Fótbolti

Skandall ef Ronaldo verður ekki kosinn bestur í heimi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður Evrópu í fyrra.
Cristiano Ronaldo fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður Evrópu í fyrra. vísir/getty
Portúgalski varnarmaðurinn Pepe, samherji Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid og í landsliðinu, segir að það yrði skandall ef Ronaldo vinnur ekki gullboltann í ár sem besti knattspyrnumaður heims.

Ronaldo var kosinn bestur í heimi í annað sinn á ferlinum í fyrra eftir að Lionel Messi hafði einokað verðlaunin í fjögur ár.

Ronaldo fór fyrir sínu liði sem vann loks tíunda Meistaradeildartitilinn og bætti markametið í Meistaradeildinni um leið.

Þessi 29 ára gamli leikmaður hefur hvergi slegið slöku við á nýrri leiktíð og er nú þegar búnn að skora 23 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum.

Búist er við að Portúgalinn fái samkeppni frá þýska markverðinum Manuel Neuer og Argentínumanninum Lionel Messi sem kjörinn var besti leikmaður HM 2014.

„Ef einhver annar leikmaður vinnur verðlaunin ættu menn að skammast sín miðað við það sem Cristiano hefur verið að gera. Hann er alltaf að bæta met og skoraði 17 mörk í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð,“ segir Pepe í viðtali við A Bola.

„Á þremur mánuðum er hann búinn að skora 23 mörk. Hvað getur hann gert meira? Hann er besti leikmaður sögunnar og ég endurtek: Það er skandall ef hann fær ekki gullboltann.“

Ronaldo hefur skorað 275 mörk í 263 leikjum fyrir Real Madrid síðan hann gekk í raðir liðsins frá Manchester United árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×