókst áreiðanleiki nýrra bíla um 6% frá könnuninni 2015 þegar hann jókst um 3% frá fyrra ári. Niðurstöðurnar í ár eru mesta framfaraskref til aukinna gæða frá 2009 þrátt fyrir æ flóknari hátæknibúnað sem margir halda fyrirfram að kalli bara á fleiri galla. Því er semsagt þveröfugt farið.

Að mati J.D. Power er greinilegt að bílaframleiðendur leggja mikið á sig til að uppfylla væntingar viðskiptavina sinna til nýja bílsins enda sýna rannsóknir J.D. Power að 49% kaupenda líta fyrst og fremst til áreiðanleika þegar kemur að vali á tegund. Þær sýna einnig að 54% bíleigenda sem ekki þurfa að láta laga hnökra fyrstu 90 dagana snúa sér aftur til sama framleiðanda þegar kemur að næstu bílkaupum.

 






×