Fótbolti

Real Madrid skoraði níu gegn Granada | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Real Madrid valtaði yfir gesti sína frá Granada í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í morgun en Madrídingar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu níu mörk gegn einu gestanna.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Cristiano Ronaldo fór hamförum í leiknum og skoraði fimm mörk, þar af komu þrjú á átta mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Ronaldo hefur nú skorað 28 þrennur í búningi Real Madrid, jafn margar og Alfredo Di Stéfano gerði á sínum tíma. Ronaldo er alls kominn með 36 mörk í deildinni í vetur, fjórum mörkum meira en Lionel Messi hjá Barcelona.

Karim Benzema skoraði tvö mörk og Gareth Bale eitt, auk þess sem Diego Mainz setti boltann í eigið mark. Robert Ibanez skoraði eina mark Granada þegar hann minnkaði muninn í 7-1 á 74. mínútu.

Bale átti einnig tvær stoðsendingar sem og James Rodríguez sem sneri aftur í lið Real Madrid í dag eftir nokkurra vikna fjarveru vegna meiðsla.

Með sigrinum minnkaði Real Madrid forystu Barcelona á toppi deildarinnar niður í eitt stig. Börsungar geta þó endurheimt fjögurra stiga forystu með sigri á Celta Vigo í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×