Fótbolti

Lampard: Gareth Bale er alltof indæll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Vísir/Getty
Frank Lampard hafði sína skoðun á frammistöðu Gareth Bale með Real Madrid í 2-0 sigri á Schalke í gærkvöldi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta. Lampard vill að hann hugsi meira um sjálfan sig.

Það hefur ekki gengið nógu vel hjá þeim velska að undanförnu en dýrasti knattspyrnumaður heims hefur bætt þurft að hlusta á baul frá stuðningsmönnunum sem og harða gagnrýni í spænsku pressunni.

Það gekk lítið sem ekkert upp hjá Bale í leiknum í gær og virtist hann oft taka ranga ákvörðun þegar hann nálgaðist vítateiginn.

„Ég hef á tilfinningunni að þetta sé afar indæll strákur," sagði Frank Lampard við Sky Sports.

„Hann ætti að hafa meira egó miðað við það sem hann hefur þegar afrekað á ferlinum. Kannski hefur hann áhyggjur af því að gera ekki of mikið sjálfur þegar tækifærið gefst til að keyra sjálfur á markið, af ótta um að fá á sig gagnrýni," sagði Lampard sem vill að Bale hætti að reyna halda öllum öðrum ánægðum því að það sé ekki hægt.

„Ég vona að hann losi sig við slíkan hugsunarhátt sem fyrst því það gæti farið að hafa slæm áhrif á hann," sagði Lampard.

Bale hefur ekki skorað fyrir Real Madrid í næstum því einn mánuð og menn hafa tekið nokkrum sinnum eftir pirringi Cristiano Ronaldo þegar Bale reynir sjálfur að skjóta í stað þess að gefa hann.

„Ég vildi sjá Cristiano (Ronaldo) koma fram og segja að þetta sé ekkert mál því við vitum að það er hann sem er aðalmaðurinn," sagði Lampard en látbragð Ronaldo hefur oft kallað fram baul á Bale.

„Bale gæti hinsvegar komið enn sterkari til baka eftir þetta basl. Kannski sjáum við hann sóla þrjá og setja hann upp í fjærhornið í næsta leik," sagði Frank Lampard.

Gareth BaleVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×