Fótbolti

Alfreð og félagar búnir að vinna Real, Atlético og Barca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabier Prieto og  Sergio Canales fagna í leiknum á móti Barcelona í kvöld.
Xabier Prieto og Sergio Canales fagna í leiknum á móti Barcelona í kvöld. Vísir/AP
Real Sociedad vann í kvöld 1-0 sigur á Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið hefur þar með unnið þrjú efstu liðin á þessu tímabili. Þrír af fjórum sigurleikjum Sociedad í spænsku deildinni í vetur hafa þar með komið á móti þessum þremur efstu liðum deildarinnar.

Real Sociedad vann 2-1 sigur á Real Madrid 31. ágúst, 2-1 sigur á Atlético Madrid 9. nóvember og svo 1-0 sigur á Barcelona í kvöld. Allir leikirnir hafa farið fram á heimavelli Real Sociedad, Estadio Municipal de Anoeta.

Real Sociedad hefur unnið risana þrjá á þessu tímabili en þeir hafa samt unnist undir stjórn þriggja þjálfara. David Moyes stýrði liðinu til sigurs í kvöld en liðið vann Real Madrid undir stjórn Jagoba Arrasate og það var Asier Santana sem stýrði liðinu til sigurs á Atlético Madrid.

Eini sigurleikur Real Sociedad á móti hinum sextán liðum deildarinnar kom á móti neðsta liði deildarinnar, Elche, en Sociedad vann þá 3-0 sigur.

Alfreð Finnbogason kom inná sem varamaður á móti Barcelona í kvöld en hann kom ekkert við sögu í sigurleikjunum á móti Real Madrid og Atlético Madrid.

Real Sociedad hefur aðeins náð í 21 prósent stiga í boði á móti liðunum í 4. til 20. sæti.



Real Sociedad á mótiliðunum í 1. til 3. sæti:

9 stig af 9 mögulegum - 100 prósent stiga í húsi

Markatala: +3 (5-2)

Real Sociedad á móti liðunum í 4. til 20. sæti:

9 stig af 42 mögulegum - 21 prósent stiga í húsi

Markatala: -7 (13-20)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×