Fótbolti

Björn Bergmann lánaður til Molde

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson hefur verið lánaður frá enska C-deildarliðinu Wolves til Molde í Noregi, þar sem hann mun klára tímabilið.

Þetta er staðfest á heimasíðu Wolves í dag en þar sem tímabilinu í Noregi lýkur ekki fyrr en seint í haust verður Björn Bergmann ekki gjaldgengur með Wolves á nýjan leik fyrr en um næstu áramót. Það er þó talið að Molde hafi forkaupsrétt á honum að samningstímanum liðnum.

Björn Bergmann kom fyrst til Englands sumarið 2012 frá Lilleström í Noregi fyrir um 370 milljónir króna. Hann var keyptur til liðsins af Ståle Solbakken, þáverandi þjálfara liðsins.

Núverandi stjóri Wolves, Kenny Jackett, segir að það hafi verið ósk Björns að komast í burtu frá liðinu og út fyrir England.

„Honum finnst að fótboltinn þar muni henta honum betur en í Englandi og þá sérstaklega í League One [C-deildinni],“ sagði Jackett.

„Hann fer nú til mjög góðs félags í eitt ár þar sem hann fær tækifæri til að byggja sig upp á nýjan leik.“

Björn Bergmann, sem hefur ekkert spilað með Wolves á nýju ári, var alls 33 sinnum í byrjunarliði Wolves og kom 27 sinnum við sögu sem varamaður. Hann skoraði alls sjö mörk.


Tengdar fréttir

Björn Bergmann á leið aftur til Noregs

Norskir fjölmiðlar greina frá því að norsku bikarmeistararnir í Molde séu á góðri leið með að fá Björn Bergmann Sigurðarson frá Wolves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×